Álbræðsla á Grundartanga

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 17:14:49 (6735)

1997-05-16 17:14:49# 121. lþ. 128.2 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., Frsm. minni hluta SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:14]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir einkar fróðlega ræðu sem kom mjög víða við og vakti til umhugsunar um þau mál sem eru efst á baugi og við erum að ræða í dag. Ég tel að fengur sé að því að hlýða á ræður af því tagi sem hann flutti hér áðan.

Ég þakka einnig hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir vissar ábendingar um stefnu Framsfl. sem mér fannst koma fram í andsvari hans áðan og ég mun fara aðeins yfir í ræðu minni og þakka báðum þessum samþingmönnum mínum fyrir það að opna þetta svið umræðunnar jafnglöggt og þeir hafa gert.

Ég vek athygli á því að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson taldi að við alþýðubandalagsmenn hefðum haft forustu um nýtingu orkulindanna á Íslandi og ég þakka honum fyrir þessa lýsingu því að þetta er rétt. Við höfum yfirleitt ekki fengið að njóta sannmælis í þessu efni. Morgunblaðið hefur t.d. verið í 20 ára herferð gegn hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og einstaka framsóknarmenn eins og t.d. núverandi formaður Framsfl. hafa vikist mjög harkalega að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni í þessum efnum. En staðreyndin er sú að sú orkustefna, þ.e. að því er varðar virkjanir og annað slíkt í tengslum við þær, var að nokkru leyti mótuð í okkar tíð. Það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði á áherslu var það að skapa samstöðu um þær ákvarðanir. Hann er sá iðnrh. sem hefur gengið lengst í þeim efnum og kallaði m.a. til af þeim ástæðum menn úr öllum flokkum en ekki bara úr stjórnarflokkunum eins og tíðkast núna þar sem menn virða ekki stjórnarandstöðuna viðlits og vilja ekki hafa hana nálægt sér ef þess er nokkur kostur að komast hjá því, a.m.k. ekki Alþb.

Ég tel að stefnumótun hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar hafi þannig séð markað ákveðin þáttaskil í orkuumræðu á Íslandi og ég tel ástæðu til að vekja athygli á því og þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að vekja þannig athygli á þessari sögulegu staðreynd í sögu orkumála á Íslandi og Alþb.

Það sem kom fram í þessum áherslum var það að Íslendingar ættu að njóta arðsins af fallvötnunum eins og hv. 2. þm. Vestf. orðaði það. Það var útgangspunktur í málinu. Út frá því voru áherslurnar mótaðar og út frá því birtist sú þál., sem samþykkt var á Alþingi og hann las upp í heild, að Íslendingar nytu arðsins af fallvötnunum.

Deilurnar í orkumálum síðan hafa snúist um þetta. Við alþýðubandalagsmenn höfum talið að ekki hafi alltaf verið tryggt sem skyldi að Íslendingar nytu þessa arðs vegna þess að þó að við eigum virkjanirnar er það svo að arðurinn birtist ekki bara í orkuverðinu heldur líka í afurðum þeirra verksmiðja sem vinna úr orkunni. Við höfum talið að okkar hlutur í orkuverðinu hafi verið of smár en hlutur hinna sem við sömdum við í útflutningi á afurðum stóriðjuverksmiðjanna hafi stundum verið of stór. Við höfum með öðrum orðum talið að stundum hafi það verið þannig eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson vakti athygli á að Íslendingar hafi ekki notið arðsins sem skyldi. Það er grundvallaratriði í málinu. Og m.a. af þeim ástæðum gagnrýni ég það að svona skuli staðið að þessu álveri á Grundartanga af því að ég tel að orkuverðið í heiminum sé á uppleið og ég tel að við nýtum okkur það ekki heldur lútum að litlu í því frv. eins og það lítur út hér. Þetta er auðvitað lykilatriði ef orkan á að verða sá undirstöðuþáttur í lífskjörum komandi tíma á Íslandi að þá verðum við að halda utan um þetta og á þeim forsendum var þessi tillaga samþykkt á sínum tíma undir forustu Alþb. og Alþb. lagði á það áherslu að allir flokkar kæmu að því máli.

