Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 15:27:39 (6717)

1997-05-16 15:27:39# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar frá hv. 8. þm. Reykv. vil ég taka fram að mér bárust tvö bréf frá Akranesi, bæði dagsett 13. janúar og undirskrifuð af bæjarstjóra. Í öðru er svohljóðandi tilvitnun í ályktun bæjarstjórnar, með leyfi forseta:

,,Bæjarstjórn Akraness vekur sérstaka athygli á því og gerir um það eindreginn fyrirvara varðandi starfsemi á svæðinu að vatnstökumál á svæðinu sunnan Skarðsheiðar eru óleyst. Er í því efni tekið undir ályktun heilbrigðisnefndar Akranessvæðis að starfsleyfi nýrrar álverksmiðju verði gefið út og framkvæmdir við það ekki hafnar fyrr en samkomulag hefur náðst milli sveitarfélaga á svæðinu, ríkisins og álfyrirtækisins um lausn á þeim málum þannig að vatnstaka vegna núverandi byggðar sunnan Skarðsheiðar verði tryggð. Bæjarstjórnin samþykkir að vekja sérstaka athygli félmrn. á þessu atriði.``

Hitt bréfið er miklu lengra. Í niðurlagi þess segir, með leyfi forseta:

,,Komi hins vegar í ljós að vatnsbólið mengast frá álverinu þó svo að álfyrirtækið uppfylli það starfsleyfi sem gefið verður út, þá áskilur Akraneskaupstaður sér rétt til skaðabóta fyrir öllu fjárhagslegu tjóni beinu og óbeinu úr hendi íslenska ríkisins.

Framangreind samþykkt bæjarstjórnar Akraness tilkynnist yður hér með.``

Þessi bréf eru dagsett 13. janúar. Við kvittuðum fyrir móttöku þessara bréfa bréflega 27. janúar. Mér er kunnugt um að viðræður hafa verið milli iðnrn. og Akurnesinga en mér hefur ekki borist nein erindi frá Akranesi eftir það og tek það svo að bæjarstjórn Akraness sætti sig við stöðu mála eða framvindu mála eins og hún hefur verið. Ég tel hins vegar að eðlilegt sé frá hendi bæjarstjórnar Akraness að hafa vaðið fyrir neðan sig og ef illa fer er einboðið að Akranesbær beri ekki tjón ef t.d. þyrfti að fara að sækja vatn um langan veg. Ég tel það alveg einboðið að félmrn. aðstoði Akranes í slíku tilfelli við að ná rétti sínum.

Annað var það ekki, herra forseti.