Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 23:26:52 (6792)

1997-05-16 23:26:52# 121. lþ. 128.26 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[23:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessum afturhaldssama lagabálki. Samkvæmt þessum lögum eru forstöðumenn ríkisstofnana ráðnir til fimm ára til að tryggja tíðar mannabreytingar. Fyrir þessu eru rök þó ég sé þeim ekki að öllu leyti sammála.

Ég er hins vegar að öllu leyti ósammála því að draga úr áhrifum lýðræðislegra stjórna í stofnunum og ég er að öllu leyti ósammála því að setja lögreglumenn, fangaverði og tollverði á fimm ára ráðningarsamninga. Varla er markmiðið að tryggja tíð mannaskipti þar. Hins vegar fær yfirvaldið möguleika á að losna auðveldlega við óþægilega lögreglumenn og tollverði sem hugsanlega hafa uppi gagnrýnin vinnubrögð og sem hugsanlega eru að gagnrýna og þess vegna rannsaka sama yfirvaldið og getur rekið þá fyrirhafnarlaust.

Síðan spyr ég hvort það samræmist stjórnarskrá, jafnræðisreglu, ef ekki sjálfri biblíu samtímans, reglugerðaverki EES, að banna öllum sem ekki hafa háskólapróf að sækja um störf forstjóra hjá ríkisstofnunum. Forstöðumenn mega vera málfræðingar og skurðlæknar en ekki smiðir, bændur og vélstjórar og ekki alþingismenn og ekki ráðherrar, ef þeir ekki hafa háskólapróf upp á vasann. Og þetta er Alþingi Íslendinga að samþykkja. Ég segi nei.