Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:00:08 (6743)

1997-05-16 19:00:08# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:00]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur að ég hafi haldið því fram að stækkun væri óþarfi. Ég hins vegar hélt því fram að það hafi ekki verið eins mikil nauðsyn á stækkun og menn hafa viljað vera láta og miðað við þær tölur sem við fengum hjá forstjóra fyrirtækisins og öðrum uppi á Grundartanga, þá sannfærðist ég um að það hefði verið hægt að halda rekstri fyrirtækisins áfram sem einni bestu járnblendiverksmiðju í heimi jafnvel á tveimur ofnum, jafnvel án stækkunar.

Hitt er alveg ljóst að miðað við hagvöxt í heiminum upp á segjum 2--3%, þá er náttúrlega gengið út frá því að til þess að t.d. sá fjöldi starfsmanna sem þarna hefur verið geti haldið vinnunni áfram nokkuð örugglega, er æskilegt að það verði stækkun. Og þá bætti ég því við: Við hefðum getað stækkað. Og mér fannst það koma fram í orðum hv. 2. þm. Vesturl. sem mér hefur fundist ég heyra í kringum málið, að stjórnarmenn fyrirtækisins og fleiri, þeir sem voru og þekkja vel til málsins og ráðuneytið, hafa verið orðnir óþarflega beygðir af erfiðleikunum 1992 því að staðreyndin er sú að verðið 1992 er lægsta verðið á allri öldinni á þessum vörum. Ég tel því líka að viðmiðunin að því er varðar langtímameðalverð á kísiljárni sem menn gátu sér við mat á fyrirtækinu, hafi verið of lág.