Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:04:19 (6746)

1997-05-16 19:04:19# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:04]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hér við lok 2. umr. um þetta mál, sem er um stækkun Járnblendifélagsins, vil ég nota tækifærið og þakka hv. iðnn. fyrir það starf sem hún hefur innt af hendi í tengslum við þessi mál, þ.e. bæði frv. um byggingu álvers á Grundartanga og ekki síður um þetta frv. sem hér er til umfjöllunar um stækkun Járnblendifélagsins.

Nefndin hefur vandað mjög til verka, unnið hratt og yfirvegað, ekki síst í ljósi þess að það hefur verið mikið álag á iðnn. Alþingis nú á undanförnum mánuðum. Ég hugsa að það sé langt síðan iðnn. Alþingis hefur haft jafnmikið að gera og ástæðan er sú að með þessari ríkisstjórn hefur verið rofin sú kyrrstaða sem ríkt hefur í stóriðjumálum á Íslandi í áratug eða áratugi reyndar.

Iðnn. hefur fjallað á síðustu mánuðum og missirum um mjög stór mál og ég er sérstaklega ánægður með störf nefndarinnar í þessum efnum, hversu vel þar hefur verið unnið og hversu vel og örugglega þeim hefur verið skilað inn í þingið. Fyrsta mál af þessu tagi sem iðnn. barst var stækkun álversins í Straumsvík, síðan þetta mál sem nú er til umfjöllunar, stækkun Járnblendifélagsins og bygging álvers Columbia á Grundartanga og svo tók frv. um Landsvirkjun, eigendasamkomulagið milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar sem algert samkomulag var um milli eigenda og mjög víðtækt samkomulag í þinginu, auðvitað mikinn tíma nefndarinnar.

En það sem öllum þessum málum er sammerkt, er að við erum að hefja núna nýtingu orkuauðlindanna aftur. Við erum að leggja grunninn að stóraukinni verðmætasköpun í samfélaginu. Við erum að fjölga störfum. Við erum að draga stórkostlega úr atvinnuleysinu. Við erum að skapa störf í þessum fyrirtækjum sem hafa sýnt sig að eru betur launuð störf en sambærileg störf úti á vinnumarkaðnum. Þessi fyrirtæki greiða hærri laun og þannig erum við að leggja grunn að bættum lífskjörum í landinu með þeim aðgerðum á þessu sviði sem ríkisstjórnin er að fara út í. Það er þess vegna að manni finnst slæmt að ekki skuli vera alveg fullkomin samstaða um þessi mál. En ég skil að mönnum geti sýnst sitt hvað í þessum efnum og það er slæmt vegna þess að um þessi meginmarkmið hef ég talið að allir væru tiltölulega sammála.

Varðandi stækkun Járnblendifélagsins ætla ég ekki að rifja upp þá ræðu sem ég fór með við 1. umr. þessa máls og þær ástæður sem lágu að baki þeirri ákvörðun að semja við Elkem og Sumitomo um stækkun fyrirtækisins. Ég skildi hv. þm. Svavar Gestsson þannig að það hefði verið óþarft að semja um stækkunina, Íslendingar hefðu getað gert það sjálfir.

Nú er ég alveg sannfærður um að forstjóri Járnblendifélagsins á Grundartanga hefur ekki sagt iðnn. það með þessum orðum. Ég hef líka átt viðræður við forstjóra Járnblendifélagsins. Það voru skiptar skoðanir um það hvaða leiðir ætti að fara í þessum efnum. En forstjórinn hefur viðurkennt að það var ekki hægt einhliða af Íslands hálfu að taka þá ákvörðun sem hefði leitt til þess að fyrirtækið hefði verið stækkað. Slík ákvörðun hefði leitt til málaferla við þá eigendur sem við erum með í þessu fyrirtæki vegna þess að sá samningur sem var og er á milli eignaraðilanna gerði ráð fyrir því, og það ætla ég enn einu sinni að rifja hér upp, að til þess að taka ákvörðun um að selja hlut í fyrirtækinu þurfti samkomulag allra aðila. Til þess að taka lán til byggingar og fjárfestingar við stækkun á fyrirtækinu þurfti samkomulag 2/3 hluta eigenda. Og til þess að hægt væri að fá 2/3 hluta eigenda til þess að taka slíka ákvörðun, þá lá alltaf fyrir af hálfu Sumitomo að þeir þyrftu að fá breytingu á markaðssamningi við fyrirtækið. Og til þess að breyta markaðssamningnum þurfti samkomulag allra aðila. Það sjá allir sem vilja sjá og leggja sanngjarnt mat og fara með rétt mál og hafa þessi skjöl öll fyrir framan sig, það samkomulag sem þarna var, að það var ekki hægt að ná fram einhliða ákvörðun af þessu tagi.

Um verðmætamatið má hins vegar deila og ég ætla ekkert að leggja mat á það hvort það sé hinn heilagi sannleikur og ætla þess vegna ekki að vera hér með fullyrðingar um að það hafi verið nógu hátt eða allt of hátt. Við megum vel við una. Þetta var samkomulagsniðurstaða og hvernig var hún fengin? Hún var ekki fengin með því að reka puttann upp í loftið eða henda einhverju upp í loftið og sjá hvað kæmi niður. Virtar fjármálastofnanir voru fengnar til þess að verðmeta fyrirtækið. Einn virtasti fjárfestingarbanki í heimi á þessu sviði, Salomon Brothers, var fenginn til þess að meta verðmæti fyrirtækisins. Til að tryggja að íslensk fyrirtæki sem hafa orðið mjög góða þekkingu á þessu sviði kæmu þar að líka fengum við Kaupþing og fyrirtækjasvið Íslandsbanka til þess að leggja mat á fyrirtækið líka.