Hv. þm. vék síðan að þeim flóknari þáttum í því máli sem alltaf eru álitamál og þá fyrst það að um væri að ræða náttúruspjöll. Ég ímynda mér ekki að hv. þm. hafi verið uppi með málflutning sem maður heyrir reyndar stundum að það er reynt að slá því föstu að það sé jafnaðarmerki milli stefnumótunar eins og þeirrar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var með og náttúruspjalla. Heyrði ég það einhvers staðar á milli línanna í ræðu hv. þm. að hann væri að reyna að kenna hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að það hefðu orðið náttúruspjöll? Gat verið að það væri á framsóknarvísu verið að gefa það í skyn að það væri Alþb. sem bæri ábyrgð á því að það hefði orðið um að ræða einhver náttúruspjöll og aðrir væru þar af leiðandi saklausir? Það væri líkt þeim framsóknarmönnum því að það kæmi stundum fyrir hjá þeim en ekki hv. öðrum þm. Vestfjarða enda er hann af Sturlungaætt. (ÓÞÞ: Ég sagðist mundu styðja tillöguna aftur.) Tillöguna, ég er ekki að tala um tillöguna, hv. þm., og það er alveg nauðsynlegt þegar við erum að tala um jafnflókið mál ... (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁ): Hljóð í þingsal.)

Ég kann vel að meta frammíköll hv. 2. þm. Vestf.

(Forseti (GÁ): Ekki samræður.)

Ég skora á hæstv. forseta að veita honum frelsi til að kalla fram í eins og hann vill og leyfa Sturlungum að talast eðlilega við samkvæmt þingsköpum.

Ég held að það sé nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að þetta mál er flókið og menn mega ekki kasta saman ólíkum hlutum eins og annars vegar nýtingarstefnunni og hins vegar náttúruspjöllunum án þess að tala um á hluti í eðlilegu og skýru samhengi. Hvaða náttúruspjöll er þá hér um að ræða?

Ég mundi kannski ekki orða það svo að almennt væri um að náttúruspjöll að ræða en ég viðurkenni að oft er um að ræða breytingar á náttúrunni eða eðlilegum og venjulegum þáttum í lífríkinu, t.d. inni á hálendinu. Ég nefni þar Blönduvirkjun sem er í tillögunni og ég gæti líka nefnt í því sambandi spurninguna um Eyjabakkalón og Eyjabakkasvæðið og ég gæti nefnt fleiri slíka hluti.

Ég er hins vegar algerlega sannfærður um það að í þeim efnum man ég það eins vel og það hefði gerst í gær að fáir þingmenn eða ráðherrar hafa lagt eins mikla áherslu á það að umgengni við umhverfið eða náttúruna væri eins vönduð og traust og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ég veit að hv. þingmenn Framsfl., sem hafa kannski gaman af því í hita leiksins að reyna að koma höggi á okkur alþýðubandalagsmenn af einhverjum ástæðum, viðurkenna það að fáir menn hafa vandað sig betur í þessum efnum en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Aftur á móti þegar kemur að þessum málum núna, þá koma upp flóknari spurningar vegna þess að það er eins og með arðinn að á þessu máli, þ.e. menguninni eða náttúruspjöllunum, eru tvær hliðar, annars vegar því sem tilheyrir virkjununum og hins vegar því sem tilheyrir verksmiðjunum.

