Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 16:24:30 (6727)

1997-05-16 16:24:30# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:24]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur vakið nokkra athygli þó ekki sé meira sagt að í þessari umræðu hefur það komið fram að sumir hafa litið svo á að undirlendið við Hvalfjörð og Grundartangi væri ekki heppilegt til að staðsetja þar stóriðju. Þeir sem halda þessu fram hafa af tveimur ástæðum viljað fjalla um málið, annars vegar út frá byggðasjónarmiði og hins vegar út frá mengunarmálum.

Á sínum tíma, á 104. löggjafarþingi Íslendinga 1981, sátu í ráðherrastólum bæði hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ég held að það sé óhjákvæmilegt í þessari umræðu að fara yfir viðhorf manna á þessum tíma vegna þess að sú þáltill. sem þá var borin upp var samþykkt. Hv. þáv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson var flm. tillögunnar að sjálfsögðu og markaði þar með þá stefnu sem taka skyldi í virkjunarmálum Íslands og stóriðjumálum einnig. Ef þetta er lesið í samhengi þá blasir við hvað var rætt um. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, renna hér yfir tillöguna:

,,Samhliða næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjun verði unnið að orkuöflunarframkvæmdum á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, sem auki verulega afkastagetu um allt að 750 GWh á ári.

Blönduvirkjun, samkvæmt virkjunartilhögun I, verði næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun, enda takist að ná um það samkomulagi við heimamenn.

Fljótsdalsvirkjun og Sultartangavirkjun verði næstu meiri háttar vatnsaflsvirkjanir á eftir Blönduvirkjun. Ákveðið er að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun skarist, og að Sultartangavirkjun verði samhliða Fljótsdalsvirkjun, eftir því sem orkunýting gefur tilefni til.

Ráðist verði í orkufrekan iðnað með ótvíræðu íslensku forræði, sem tryggi hagkvæma nýtingu orku frá ofangreindum virkjunum. Skal í því skyni hraða hagkvæmniathugunum á m.a.: Kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, áliðju, stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, trjákvoðuverksmiðju og sjóefnaiðnaði, svo sem natríumklóratvinnslu og magnesíumframleiðslu.

Við niðurröðun og staðsetningu slíkra iðjuvera verði tekið mið af þjóðhagslegri hagkvæmni og æskilegri byggðaþróun og í því efni m.a. gert ráð fyrir slíkum iðnaði á Suðurlandi og Norðurlandi.

Við tímasetningu virkjunarframkvæmda og byggingu iðjuvera skal leitast við að haga framkvæmdum á þann veg, að mannafla- og vinnuvélaþörf verði sem jöfnust á framkvæmdatímabilinu. Tilgangurinn með þessari tilhögun er að gera íslenskum verktökum kleift að annast þessar framkvæmdir og koma í veg fyrir tímabundin og staðbundin vandamál á vinnumarkaðinum.

Verði ekki ráðist í Blönduvirkjun nú, komi Fljótsdalsvirkjun í hennar stað sem næsta meiri háttar vatnsaflsvirkjun fyrir landskerfið, enda geti hún hafið orkuframleiðslu fyrir árslok 1987.``

Þessi tillaga var stórhuga. Hún var byggð á þeim draumi að það bæri að virkja fallvötn Íslands og það bæri að nýta þann arð sem fengist með þeim virkjunum til að auka hagsæld í landinu. Ég tel að þarna hafi verin tekin stór ákvörðun og stigið stórt skref. Það hefur vissulega brugðist, eins og mál eru sett upp í dag, að ekki er um virk eignarréttaryfirráð Íslendinga yfir stóriðju að ræða í þeim hugmyndum sem fyrir liggja. Það má þó öllum ljóst vera sem þetta lesa og þá fyrst og fremst þeim ráðherra sem lagði þetta fram að hér er verið að leggja til mestu aðgerðir til virkjunarframkvæmda í sögu íslenskrar þjóðar og til stóriðjuáforma sem nokkru sinni hafa verið settar á blað.

[16:30]

Þær eru svo stórar að náttúruspjöllin sem hljótast af þeirri framkvæmd þegar þetta allt verður framkvæmt eru meiri en nokkur önnur á Íslandi. Þetta eru hinar sögulegu staðreyndir málsins. Á sínum tíma talaði fyrir málinu iðnrh. sem enginn efaðist um að hefði hag þjóðar sinnar sem markmið í sínum málflutningi og vildi vinna að því að Íslendingar gætu notið arðsins af fallvötnunum. Við sem þá vorum óbreyttir þingmenn stóðum í því að vinna að brautargengi þessa máls og þó að þáltill., sem samþykkt hafði verið, hafi tæplega verið jafnstór og sú sem lögð er hér fyrir, þ.e. það var frekar dregið úr en hitt, þá blandast engum hugur um að það var vilji manna á þeim tíma að þessi stefna yrði tekin með samfelldum framkvæmdum þar til markmiðinu væri náð. Það kemur fram þegar minnst er á vinnuvélar og slíka hluti.

