Vegáætlun 1997 og 1998

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 23:53:53 (6795)

1997-05-16 23:53:53# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[23:53]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vildi biðja forseta að kveðja í þingsalinn tvo ráðherra sem ég hafði óskað eftir í gær þegar við gerðum hlé á umræðunni að yrðu viðstaddir þegar hún héldi áfram til að svara þeim spurningum sem ég mundi beina til þeirra. Það eru varaformaður Framsfl., hæstv. landbrh., og enn fremur óska ég eftir því við forseta að hann sjái til þess að annaðhvort formaður eða varaformaður Sjálfstfl. komi og svari fyrir hönd síns flokks um framkvæmd stefnu þeirra og kosningaloforða í vegamálum. (Samgrh.: Ég er nú vanur að svara fyrir hann.)

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir.)

Já, ég þakka forseta fyrir.

Ég vil fyrst beina máli mínu til varaformanns Framsfl. meðan við bíðum eftir því að forustumenn Sjálfstfl. komi hingað til þingfundar. (ÖS: Árni Johnsen er mættur.) Þegar við ræddum vegáætlunina í gærkvöldi fórum við stjórnarandstæðingar rækilega yfir frammistöðu núverandi stjórnarflokka í því að framkvæma þá vegáætlun sem samþykkt var í febrúarmánuði 1995 sem var á þeim tíma álitin nokkuð stórhuga áætlun með verulegu fé til framkvæmda í vegamálum.

Síðan gerist það eftir að ný ríkisstjórn hefur verið mynduð, eftir að Framsfl. gekk til liðs við Sjálfstfl., þá hefur þessi vegáætlun ekki fengið að vera í friði. Hún var skorin niður á síðasta ári, 1996, um mörg hundruð milljónir króna og hún var aftur skorin niður á þessu ári um 805 millj. kr. sem færðar voru inn í ríkissjóð fyrir utan annan niðurskurð sem hafði verið tekinn upp áður og bitnaði á framkvæmdum til vegamála með því að láta fé til vegamála greiða ferjur og flóabáta en áður hafði sá liður verið greiddur beint úr ríkissjóði. Ég velti fyrir mér hvernig stæði á þessu að svona hraksmánarlega hefði verið farið með vegáætlunina eftir að Framsfl. gekk til liðs við Sjálfstfl. og fann ekki nema tvær skýringar. Fyrri skýringin var sú að Sjálfstfl. meinti ekkert með þessu, þetta væri bara plat fyrir kosningar.

Síðari skýringin var sú að Framsfl. hefði krafist þess að vegáætlunin yrði skorin niður. (Gripið fram í: Og þú áttir bágt með að trúa því.) (ÁRJ: Það er ótrúlegt.) Bara þessar tvær skýringar gat ég komið auga á og þó ég óskaði eftir því við stjórnarliða að þeir bættu um ef mér yfirsæist eitthvað í þessum efnum, þá kom ekkert nýtt fram þannig að við höfum bara þessar tvær skýringar.

Það sem styður síðari skýringuna, að Framsfl. hafi krafist þess að gripið yrði til svona stórfellds niðurskurðar, eru fréttir sem bárust alþjóð þegar verið var að ganga frá fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár undir lok síðasta árs. Þá bárust þær fréttir, herra forseti, og bið ég aðalfulltrúa Framsfl. í samgöngumálum, hv. þm. Stefán Guðmundsson, að taka vel eftir. Þá bárust þær fréttir í fjölmiðlum að Framsfl. hefði gert þá kröfu að skorið yrði niður um 100 millj. til viðbótar við það sem þá hafði verið áætlað. 100 millj. kr. viðbótarniðurskurður á vegáætlun og það fé sem þannig sparaðist rynni til heilbrigðismála. Væri nú ekki verra að hæstv. heilbrrh. væri í þingsölum (ÁRJ: Til að bera af sér sakir.) til þess að segja sitt um þennan fréttaflutning þannig að við megum vita hvort hann væri sannur a.m.k. hvað heilbrrh. varðar. En þessar fréttir fengum við í fjölmiðlunum á sínum tíma fyrir síðustu áramót þegar var verið að ganga frá fjárlögum.

Þessar fréttir, ef sannar eru, styðja þá kenningu að það sé krafa Framsfl. að skera niður vegáætlun. Nú vil ég leggja þá spurningu fyrir talsmann Framsfl., varaformann hans, hæstv. landbrh.: Hver er stefna Framsfl. í vegamálum? Er hún þessi sem veruleikinn sýnir, að það eigi að skera vegáætlunina í tætlur ár eftir ár? Megum við búast við því að á næsta ári og þar næsta ári verði áfram skorið niður, 800 millj. í ár, kannski meira á næsta ári? Við verðum að fá svör við þessum spurningum því að stjórnmálaflokkur sem á aðild að ríkisstjórn sem þannig fer að ráðum sínum í samgöngumálum verður að svara því skýrt hvað hann vill í þeim efnum ef hann vill ekki að verkin ein verði látin tala fyrir hann. Við verðum að fá svör við því hvort þetta sé einlægur ásetningur Framsfl. í vegamálum sem birst hefur okkur á síðustu tveimur árum.

