Suðurlandsskógar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 21:32:17 (6768)

1997-05-16 21:32:17# 121. lþ. 128.20 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., Frsm. GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:32]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. hvort nefndin vilji skoða málið á milli 2. og 3. umr., þá hefur nefndin farið allrækilega yfir þetta eins og kom fram í ræðu hv. þm. og setti hér eins og þingmaðurinn gat um inn í greinargerðina að þetta yrði skoðað mjög vandlega og kannski stærstu samfelldu verkefnin, ef þess væri óskað, færu þessa leið. En niðurstaða nefndarinnar varð sú að setja þetta ekki inn í lögin enda skrifa átta nefndarmenn án fyrirvara undir álitið og ég hygg að þar hafi ekki orðið nein breyting á.

Ein aðalástæðan er sú að við höfum farið yfir verkefnaáætlunina hjá Suðurlandsskógum og það verður unnið í samráði við alla fagaðila um málið og ég skal, þegar ég finn þann lista sem ég hef yfir verkefnaáætlunina, gefa hv. þm. þann lista. Það er því skoðun formanns landbn. að það mundi tefja verkið að það færi í umhverfismat og auðvitað kostar það, ef allt þetta verkefni, sem er mjög dreift um allt Suðurland í bútum á einstökum jörðum, þyrfti að fara í umhverfismat, líka mikla peninga.

En ég vona að nefndarálitið sé það skýrt að menn sjái hver vilji nefndarinnar er, að engu verði raskað í náttúrunni eða minjum og að horft verði til umhverfislaga í þeim efnum.