Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 22:35:28 (6783)

1997-05-16 22:35:28# 121. lþ. 128.1 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi gera grein fyrir atkvæði mínu undir lok umræðunnar með því að láta það koma fram að ég tel að með þeim breytingum sem verið er að samþykkja á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna sé ljóst að þar vanti enn verulega á að staðið hafi verið við þau fyrirheit sem námsmönnum voru gefin í síðustu kosningum.

Í fyrsta lagi er bersýnilegt að það verður að endurskoða ábyrgðarmannakerfið. Í öðru lagi verður að endurskoða vaxta- og verðtryggingakerfið. Í þriðja lagi verður að taka upp raunverulegar samtímagreiðslur. Í fjórða lagi verður að endurskoða endurgreiðsluhlutfallið. Það er því ljóst, herra forseti, að þrátt fyrir þær samþykktir sem gerðar eru í kvöld hljóta menn að halda áfram þeirri baráttu sem verið hefur í gangi allt frá 1992 um að reyna að knýja fram breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna.