Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 11:52:47 (6704)

1997-05-16 11:52:47# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[11:52]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þegar lögum var breytt 1992 um Lánasjóð ísl. námsmanna var það í rauninni mikið áfall fyrir námsmenn á Íslandi sem höfðu búið við mjög öruggt og gott kerfi fram til þess dags en sem var haldið í fjársvelti svo ekki var hægt að framkvæma það eins og lög sögðu fyrir um. Afleiðingar af lagabreytingunni stóðu ekki á sér og fækkaði t.d. barnafólki í hópi námsmanna. Ákveðin atriði benda líka til þess að námsmönnum hafi fækkað mjög úr hinum dreifðu byggðum landsins.

Þegar þessi lagabreyting var samþykkt á Alþingi var sérlega minnisstæð andstaða Framsfl. sem viðhafði mjög stór orð við afgreiðslu málsins og sór mikla eiða um að þegar þeir kæmu til valda yrði það þeirra fyrsta verk að breyta þessum lögum til baka. Loforð sín endurtóku þeir svo eftirminnilega í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar og var það rifjað mjög rækilega upp í 1. umr. Þeir fengu mikinn stuðning frá námsmönnum vegna þess hversu afdráttarlausa afstöðu þeir gáfu upp um að þeir mundu láta það verða sitt fyrsta verk að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna.

Afstaða Sjálfstfl. til lánasjóðsins hefur að sjálfsögðu alltaf verið blendin. Þetta hefur aldrei verið þeirra uppáhaldsbarn og þeir vildu sjálfsagt standa að því sem þeir kalla forgangsröðun á menntamálum í ríkiskerfinu öðruvísi en með því að styrkja sérstaklega Lánasjóð ísl. námsmanna enda ber þetta viðhorf það mjög með sér.

Þegar frv. kom fram nú seint og um síðir þegar nærri var hálfnað kjörtímabil ríkisstjórnarinnar má segja að það hafi valdið miklum vonbrigðum. Að vísu voru örlítil framfaraskref stigin með þessu frv. en það gengur engan veginn það langt sem vonir höfðu staðið til, þegar framsóknarmenn stóðu að lagabreytingum í málinu og voru komnir til valda í ríkisstjórn. Ég á aðild að minnihlutaáliti og brtt. minni hluta sem Svanfríður Jónasdóttur hefur gert mjög vel grein fyrir í ræðu og ég ætla svo sem ekki að endurtaka það en tek undir hvert orð sem hún sagði en ég ætla að fara hér nokkrum orðum um frv. og reyna að lengja þessa umræðu ekki um of. Ég fór mjög ítarlega yfir þessi mál og svo viðhorf mín til þeirra í 1. umr.

Í 1. gr. frv. kemur fram eitt það jákvæðasta sem er við þetta frv. Það er að ráðgert er að Bandalag ísl. sérskólanema fái samkvæmt tilnefningu Iðnnemasambandsins einn fulltrúa í stjórn lánasjóðsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að það bætist við einn fulltrúi enn sem skipaður er af ráðherra. Ég vildi bera fram þá frómu ósk hér að sá fulltrúi, sem ráðherra skipar til viðbótar, verði sérstaklega skipaður úr hópi þeirra sem hafa notið námslána og eru í hópi þeirra sem eru nú að greiða vegna þess að ég tel mjög brýnt að sjónarmið þeirra heyrist skýrar en e.t.v. hingað til inn í stjórn lánasjóðsins.

Í 2. gr. frv. var gert ráð fyrir því að úrskurðir stjórnar lánasjóðsins í vafamálum yrðu endanlegir og yrðu ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Þessu var mjög mótmælt við 1. umr. og liggur nú fyrir tillaga frá meiri hluta menntmn. þar sem er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi þriggja manna málskotsnefnd. Ég geri mér grein fyrir að þessi ráðstöfun getur slegið í báðar áttir og ég legg til að fylgst verði mjög náið með starfi málskotsnefndarinnar og þetta atriði verði svo sérstaklega tekið upp aftur og þessi nefnd skipuð eitthvað öðruvísi ef ástæða þykir til.

Í 3. gr. frv. er það furðulega ákvæði um að námsmenn fái vaxtastyrk til að greiða mismun á milli bankalána og námslána, vaxtamun. Ég varð að lesa þessa grein oft þegar ég sá hana fyrst til yfirleitt að skilja hana og gera mér grein fyrir hvers vegna eru ekki lagðar til beinar samtímagreiðslur eins og alltaf hafði verið gert ráð fyrir í umræðunni og hafði verið áður. En það er kannski aðeins að opnast fyrir mér skilningur á því hvers vegna þessi furðulegi bankakrókur með vaxtastyrkjum er farinn. Það er kannski vegna þeirrar sérstöku jákvæðu reynslu sem hv. þm. Hjálmar Árnason, 7. þm. Reykn., hefur af þjónustufulltrúum banka. Skilst mér helst að hann eigi þá ósk heitasta að námsmenn fái sem bestu kynni af því ágæta fólki til að lyfta því svolítið upp í lífsbaráttunni. Ef til vill mun það sérstaklega létta námsmönnum lífið að fá að eiga slík samtöl og viðskipti við þjónustufulltrúa banka en ég held að ódýrara hefði verið og eðlilegra fyrir ríkissjóð að þessar greiðslur hefðu komið beint út úr lánasjóðnum sjálfum.

[12:00]

Það er áfram gert ráð fyrir að lán úr sjóðnum skuli verðtryggð. Ég held að það sé svo sem ekki ástæða á þessu stigi að gera sérstaka athugasemd við það, en mér finnst að í höfuðatriðum eigi lán annaðhvort að vera verðtryggð eða með vöxtum en ekki hvort tveggja eins og gert er ráð fyrir í lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Mér finnst allt í lagi að það atriði verði áfram til skoðunar með opnum huga hvernig þessum málum verði e.t.v betur fyrir komið.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir að fastagreiðslan verði óbreytt, þ.e. 52.698 kr. miðað við vísitölu neysluverðs 177,8 og viðbótargreiðslan verði miðuð við 4,75%. Ég hef svo sem skilið það að menn hafi verið að sneiða að mér þegar þeir tala um að ég hafi ekki viljað hlusta á að endurgreiðslan ætti að verða 7% á næstunni og þess vegna sé þessi hækkun töluverð, þ.e. úr 5--7% niður í 4,75%, en ég var búin að heyra það lengi að hvað eftir annað hefði komið til umræðu í stjórn lánasjóðsins að breyting í 7% yrði aldrei látin koma til framkvæmda því að það mundi endanlega gera út um vonir námsmanna yfirleitt að geta orðið lánshæfir í húsnæðiskerfinu. Þess vegna hafi það í rauninni legið fyrir að sú lagabreyting sem var gerð 1992 um 5--7%, að 7% mundu aldrei koma til framkvæmda. Þess vegna hef ég litið svo á að þetta væri í rauninni aðeins lækkun um 0,25%, enda er það svo miðað við það sem hefur verið því að 7% voru aldrei komin til framkvæmda þó að það hafi e.t.v. verið áformað þannig einhvern tímann.

Sem betur fer bar meiri hluti nefndarinnar gæfu til að leggja til að orðið ,,ríflegan`` úr 6. gr. yrði fellt brott því að ég verð að bera fram efasemdir um að það hefði yfirleitt staðist stjórnarskrá að setja í lög að áætla ætti eitthvað sem héti ríflegan útsvarsstofn ef ekki næðist í fólk eða upplýsingar þess teldust ósennilegar. En því var sem sagt breytt og fyrir það ber að þakka.

Í 7. gr. er líka nýmæli um að heimilt verði að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla og er talað þarna sérstaklega um veikindi námsmanns og tímabundið skipulag skóla sem standi í vegi fyrir að fólk geti skilað fullri námsframvindu. Ég verð að ítreka það sem kom fram í nál. minni hluta að mjög áríðandi er að skilgreint verði nánar hvað er átt við. Ég hef fengið upplýsingar um að hingað til hafi þetta alltaf verið túlkað á þrengsta veg í stjórn lánasjóðsins og ég hef ástæðu til að ætla að svo verði áfram, að því viðbættu að auðvitað verður tekið tillit til þess sem tekið er fram í lagagreininni, en ég tel ástæðu til að fara mjög nákvæmlega yfir þessi mál og hvað það er sem námsmaður fær ekki við ráðið og alltaf getur komið upp á sem veldur því að hann geti ekki staðist kröfur um námsframvindu, og eigi þess vegna að falla undir slíkt ákvæði.

Ég vil að lokum ítreka það að mjög áríðandi er að endurskoða þessi lög á nýjan leik og gera þau mun nákvæmari svo að ekki þurfi slíkt reglugerðafargan að vera á ferðinni eins og nú er um stjórn lánasjóðsins og veldur töluverðu óöryggi hjá námsmönnum vegna þess að iðulega er verið að breyta þessum reglum. Það hefur iðulega verið þannig. Það eru að vísu aðeins gefin fyrirheit um að eitthvað verði dregið úr þessum breytingum en ég held að mjög áríðandi sé að setja sem mest af slíkum ákvæðum inn í löggjöf.