Ég ætla ekki hér að tína nákvæmlega til hvert verðmætamatið var frá hverjum og einum aðila en verðmætamatið var á bilinu 220--290 millj. norskra króna með því að reiknað væri með að hagræðið af byggingu þriðja ofnsins lægi fyrir. Ef hins vegar hefði ekki legið fyrir ákvörðun um það, þá var verðmætamat fyrirtækisins 180 millj. norskra króna miðað við tvo ofna. Svo kunna menn lengi að deila um það hvort þetta hafi verið rétt verð, samningsniðurstaðan, 245 millj. norskra króna sem var það verðmætamat fyrirtækisins sem menn náðu saman um.

Hinn eini mælikvarði á hið rétta verð kemur í ljós þegar sá hluti fyrirtækisins sem með þessu frv. er verið að heimila iðnrh. að setja á markað verður settur á markað. Þá kemur í ljós hvað markaðurinn er tilbúinn að borga fyrir fyrirtækið. Út frá þeim forsendum hvort skynsamlegt hafi verið að stækka, ekki bara hvort það hafi verið hægt heldur hvort það hafi þá nokkuð verið nauðsynlegt, þá er það svo að hagkvæmni fyrirtækisins eykst verulega við stækkun. Samkeppnishæfni fyrirtækisins eykst verulega. Framleiðslukostnaðarverð fyrirtækisins í dag er 3.800 norskar krónur á tonnið. Eftir stækkun lækkar framleiðslukostnaðurinn úr 3.800 norskum krónum niður í 3.200 norskar krónur.

Hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði í það verð sem hefði orðið lægst á öldinni sem var rúmlega 3.400 norskar krónur á tonnið. Með þessari stækkun erum við að ná því að auka hagkvæmni svo í rekstri fyrirtækisins að við höfum komist í framleiðslukostnaði undir það lægsta verð sem við höfum séð á öldinni. Það leiðir til þess að í næstu niðursveiflu sem við þurfum að ganga í gegnum, vegna þess að sagan segir okkur að við höfum þurft þess í gegnum tíðina, er fyrirtækið betur búið en nokkru sinni fyrr til að mæta þeim skakkaföllum.

Hagkvæmni fyrirtækisins eftir breytinguna gerir það að verkum að öryggi starfsfólksins er tryggt. Störfum fjölgar í rekstri fyrirtækisins í staðinn fyrir að ef ekkert hefði verið gert, þá blasti ekkert annað við en að störfum hefði sennilega fækkað þannig að hvernig sem á þetta er litið, er ljóst að út frá hagsmunum eigendanna var stækkunin hagkvæm og sérstaklega út frá íslenskum hagsmunum. Út frá hagsmunum starfsfólks fyrirtækisins er stækkunin mjög hagkvæm. Hefði ekki verið ákveðið að stækka, þá hefði óvissan haldið áfram. Og menn mega ekki gera lítið úr því þegar menn ræða um yfirburðastöðu --- reyndar talaði hv. þm. um að það væri engin yfirburðastaða sem Elkem hefði á járnblendimarkaðnum, 13--18% af heimsmarkaði --- að við getum ekki horft bara á heimsmarkaðinn í þessum efnum. Við verðum nefnilega að átta okkur á því hvert við erum að selja. Elkem er með 58% markaðshlutdeild á evrópska markaðnum og þeim markaði sem við erum aðallega að selja á.

Hinn hluti markaðarins er kísilmálmur sem er miklu, miklu ódýrari en sá kísilmálmur sem við erum að selja frá Grundartanga inn á þann markað þar sem Elkem er með 58% markaðshlutdeild. Við erum að tala um markað í Japan, í Asíu víða, þar sem þetta efni er miklu, miklu ódýrara og það er ástæðan fyrir því að Sumitomo vill frá breytingu á markaðssamningnum, vegna þess að þeir eru í erfiðleikum með að keppa við ódýra efnið sem kemur frá Kína og víða annars staðar að í Asíu inn á þennan markað. Við verðum því að horfa á það hvert við erum að selja efnið sem við erum að framleiða og skoða markaðinn út frá því. Og fyrirtæki sem eru með 58% markaðshlutdeild á okkar aðalmarkaði, verðmætasta markaðnum, hlýtur þannig að hafa yfirburða markaðsstöðu hvernig sem á þetta mál er litið. Það kann að vera í þessu máli eins og reyndar svo mörgum öðrum að ég og hv. þm. séum ekki sammála. Ég ætla ekkert að leggja mat á af hverju það er. En það sem ég hef lagt upp með í þeirri vinnu og mínar áherslur hafa beinst að í að tryggja að við getum nýtt orkuauðlindirnar, er að auka verðmætið í samfélaginu, bæta lífskjörin, fjölga störfunum og draga þannig úr atvinnuleysinu og fátæktinni sem til er í landinu. Og ég vonast til þess að við höfum báðir þá sömu sýn á þau meginmarkmið og kunnum heldur að deila um leiðirnar. En þessar leiðir hafa legið fyrir en eru ekki eitthvað sem er úti í þokunni og sem megi kannski fara en eru ófærar.