Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 17:12:37 (6734)

1997-05-16 17:12:37# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:12]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði reyndar ekki nokkurn skapaðan hlut um starfsaðstæður í stóriðjuverum. Ég minntist ekki á það. Ég talaði um neikvæð áhrif stóriðjufyrirtækja á þá ímynd hreinleika og ómengaðs umhverfis sem ég tel að séu fyrir hendi. Ég talaði aðallega um þau áhrif. En úr því að hv. þm. minntist á starfsumhverfi í þessum verksmiðjum þekki ég líka fólk sem vinnur í þessum verksmiðjum. Ég þekki líka fólk sem vinnur í Straumi og ég veit að ekki líður öllum óskaplega vel í þessu starfsumhverfi. Margir þurfa að vinna við ýmiss konar aðstæður vegna þess að þeir þurfa að vinna fyrir sér og það er ekki svo að menn bara gangi út af sínum vinnustöðum hvernig sem þeim líður af því að þeir hafa kannski ekki að öðru að hverfa.

Hins vegar þekki ég alveg þessi rök líka. Mörgum líður vel þarna. Margir vilja vinna þarna vegna þess að þeir fá hærra kaup en þeir fengju annars staðar þannig að það má kannski segja að fólk sé nánast keypt til að vinna á þessum stöðum. En ég er fyrst og fremst andvíg stóriðjuuppbyggingu hér á landi vegna þess að ég tel að hún hafi áhrif á þá möguleika sem ég tel miklu betri og muni skila okkur betri framtíð í þessu landi en stóriðjan.