Hvað hefur stöðvað það af að þetta hefur ekki verið hægt? Það sem hefur stöðvað það af er sú staðreynd að við höfum ekki getað náð viðunandi orkusamningum. Ég er ekki að álasa neinum með því að segja það. Ég er aðeins að undirstrika þá staðreynd að þeir sem hafa farið með þessi mál hafa ekki talið að þeir hafi náð viðunandi orkusamningum til þess að hægt væri að vinna jafnhratt og þarna var lagt til. Hins vegar má hverjum manni ljóst vera að mengun af völdum þessara mannvirkja, sem ætlunin var að reisa, fyrir alla þá orku sem er verið að tala um hlaut að verða þó nokkuð mikil. Þekkingarlega séð er ekkert vafaatriði að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði sér betur grein fyrir því en nokkur annar að verið var að tala um mjög mikla stóriðju og mjög mikil náttúruspjöll og mjög mikla mengun sem af því mundi leiða miðað við þá mengun sem fyrir var í landinu. Þetta blasti við. Þegar þessi tillaga er samþykkt af Alþingi Íslendinga er stefnan mörkuð.

Nú er það svo að við erum margir óánægðir með byggðaþróun í landinu. Ég er ekki sáttur við það hver byggðaþróun er og ég er ekki sáttur við það að þannig skuli vera staðið að stefnumörkun í sjávarútvegsmálum, að það hafi leitt til þess að hinar gömlu verstöðvar hafa farið mjög halloka í því að halda aflahlutdeildum sínum því ég er sannfærður um að það verður minnst olíunotkun til þess að ná þeim fiski úr sjónum sem við þurfum að veiða ef sú veiði verður mest stunduð frá þeim stöðum þar sem hinar gömlu verstöðvar voru. Þar er yfir höfuð oftast styst á miðin.

Í inngangi grg. með þáltill. er getið um það hvað skuli haft til viðmiðunar við ákvörðun um hvar stóriðjan eigi helst að rísa. Ég held að það sé ekkert vafaatriði að sú stefnumörkun sem þar var sett upp, þ.e. að hún eigi að rísa í nálægð við helstu virkjunarstaði, sé sú stefna sem hver heilvita maður sem kynnir sér málin hlýtur að líta á sem hina arðvænlegustu ef þar eru hafnarskilyrði góð. Nú eru hvergi betri hafnarskilyrði við þetta land, miðað við virkjun á Þjórsársvæðinu, en við Hvalfjörð. Hvergi ódýrara að byggja höfn en á því svæði. Kannski er rétt að rifja það upp líka að á sínum tíma þegar Magnús Stephensen og frændur hans réðu sem mestu hér á landi voru uppi hugmyndir um það af þeirra hálfu að hugsanlegur valkostur fyrir höfuðborg Íslands væri norðanverðu við Hvalfjörð, á Leirársvæðinu, sem er besta byggingarland sem til er á suðvesturhorni landsins. Hættuminnsta byggingarsvæðið, horft út frá eldgosum, hættuminnsta byggingarsvæðið horft út frá jarðskjálftum. Rökin fyrir því að staðsetja þar mjög stóra borg eru því vissulega enn til staðar.

Nú er það svo að vegalengdir styttast ekki en tíminn til að komast ákveðna vegalengd getur styst. Bætt samgöngukerfi hefur leitt til þess að uppbygging við norðanverðan Hvalfjörð hefur slagkraft langt út frá sér. Samkvæmt efnahagsforsendum nær sá slagkraftur upp á miðja Holtavörðuheiði þar sem Borgarbyggð endar því að Borgarbyggð á vissan hlut í höfninni á Grundartanga og að sjálfsögðu nær slagkrafturinn einnig þar sem Mýrasýsla nær. Þetta eru staðreyndir. Ég er einnig sannfærður um það að sú staðreynd að nú kemur til aðili sem er ekki frá Evrópu heldur frá Ameríku ætti að geta auðveldað okkur að ná niður verðlagi á flutningskostnaði frá Ameríku til Íslands og frá Íslandi til Ameríku sem er óhóflega mikill.

Ég verð að segja eins og er að ég sé þess vegna mjög mörg rök hníga með því að stóriðjan sé staðsett á Grundartanga. Komist Fljótdalsvirkjun í gagnið eins og ég veit að við báðir vonum, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ég, þá verður tekist á um það hvar eigi að byggja stóriðjuver. Ég vona að það verði á Austurlandi. Ég vona að það stóriðjuver verði byggt á Austurlandi því mér finnst rökrétt að þeir eigi rétt á því og ég teldi mjög óeðlilegt að flytja þá orku t.d. alla leið hingað. En í umræðunni hafa menn í hita leiksins fest mjög mikið í deilu um að ákveðinn þrýstihópur rís upp og segir: Við viljum ekki hafa stóriðju í nágrenni við okkur. Og sumarbústaðareigandi uppi í Kjós, prófessor við Háskóla Íslands, (Gripið fram í: Hver er það?) skrifaði grein í Morgunblaðið og fór fyrir hópnum. Hann heitir Arnór Hannibalsson. (Gripið fram í: Hann býr í Kjósinni en er ekki sumarbústaðareigandi.) Ég sagði að hann væri sumarbústaðareigandi í Kjósinni. Hér er því haldið fram að hann búi þar allan ársins hring. Það má vel vera að svo sé. Ég hef farið fram hjá þarna ansi oft og séð hvaða bílar standa þarna á hlaði og mér þykir það með ólíkindum ef hann ferðast ríðandi frá þessum bústað að staðaldri. (Gripið fram í: Hefur þetta eitthvað með málið að gera?) Nei, þetta hefur ekkert með málið að gera. Hins vegar hefur þetta með frammíkall hv. þm. að gera. Það má vel vera að hann hafi rétt fyrir sér að hann sé búandi þarna allan ársins hring. Það verður þá að skoða það sem staðreynd og ég dreg þá þá fullyrðingu til baka að hann sé sumarbústaðareigandi, hann er þá húseigandi uppi í Kjós.

