Fjáraukalög 1996

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 20:58:26 (6761)

1997-05-16 20:58:26# 121. lþ. 128.21 fundur 529. mál: #A fjáraukalög 1996# (uppgjör) frv., Frsm. minni hluta KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[20:58]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1996, hið síðara eða svokallað uppgjörsfrv. fyrir það ár. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta fjárln. sem er á þskj. 1271.

Fjárlaganefnd hefur haft frumvarpið til meðferðar og leitað skýringa fjármálaráðuneytis á einstökum atriðum. Enn fremur leitaði nefndin eftir áliti Ríkisendurskoðunar sem gerði verulegar athugasemdir við framsetningu og uppsetningu frumvarpsins, sem nefndin öll tekur raunar undir og er sammála um að Alþingi eigi að gefast kostur á því að taka afstöðu til fjárveitinga vegna umframgjalda hjá einstökum stofnunum og þess vegna er sú tillaga gerð um breytingu á frv. sem fram kemur á sérstöku þingskjali og hv. formaður fjárln. mælti fyrir áðan.

Það er ljóst, herra forseti, að með samþykkt þessa frv. er verið að staðfesta það að útgjaldaheimildir hafa verið auknar um 19,5 milljarða frá fjárlögum ársins 1996. Rúmlega 10 milljarðar af þeirri fjárhæð eru reyndar tilkomnir vegna sérstakrar innlausnar á spariskírteinum ríkissjóðs sem ákveðið var að fara í á þeirri forsendu að með þeirri endurfjármögnun væri verið að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs alls um 2 milljarða á nærri fjórum árum. Þar fyrir utan nemur þá hækkun heimilda 9,4 milljörðum eða sem nemur 7,5% en á móti þeirri hækkun lækka gjaldaheimildir hins vegar um tæpa 4,6 milljarða kr. þannig að hrein aukning fjárheimilda. á árinu 1996 nemur því um 14,9 milljörðum kr. eða 11,9% af heildinni.

Þessi niðurstaða blasir ekkert við þegar farið er yfir frv. og grg. þess og þarf í raun sérfræðinga til að komast að þessari niðurstöðu, enda er hér í máli mínu vitnað til álits Ríkisendurskoðunar. Auðvitað koma einnig til hærri tölur á tekjuhliðinni en fjárlög og fyrri fjáraukalög gerðu ráð fyrir þannig að lokaniðurstaðan er 12 milljarða kr. halli eða 1,9 að frátöldum þessum 10,1 milljarði vegna innlausnar spariskírteina.

Hinu er svo rétt að halda til haga að allar þær hreyfingar sem þetta frv. ber vitni um og fram koma í grg. og verða svo að lokum teknar að hluta inn í fjáraukalög 1997 eru umtalsverðar í ljósi þess að fyrri fjáraukalög 1996 voru afgreidd á Alþingi aðeins tæpum hálfum mánuði áður en því fjárlagaári lauk.

Í áliti Ríkisendurskoðunar segir m.a.:

,,Ljóst er að framlagning frumvarpsins er með nokkuð öðru sniði en tíðkast hefur undanfarin ár. Í því sambandi má einkum nefna eftirfarandi:

1. Umframgjöldum og ónotuðum fjárheimildum er nú skipt á hagræn viðfangsefni, þ.e. rekstur, tilfærslur, stofnkostnað og viðhald.

2. Ekki er lengur sótt formlega um umframgjöld einstakra stofnana, sbr. 3. gr. í uppgjörsfjáraukalögum fyrri ára.

3. Ónotaðar fjárheimildir eru ekki sérstaklega tilgreindar í lagagreinum frumvarpsins heldur gengið út frá því að þær falli sjálfkrafa niður með samþykkt frumvarpsins.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur hagræn skipting umframgjalda og ónotaðra fjárheimilda fyrst og fremst upplýsingagildi og virðist í reynd fyrst og fremst vera sett fram í frumvarpinu með það í huga. Stofnunin telur þó bagalegt að þær upplýsingar sem veittar eru í fylgiskjali 1 í frumvarpinu gefa alls ekki fullnægjandi upplýsingar um fjárhæðir sem birtast í 2. gr. frumvarpsins. Þá telur stofnunin hættu á því að með þessari framsetningu verði frumvarpið óþarflega flókið fyrir aðra en sérfræðinga. Eins og frumvarpið er nú sett fram þarf að leggja í talsverða reiknivinnu til að átta sig fyllilega á heildarstærðum þess og því hversu mikið er í reynd sótt um af aukafjárveitingum fyrir einstakar stofnanir. Ríkisendurskoðun hefði talið æskilegra að setja frumvarpið fram með þeim hætti að afstaða sé tekin til afkomu einstakra stofnana í lagatexta frumvarpsins, en rekja þess í stað einstaka hagræna liði í skýringartexta þess þar sem það væri talið eiga við.

Ríkisendurskoðun telur vart stætt á því að Alþingi sé ekki gefinn kostur á því að taka formlega afstöðu til umframgjalda einstakra stofnana og fjárlagaliða, sbr. 3. gr. fyrri uppgjörsfjáraukalaga. Með brottfalli 3. gr. telur stofnunin að uppgjörsfjáraukalögin séu í reynd einungis orðin formsatriði. Er með því stigið stórt skref aftur á bak í uppgjörsmálum ríkissjóðs að mati stofnunarinnar. Sama á við um brottfall ónotaðra fjárheimilda úr lagatexta frumvarpsins sem hingað til hefur verið tekin formleg afstaða til. Í því sambandi má minna á að Ríkisendurskoðun hefur talið eðlilegt að birta í 3. gr. ónotaðar fjárheimildir einstakra stofnana á sama hátt og umframgjöld þannig að formleg afstaða sé tekin til afkomu þeirra á árinu.

Að lokum ítrekar stofnunin þá skoðun sína að tekin verði afstaða til flutnings umframgjalda og ónotaðra fjárheimilda samhliða uppgjörsfjáraukalögunum, en ekki beðið með þá ákvörðun þar til í lok næsta fjárlagaárs eins og verið hefur síðastliðin ár. Með þeirri tilhögun skapast mun traustari grundvöllur fyrir stofnanir ríkisins til að byggja sinn rekstur á.``

Tilvitnun lýkur í álit Ríkisendurskoðunar sem reyndist okkur sannarlega vel við að átta okkur á því hvað felst í frv.

Minni hlutinn tekur undir athugasemdir Ríkisendurskoðunar og er sammála niðurstöðu meiri hlutans sem flytur breytingartillögur er lúta að framsetningu frumvarpsins í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar. Minni hlutinn telur þó að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hljóti að bera ábyrgð á fjáraukalögum rétt eins og fjárlögum og mun sitja hjá við afgreiðslu frv. í heild. Undir þetta nál. rita auk mín hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Gísli S. Einarsson og Kristinn H. Gunnarsson.