Þá kem ég að þriðja þættinum í þessari athyglisverðu ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar því að það er undirstöðuþáttur og kemur fram í því þingskjali sem hann las lauslega upp úr að á menguninni frá iðnaðarverksmiðjum verði tekið. Það er a.m.k. alveg ljóst að það er ekki nokkur leið að halda því fram að þá hafi verið tekin ákvörðun um mörg hundruð þúsund tonna af koldíoxíðígildum sem færu út í andrúmsloftið eins og nú er verið að taka ákvörðun um. Það er útilokað að halda því fram að þá hafi verið tekin ákvörðun um þau ósköp fyrir náttúruna og lífríkið í heiminum sem nú er verið að taka ákvörðun um, í heiminum (Gripið fram í: Í þessu frv.) í þessu frv. og öðrum skyldum málum sem er verið að ræða og birtist í þingskjali því sem ég dreifði hér, m.a. fylgiskjali frá Hollustuvernd ríkisins. Það er ekki uppfundið af mér. Það er verið að tala um að mörg hundruð þúsund tonn koldíoxíðígilda séu af gróðurhúsalofttegundum sem munu fara út í andrúmsloftið ef þessi stefna sem hér er verið að fylgja eftir verður framkvæmd til enda. Þá segi ég: Við alþýðubandalagsmenn höfum alltaf sagt í þessum málum: Mengunarvarnir verða að vera eins góðar og frekast er unnt frá tæknilegu sjónarmiði og þær eiga að vera svipaðar og gerist annars staðar. Þess vegna segjum við: Okkur finnst ekki eðlilegt og það er ekki okkar stefna og hefur aldrei verið að staðið sé að hlutunum eins og hér er verið að gera og hafnað sé kröfum um vothreinsibúnað á þessari verksmiðju þó svo viðurkennt sé að vothreinsibúnaður sé á öllum hliðstæðum verksmiðjum á Norðurlöndum um þessar mundir ásamt þurrhreinsun, þó svo viðurkennt sé að með því móti mætti ná miklu meiri árangri í hreinsun og þó svo viðurkennt sé að þennan búnað þurfi t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu og Reyðarfirði samkvæmt skýrslu Hollustuverndar ríkisins. En af hverju er þá Hvalfirði sleppt? Það er sennilega vegna þess sem kemur fram í skýrslu skipulagsstjóra ríkisins og er gefið þar í skyn að það sé nábýlið við járnblendið að þessa kröfu sé ekki hægt að setja á álverið því að þá verði að setja hana á járnblendið líka. Þetta er veruleikinn, herra forseti. Þetta er veruleikinn í málinu.

Ég kem þá að fjórða þættinum í málinu sem kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og það er þetta mál. Það stendur ekkert í tillögu hv. þm. eða samþykkt Alþingis á sínum tíma að þessar verksmiðjur eigi allar að vera á suðvesturhorninu. Við höfum verið þeirrar skoðunar að ef það ætti að setja upp svona verksmiðjur væri skynsamlegt að reyna að hafa jafnræði í þessum efnum. Ég man t.d. eftir því að þegar við komum steinullarverksmiðjunni fyrir á Sauðárkróki, það var m.a. með mínu atkvæði og ef ég man rétt var það í tíð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í iðnrn., að þá var ákveðið af byggðaástæðum að setja þá verksmiðju niður á Sauðárkróki en ekki í Þorlákshöfn. Það voru deilur um það t.d. í mínum flokki hvort það væri rétt að fara þá leið en þetta varð niðurstaðan þannig að það sýnir að það er hægt að beita pólitískum vilja ef menn vilja. En hvar er hann? Ástæða er til að auglýsa eftir honum, herra forseti.

Ég tel að það eigi með öðrum orðum ekki að slá því föstu að allar þessar verksmiðjur verði í Hvalfirðinum, norðan við Hvalfjörð eða einhvers staðar. Mér finnst það ekki eðlilegt, það er ekki skynsamlegt fyrir Ísland. Ég er sammála Eyfirðingum og Austfirðingum sem um þau mál hafa talað. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi alltaf að nýta þessa orku og ég er enginn bindindismaður á að komið verði fyrir stórum verksmiðjum. En það á að gæta hófs og jafnræðis í þessu efni á milli landshlutanna. Það hefur ekki verið gert. Þeir Columbia-menn voru dregnir upp á Grundartanga og þeim var sýndur þessi staður eins og þeir orðuðu það. Þeim var ekki sýnt neitt annað. Þeir voru dregnir upp á Grundartanga þannig að maður dregur þá ályktun hvort sem það er rétt eða ekki að Framsfl. hafi snúist hugur í þessum efnum og hann hafi tekið um það ákvörðun að hafa þetta allt hér. Það er nokkurt umhugsunarefni að það skuli vera örlög Framsfl. að fara með verksmiðjuna þarna upp eftir en ekki að skapa möguleika til þess að henni verði komið fyrir annars staðar.

