Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 19:31:51 (6751)

1997-05-16 19:31:51# 121. lþ. 128.3 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., Frsm. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[19:31]

Frsm. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega eru merkileg kaflaskipti í atvinnumálaumræðu á Íslandi að Framsfl. skuli beita sér harðar í þessu máli og taka stóriðjufyrirtæki fram yfir aðra starfsemi með þeim hætti sem hér er gert. Það er vissulega mjög athyglisvert. Það sýnir að hlutirnir geta breyst á tiltölulega mjög stuttum tíma.

Fjöldinn allur af fólki, sem hefur unnið í Straumsvík og á Grundartanga, er mjög ánægður með þau störf. Fjöldinn allur af fólki í Straumsvík og á Grundartanga er afar sáttur við að hafa verið þar mjög lengi. Það er sátt við það kaup sem þar hefur verið og líka við vinnuumhverfi. Forráðamenn þessara fyrirtækja beggja hafa lagt sig fram um að bæta þau eins og kostur er.

Við vitum það líka eða ég veit það a.m.k. að fjöldinn allur af fólki er ekki eins sáttur við hlutina, m.a. af heilsufarslegum ástæðum, sem eru aðrar í þessum fyrirtækjum en annars staðar og ég skora á hæstv. ráðherra að tala við eins og einn og einn mann sem hefur kannski lengi unnið í kerskála í þessum fyrirtækjum.

Ég veit að fjöldinn allur af þessu fólki kom til starfa í Straumsvík m.a. utan af landi. Ég þekki t.d. bændur sem hófu störf í þessu fyrirtæki og voru sáttir við að fá þá vinnu og sáttir við kaupið. En heilsan var ekki alltaf nógu góð. Það er allt í lagi að segja satt stundum líka.