Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 11:25:39 (6697)

1997-05-16 11:25:39# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[11:25]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bregðast við umfjöllum síðasta hv. þm. um nauðsyn ítarlegri lagasetningar en verið hefur til þessa um lánasjóðinn. Hún gerði völd stjórnar LÍN að sérstöku umtalsefni. Það er engin breyting í þessu frv. hvað það varðar, önnur en tillaga meiri hlutans um hlutlausa málskotsnefnd. Frá upphafi hafa lög um lánasjóðinn verið einföld og nánar útfærð í reglugerð og úthlutunarreglum. Það væri grundvallarbreyting að færa efnisútfærslu úthlutunarreglnanna inn í lögin og gera þau þar með ítarlegri. Ég er ekki viss um að það væri til bóta og námsmönnum í hag. Þeir hafa sterk ítök í stjórn sjóðsins þar sem þeir eiga helming fulltrúa í stjórninni. Tilgangur endurskoðunar að þessu sinni var fyrst og fremst að ná sátt um starfsemi sjóðsins og sníða helstu vankanta af lögunum.