[17:30]

Í fimmta lagi ræddi hv. þm. það og vitnaði til Magnúsar Stephensens að Hvalfjörður væri gott svæði fyrir þéttbýli. Ég verð að segja að mér þykir vænt um að hér skuli vera vitnað til forfeðra hv. 17. þm. Reykv. því að það er örugglega alveg rétt að norðanverður Hvalfjörður er nokkuð gott svæði. En af hverju er ódýrt að vera í Hvalfirði? Af hverju vilja fyrirtækin vera í Hvalfirði? Það er ekki bara vegna þess að aðdýpi er gott og skjól er gott og tiltölulega gott byggingarland líka eins og við kynntumst, ég og hv. þm. Stefán Guðmundsson um daginn þegar við skoðuðum svæðið. Það er ekki þess vegna. Engin af þessum ástæðum er ástæðan. Ástæðan er sú að Íslenska járnblendifélagið hefur ásamt öðru gefið heila höfn og er auk þess með inneign á bankabók upp á 120 millj. kr. og þannig er Grundartangahöfn einhver ríkasta höfn á landinu. Og þegar kemur að því að setja niður stóriðju, þá náttúrlega horfa menn á það að þarna er höfn, þarna er landsvæði sem er hægt að byggja á og þá taka menn því. En þýðir það, herra forseti, að menn ættu endilega þess vegna að fara þarna upp eftir og ekkert annað. Ég mótmæli því. Mér finnst það vera uppgjöf. Mér finnst það vera svipuð uppgjöf eins og ef menn hefðu gefist upp við að hafa steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. Mér finnst það álíka vesaldómur og ef það hefði verið gert.

Rökin með steinullarverksmiðjunni annars staðar voru m.a. þau að línur væru styttri hér á Þjórsársvæðunum en samt fóru menn norður. Ég held að menn séu ekkert óánægðir með að hafa þessa steinullarverksmiðju þarna. Auk þess er hún nú íslenskt fyrirtæki og hefur lotið íslenskri forustu að talsverðu leyti og ég held að menn séu ánægðir með steinullarverksmiðjuna sem er stóriðjufyrirtæki. Þess vegna getur hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ekki haldið því fram að það séu einhver náttúruleg rök sem með góðu eða illu holi allri stóriðju niður við norðanverðan Hvalfjörð. Það er ekki þannig. Það eru fleiri staðir til ef menn vilja.

Spurningin er þá sú í sjötta lagi í þessu samhengi í framhaldi af ræðu hv. þm.: Er það flokksstefna Framsfl. að hafa alla stóriðjuna þarna við norðanverðan Hvalfjörð? Ég spyr hann að því. Ég tel að hann sé alveg jafngóður til að svara því hver sé flokksstefna Framsfl. og hver annar. Er það flokksstefna Framsfl. að það megi aldrei vera stóriðja nema við norðanverðan Hvalfjörð? Það finnst mér athyglisvert sjónarmið.

Hverjir voru svo, herra forseti, að mótmæla þessu þarna í Hvalfirði? Kjósverjar, íbúar í Kjósarsýslu. Var það prófessor í sumarbústað, Arnór Hannibalsson, sem fann það upp. (ÓÞÞ: Já.) Nei. (ÓÞÞ: Jú.) Nei. (ÓÞÞ: Hann ritaði fyrstu greinina í Morgunblaðið.) Hv. hm. lifir örugglega ekki í þessum heimi sem hann þykist lifa í. Ég vil taka upp hanskann fyrir vini mína, bændur í Kjós, og segja fyrir þeirra hönd: Þeir höfðu sjálfir döngun í sér til að hafa skoðun á þessu máli. Þeir biðu ekki eftir Arnóri Hannibalssyni. Það veit ég. Ég þekki mæta forustumenn í sveitarstjórn Kjósarhrepps sem tóku af skarið í þessum málum löngu áður en nokkur skrif fóru að birtast eftir Arnór Hannibalsson, enda finnst mér það kannski ekki skipta öllu máli. En ég vil bara að segja eins og er að mér finnst ástæðulaust að setja málið þannig upp að reyna að gera lítið úr Kjósverjum með því að aðkomumaður, tiltölulega nýlega kominn í héraðið, nái þeim öllum undir sína forustu og mér finnst ekki skynsamlegt af Framsfl. að gefa í skyn að Kjósverjar séu viljalaus verkfæri í höndunum á Arnóri Hannibalssyni. (Gripið fram í: Það hef ég aldrei sagt.) Og þó að sú ætt sé sterk og voldug eins og kunnugt er, þá hygg ég að það megi segja að þetta sé misskilningur.

