Vegalög

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 20:39:37 (6756)

1997-05-16 20:39:37# 121. lþ. 128.9 fundur 197. mál: #A vegalög# (reiðhjólavegir) frv., Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[20:39]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. fyrir ákaflega hlý orð í okkar garð og það sem ég vildi nú segja og mér finnst vera sá lærdómur sem við getum dregið af málflutningi hv. þm. er það að með athugasemd sinni um að hann hyggist fylgjast vel með því hvernig málinu reiðir af við ríkisstjórnarborðið er hv. þm. auðvitað að undirstrika mikilvægi þess að löggjafarvaldið veiti framkvæmdarvaldinu eðlilegt aðhald. Þegar framkvæmdarvaldið hefur með höndum framkvæmd mála sem hv. Alþingi afgreiðir frá sér er augljóst mál að löggjafarvaldið getur ekki sleppt algerlega hendinni af þessu, síst af öllu í stórum og þýðingarmiklum og stefnumótandi málum. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt yfirlýsing liggur fyrir frá hv. 1. flm. þessa mikilvæga máls að hann hyggist fylgja þessu eftir með reglubundinni athugun á framkvæmd málsins og fundum með ríkisstjórninni og Vegagerðinni og jafnvel þeim sveitarfélögum sem gætu átt í hlut. Þetta er umfangsmikið verk sem hv. þm. hefur nú lofað að takast á hendur og ég veit að hann mun fylgja því vel eftir og framkvæma það af kostgæfni.