Suðurlandsskógar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 21:34:30 (6769)

1997-05-16 21:34:30# 121. lþ. 128.20 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[21:34]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir svarið sem olli mér reyndar mjög miklum vonbrigðum. Ég skil ekki alveg þær viðbárur sem hann var með. Við erum hér að tala um verkefni til 40 ára sem mun kosta um 4 milljarða kr. hið minnsta og hann talar um það að þetta kunni að verða dýrt og tefja málið, þessa 40 ára áætlun, ef umhverfismat verði viðhaft. Ég get ekki tekið þetta fyrir gild rök gegn því að áætlunin fari í umhverfismat eða a.m.k. stærstu hlutar hennar og ég held að hann ofmeti það mjög hvað það bæði kosti í tíma og peningum að taka þetta verkefni til umhverfismats. Ég vil endilega biðja hv. formann hv. landbn. að íhuga þetta betur. Ég sé ekki að það þurfi að þýða einhverja andstöðu nefndarmanna í landbn. þó þeir hafi skrifað undir þetta nefndarálit án fyrirvara, að vísu einn með fyrirvara, og held að þeir mundu ekki taka því neitt illa að athuga þetta á nýjan leik. Ég hvet því hv. formann til þess að íhuga þetta mál betur.