Ég verð hins vegar að segja það, herra forseti, að ég hef kynnt mér aðstæður í Kjósarsýslu, m.a. á því svæði þar sem téður Arnór býr og ég tel út af fyrir sig ekkert skrýtið þó að menn velti þessum málum mjög alvarlega fyrir sér, menn af því tagi sem hann er og hafa komið sér fyrir á þessu svæði.

En þá kemur hin spurningin sem var áttundi þátturinn í þessari stórmerku ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og hún er þessi: Eiga þeir að ráða því sem byggt er hinum megin við Hvalfjörð? Það er nefnilega spurningin. Og í andsvari sagði hv. þm. að þó að við vildum hafa skoðun á því sem gerðist í Afríku, þá réðum við því ekki. Þó við vildum örugglega ráða yfir Mobutu sjálfir, ég og hv. þm., og setja hann af þá ráðum við því nú ekki. En margt smátt gerir eitt stórt eins og kunnugt er.

Staðreyndin er sú að andrúmsloftið eigum við saman, m.a. andrúmsloftið í Hvalfirði og öll nútímaumhverfisumræða gengur út á það að heimurinn sé eitt svæði að þessu leytinu til. Þess vegna er verið að gera alls konar alþjóðlega samninga, eins og Ríó-samninga og guð veit hvað, um það að við saman reynum að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og reynum þannig að bæta andrúmsloftið. Þess vegna er ég alveg sannfærður um það að þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hugsar um það að í rauninni eiga þeir sem búa við Hvalfjörð sitt hvoru megin algerlega óskiptan hlut í þessu efni, þá viðurkennir hann að það er þannig og þess vegna hefði verið skynsamlegra að gera þetta að einu svæði að því er varðar skipulag og könnun í aðdragandanum að stofnun þessa fyrirtækis. Þetta hefði verið það langskynsamlgeasta og sveitarfélagamörk eiga engu að breyta í þessu efni því að andrúmsloftið stoppar ekki við sveitarfélagamörk heldur er nokkurn veginn sama súrefnið eða var yfir Nauteyrarhreppi eða Grunnavík eins og hv. þm. þekkir örugglega betur en ég. Það að ætla sér að tala um að eitthvert þil í þessum efnum sé yfir Hvalfjörðinn, er því fráleitt. Enn þá fráleitara er það þó, herra forseti, þegar þess er gætt að svo sérkennilega vill til að Kjalarnes og Akraneshreppur sem mætast undir Hvalfirðinum og eru þannig næstu nágrannar í seinni tíð að því er varðar bílaumferð þannig að allt er þetta eitt þorp eins og stundum er sagt um heiminn. Og ekki skulum við vera að tala um Ísland, mismunandi strendur Hvalfjarðarins, eins og annað sé Afríka og hitt Asía. Það er ekki svo eins og hv. þm. viðurkennir auðvitað þegar hann hugsar málið í rólegheitum og lætur vera að deila við okkur alþýðubandalagsmenn.

Ég tel sem sagt að þessi ræða hv. þm. hins vegar hafi opnað þessi mál mjög mikið og ég endurtek þakkir mínar fyrir það.