[24:00]

Nú hef ég hugsað mér að víkja máli mínu að forustumönnum Sjálfstfl. og spyr hæstv. forseta hvort formaður Sjálfstfl. eða varaformaður séu ekki væntanlegir í þingsal.

(Forseti (GÁ): Forseti hefur gert ráðstafanir um að þeim verði gert viðvart að hv. þm. óski að þeir séu hér. Þeir hljóta að koma að vörmu spori. Hér er hins vegar hæstv. samgrh. sem fer með málaflokkinn.)

Ég sé það, herra forseti, að hæstv. samgrh. er í salnum og við höfum skipst á skoðunum um þessi mál fyrr í umræðunni. Hún hefur leitt það í ljós, m.a. orðið berlega ljóst í fréttaflutningi á Stöð 2 í gær, að það er ekki samhljómur í Sjálfstfl. í samgöngumálum. Þess vegna hlýt ég að beina fyrirspurnum mínum til forustumanna flokksins þegar ég verð þess áskynja að áherslur samgrh. eru ekki endilega þær sem verða ofan á af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil fyrst, herra forseti, minna á, til þess að halda því til haga, að forustumenn Sjálfstfl., formaður og varaformaður, gáfu aðeins eitt kosningaloforð, herra forseti. Þeir sögðu: Við ætlum að gera stórátak í vegamálum. Bara eitt kosningaloforð til þjóðarinnar fyrir síðustu kosningar. Við ætlum að gera stórátak í vegamálum. Þingheimur veit hvernig það átak hefur verið. Það hefur ekki verið átak í framkvæmdum í vegagerð. Það hefur verið átak í niðurskurði á vegáætlun, svo hraustlegt átak að ekki eru fordæmi fyrir slíku, hvorki eitt ár, hvað þá tvö ár í röð. Þetta vildi ég minna á til þess að halda þessu til haga þegar við ræðum þessi mál.

Nú bregður svo við eftir tveggja ára niðurskurð að mönnum er greinilegt eitthvað farið að líða illa og nú kemur bara vegáætlun til tveggja ára sem í reynd er bara vegáætlun til eins árs þegar að er gáð því að árið 1998 er boðað að verði endurskoðað að hausti. Við erum því í reynd bara að fjalla um vegáætlun fyrir yfirstandandi ár. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvernig stendur á því að stjórnarliðar gera bara tillögu um vegáætlun til eins árs þegar ríkisstjórnin hefur sent til þeirra, í þingnefnd, tillögu til vegáætlunar til fjögurra ára?

Skýringarnar sem gefnar eru eru misvísandi. Í nefndaráliti meiri hluta samgn. segir svo, með leyfi forseta:

,,Að þessu sinni er lagt til að einvörðungu verði tvö ár vegáætlunar endurskoðuð. Um þessar mundir er verið að ljúka mörgum stórum verkefnum og því þykir eðlilegra að miða við styttra tímabil en vani er.``

Skýringin er sú að það eru mörg stór verkefni á lokastigi og þá gerum við bara vegáætlun þangað til þeim er lokið. Gott og vel.

Síðan kemur önnur skýring frá tveimur hv. þingmönnum úr meiri hluta samgn. Alþingis sem standa að því að semja þá skýringu sem ég var að lesa hér upp. Annar þeirra er hv. þm. Árni Johnsen. Hann er spurður að því í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi hvað sé eiginlega að gerast í röðum stjórnarþingmanna því að þaðan berist þær skýringar að verið sé að senda ríkisstjórninni þau skilaboð að hún sé að skera allt of mikið niður til vegamála. Aðspurður svarar Árni Johnsen, með leyfi forseta:

,,Það er nú mjög einfalt en við viljum leggja meiri áherslu á vegamálin. Við viljum setja meiri hrygg í vegalagningu á næstu árum og með þeirri áætlun sem lá fyrir til fjögurra ára þá fannst okkur ekki nóg að gert og það er auðveldara að taka þráðinn upp á næsta ári heldur en samþykkja hana til fjögurra ára.``

Hér er hvergi minnst á að verið sé að ljúka um þessar mundir mörgum stórum verkefnum. Því sé hentugt að hafa fjögurra ára áætlunina bara eins árs áætlun. Nei. Nú eru það skilaboð til ríkisstjórnarinnar. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að þingmannabekkurinn í stjórnarliðinu er að glíma við ráðherrabekkinn. Því hlýt ég að kalla eftir svörum oddvita ríkisstjórnarinnar. Hver eru svör ykkar við þessum skilaboðum þingmannanna? Eru svörin þessi: Við höldum áfram að skera niður 800 millj. á ári eða meira. Eða eru svörin þessi: Við föllumst á áherslur ykkar á komandi árum. Hvað þýðir það? Þýðir það að menn geta búist við að framkvæmdir í vegamálum verði í líkingu við það sem boðað var í gildandi vegáætlun? Eða það sem, væri enn betra, að þær mættu vera meiri?

Herra forseti. Þessar yfirlýsingar eru það misvísandi og átökin innan stjórnarliðsins eru það augljós að við hljótum að spyrja ríkisstjórnina: Hvora styðjið þið í þessu máli? Styðjið þið áframhaldandi niðurskurð eða styðjið þið þingmannabekkinn sem vill greinilega standa við þá vegáætlun sem Sjálfstfl. lofaði þjóðinni fyrir síðustu kosningar?