Nú er það svo að Vestfirðingafjórðungur og Sunnlendingafjórðungur mætast í Hvalfirði, fyrir botni Hvalfjarðar, og það hefur ekki gerst frá því á Sturlungaöld að ófriður yrði á milli þessara landshluta enda hafa menn haft sæmilega sátt um það að skipta sér ekki af uppbyggingu hvor hjá öðrum í þessum efnum. Vel má vera að menn líti á það sem sjálfsagðan hlut að þeir sem búa sunnan við Hvalfjörð eigi að ráða því hvað byggt er hinum megin við fjörðinn en eiga þeir þá á Snæfellsnesinu að ráða því hvað byggt er á Reykjanesi? Ég veit ekki betur en að Snæfellsnesið komi beint á móti Reykjanesinu. Það sem meira er, allt sem fer í sjóinn við Reykjanes rekur upp á Snæfellsnes, meðfram stöndinni og straumunum. Ég held nefnilega ef menn ætla að fara í þetta stríð út frá loftmengun og slíkum hlutum sé það nú svo að jafnvel Bretar verða að hafa það að fá lyktina af svínaskítnum yfir sig yfir sundið frá Hollandi á vorin, og eru þó heimsveldi, og mega ekki rönd við reisa. En hérna er það að prófessorinn í Kjósinni vill hafa það alveg á hreinu að hans ríki nái yfir Hvalfjörð til afskipta. (Gripið fram í: Er svínaskítur ....?) Það er mikill svínaskítur í Hollandi, mjög mikill. Bændur bera þennan skít á tún sín þegar vorar, það eru komnar reglur að vísu um að plægja þetta í jörðina og þar fram eftir götunum en engu að síður er það staðreynd að lyktin berst yfir Ermarsund og Bretar hafa kvartað en ekki fengið rönd við reist.

Ég tel að vissulega sé hægt að ræða það fram og til baka hvort ráðherra hafi brotið lög eða ekki. En ef menn virða þrískiptingu valdsins hlýtur að vera eðlilegt að dómstólar skeri úr um það efni. Jafnvel ráðherrann hlýtur þá að eiga rétt á því að dæmt verði í því máli. Tveir íslenskir ráðherrar hafa verið dæmdir fyrir það að gefa út reglugerðir sem hafa ekki staðist. Í báðum tilfellum kostaði það íslenska ríkið fjármuni, í öðru tilfellinu þó nokkra fjármuni. Hvorugur sagði af sér á sínum tíma út af þeim málum. Hins vegar ætla ég ekki að verja það ef reglugerð er röng og ég ætla ekki heldur að dæma í því máli. Það verða þeir að gera sem eru færari að meta lög. Þó að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi gefið lýsingu á því hvaða hæfni menn hefðu, það þyrfti meðalgreind og að vera læs ef ég man þetta rétt, og hvatti Guðmund Bjarnason til þess að fara í að lesa þetta yfir, sem ég tel yfirlýsingu um að hann telji hann bæði læsan og meðalgreindan í stöðunni og sýnir það að menn eru ekki svo heitir að þeir geti ekki rætt í ró um þetta, þá er skoðun mín samt sem áður sú að ekki verði hægt að meta lögmæti þess starfsleyfis, sem verið er að tala um, nema fyrir dómstólum eins og mál standa í dag.

Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. fyrrv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson, hafi með flutningi tillögunnar og Alþingi Íslendinga með samþykkt hennar 6. maí 1982, hrint þeim væntingum af stað hjá íslenskri þjóð sem ekki væri aftur snúið, að hér bæri að fara í virkjunarframkvæmdir og hér bæri að fara í stóriðju. Hafi Alþingi verið að blekkja íslenska þjóð með von um arðsemi af þessu á sínum tíma, hefur sá sem stóð fyrir blekkingarleiknum verið hæstv. iðnrh. þeirra tíma. Ég vil ekki trúa því að þannig hafi verið staðið að málum. Ég vil trúa því að hann hafi verið sannfærður um að það væri rétt sem verið væri að leggja fyrir þingið og það væri rétt að þingið samþykkti tillöguna. Sem einn af þeim sem studdu það á sínum tíma vil ég segja það hér og nú að ég mundi styðja það aftur ef hún kæmi til atkvæða.