Ég vil einnig segja í framhaldi af hans ræðu og ræðu hæstv. umhvrh. fyrr í dag að það er nauðsynlegt að höfðað verði mál út af starfsleyfinu. Það er beinlínis lífsspursmál að hvetja til þess eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gerði. Menn verða að fá botn í þetta mál. Menn verða að fá botn í þetta mál fyrir dómstólum því að það er algjörlega fráleitt og beinlínis stórhættulegt að láta þetta mál malla eins og það gerir án þess að dómstólar skeri úr um það. Vandinn er sá að það kostar mikla peninga að leita réttar síns á Íslandi. Ekki síst andspænis ríkisvaldinu. Og þegar ríkisvaldið sameinast fyrirtækjavaldinu, sérstaklega þegar það er erlent eins og er í þessu tilviki, getur verið erfitt fyrir menn í Hvalfirði eða Kjós að hreyfa sig. Og öll hin pólitíska barátta í vetur í þessum umhverfismálum hefur í raun og veru snúist um frelsi einstaklingsins andspænis ofurvaldi ríkisvaldsins og fjármagnsvaldsins. Þess vegna hefur það verið fróðlegt að fylgjast með þessu máli, fylgjast með því hvers má sín einstaklingurinn og frelsi hans andspænis samtvinnuðu ofurvaldi ríkisins og fjármagnsins. Þess vegna tek ég undir það hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það þarf að fara með þetta mál fyrir dómstóla. Það er þörf á því ef nokkur vegur er að finna flöt á því.

Ég vil einnig segja, herra forseti, í framhaldi af þessum umræðum að hæstv. iðnrh. hefur borið það á okkur alþýðubandalagsmenn eða á mig að ég vildi atvinnuleysi. Hann hefur sagt það tvisvar sinnum í þessum ræðustól. Ef það er flokksleg skoðun Framsfl. að Alþb. eða a.m.k. ég vilji atvinnuleysi, þá get ég vel skilið að þeir vilji lítið með okkur hafa og kjósi frekar samlag með öðrum en okkur í seinni tíð. Veruleikinn er sá að fáir flokkar hafa flutt fleiri tillögur um eflingu atvinnulífs heldur en við og ætli margir flokkar eigi sér betri sögu í þeim efnum en Alþb. á undanförnum áratugum. En þeim mun undarlegra er að uppgötva það í þessari umræðu að menn eins og hv. formaður iðnn. einblína á stóriðjuna þannig að það er ekki lengur svo að stóriðjan, jafnvel í höndum útlendinga með slæmar mengunarvarnir, sé afgangsúrræði, erfiður kostur, tekinn í skásta falli. Nei, staðan er allt í einu orðin þannig að Framsfl. telur að þetta sé ,,Úrræðið`` í atvinnumálum --- með stórum staf og greini. Hér eru fluttar ótrúlegar ræður um það að stóriðjan borgi hærri laun, þar sé betri vinnustaður, þar sé lengri starfsaldur og lengri biðlistar eftir vinnu en nokkurs staðar annars staðar. Eru þetta rök fyrir því að setja upp stóriðjufyrirtæki? Þakka skyldi, herra forseti, þó það sé reynt að fylgja lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í þessum fyrirtækjum eins og annars staðar. En þegar veruleikinn er svo allt í einu orðinn sá að einn af máttarstólpunum í sjávarútvegsþróun Íslendinga á síðustu áratugum, hv. þm. Stefán Guðmundsson, er sleginn þvílíkri blindu að hann gleymir uppruna sínum í því sæla Kaupfélagi Skagfirðinga sem við höfum stundum rætt um og er sleginn þvílíkri blindu að stóriðjan sé það eina sem hægt sé að halla sér að, þá eru komin mikil kaflaskil. Ég segi það alveg eins og er.

Ég þekki margt fólk sem hefur unnið í stóriðjufyrirtækjum. Ég þekki marga sem hafa verið ánægðir með það. Ég þekki líka mjög marga sem hafa unnið í stóriðjufyrirtækjum af því að þeir fengu hvergi vinnu annars staðar. Ég þekki líka marga sem hafa unnið í stóriðjufyrirtækjum af því að þeir fengu hærri laun þar en hefðu annars farið eitthvað annað. Og ég þekki líka marga sem hafa komið í gegnum stóriðjufyrirtæki við góða heilsu og góða heilsufarslega stöðu á efri árum. En ég þekki líka fólk sem hefur unnið í áratugi í skautsmiðju í stóriðjufyrirtæki og er þeirrar skoðunar að það hefði verið betra að fara eitthvað annað ef það hefði getað fengið vinnu einhvers staðar annars staðar. Við skulum gera okkur það ljóst að mikill hluti af því fólki sem fór að vinna í Straumsvík var fólk úr Hafnarfirði, ófaglært fólk, og fólk utan af landi. Þetta fólk fór ekki þarna inn af því að þetta væri besti vinnustaðurinn heldur af því að það átti ekki annarra kosta völ, auk þess sem, ef ég man rétt, fyrirtækið var opnað um það leyti sem atvinnuleysistölur voru hvað hæstar í lok viðreisnaráranna. Það má því ekki gerast að jafnvænn maður og hv. formaður iðnn. gleymi því að Íslendingar eiga aðra og betri atvinnumöguleika.

[17:45]

Herra forseti. Í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur var bent á mjög mikilvægt atriði sem mér láðist að nefna í framsöguræðu minni. Það lýtur að áhrifum þenslunnar. Ég nefndi hækkandi verðlag, hækkandi vexti, óhagstæða gengisskráningu fyrir íslenska atvinnuvegi og aðra slíka efnahagslega fylgifiska þessa máls, lét í ljós þá skoðun að hugsanlega væri mjög lítill ávinningur af þessu þegar upp væri staðið. Ég segi það alveg eins og er.

En hún bætti einu við sem ekki kom fram í minni ræðu áðan og ég vil sérstaklega taka undir og það er sú krafa sem ríkisstjórnin hefur sett, aðallega á borgaryfirvöld í Reykjavík, um að skera niður t.d. framkvæmdir í skólamálum á móti stóriðjuþenslunni. Sem betur fer hafa borgaryfirvöld í Reykjavík hafnað þessum óskum. En þessi ósk og þessi staðreynd sýnir auðvitað á hvaða villigötum þessi umræða er því að ef eitthvað er óarðbært, þá er það það að skera niður til menntamála. Og ef það hefði verið skorið niður til menntamála eins og ríkisstjórnin heimtaði, þá er ég sannfærður um að hagur þjóðarinnar af þessari verksmiðju hefði enginn orðið. En sem betur fer var þeim kröfum hafnað.

Ég vil einnig vekja athygli á því, herra forseti, sem ég tel vera algerlega ólíðandi, að hæstv. iðnrh. hefur ekki tekið þátt í umræðunni. Hér er búið að fjalla um málið mjög ítarlega. Hér er búið að gefa út nefndarálit frá meiri hluta og minni hluta í þessu máli, en hæstv. iðnrh. er ekki að hafa fyrir því að taka þátt í þessari umræðu með rökum og gagnrökum eins og honum er skylt að gera og ég sé ekki betur en hann sé hlaupinn nú á dyr. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvort hæstv. iðnrh. sé í húsinu.

(Forseti (GÁ): Forseti upplýsir að hæstv. iðnrh. er í húsinu.)

Það er algerlega óhjákvæmilegt að hæstv. iðnrh. sé við umræðuna. Og það er algerlega óhjákvæmilegt að iðnrh. svari einhverjum af þeim spurningum sem fram hafa verið bornar. En það hefur hann ekki gert af því að hann hefur ekki tekið þátt í umræðunni.

Ég vil að sama skapi þakka hæstv. félmrh. fyrir það svar sem hann gaf hér því það var skýrt og afdráttarlaust svar og engu við það að bæta. En að hæstv. iðnrh. skuli leyfa sér að hlaupa á dyr þegar verið er að ræða þetta mál, það er nokkuð alvarlegt mál, herra forseti. Það sýnir ekki mikla virðingu fyrir þessari stofnun, Alþingi Íslendinga, þó svo hann sé með góða menn í fyrirsvari fyrir sig þar sem eru hv. 2. þm. Vestf. og 3. þm. Norðurl. v.

Herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar fyrir framúrskarandi fróðlega ræðu sem gaf tilefni til þess að fjalla um málið í almennu samhengi sem hefur vonandi orðið til þess að skýra stöðu þess enn betur en ella var kostur.