1997-05-17 00:07:28# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Við búum við þingræðisskipulag í landinu sem betur fer. Ef við skoðum afgreiðslu mála frá ríkisstjórn sem koma til nefndar, þá sjáum við að stjórnarmeirihlutinn í góðri sátt við ráðherra hverju sinni gerir ekki bara eina eða tvær eða tugi heldur hundruð breytinga ef allt er saman talið á frumvörpum. Og sem betur fer eru þær breytingar yfirleitt til bóta og oftast nær gerðar í góðri samvinnu og sátt við ráðherra. Og þannig á að vinna á þinginu.

Sú breyting sem var gerð á vegáætlun var gerð í góðri sátt við samgrh. og við mig og við hæstv. utanrrh., formann Framsfl. Það var því enginn ágreiningur um þessa breytingu. Þetta var hins vegar tillaga sem kom fram innan meiri hluta samgn. og okkur þótti hugmyndin skynsamleg. Við erum í miðju kafi núna í mjög mörgum umfangsmiklum verkefnum.

Í annan stað erum við í miklum fjárfestingum að öðru leyti í landinu varðandi stórverksmiðjur og orkuver. Það er ljóst að kaflaskil verða í þeim framkvæmdum um áramótin 1998 og 1999. Það liggur ekki fyrir á þessu augnabliki hversu stór þau kaflaskil verða. En þó má búast við því að það verði heilmikið fall í framkvæmdum. Þess vegna er skynsamlegt að okkar mati og meiri hluta samgn. að hafa málið opið eftir þennan tíma til þess að geta þá gert einmitt sérstakt átak í vegamálum til að mæta því falli í fjárfestingum sem þá verða almennt í landinu og til þess að undirstrika þann vilja stjórnarliðsins, Sjálfstfl. og Framsfl., að setja vegaframkvæmdir í öndvegi því að það er stefna ríkisstjórnarinnar að setja þau mál í öndvegi og þessi ákvörðun meiri hluta hv. nefndar var gerð í fullu samkomulagi við hæstv. samgrh., við mig og formann Framsfl. Þarna var skynsamlega að verki staðið og ég veit að stjórnarandstaðan er svo skynsöm að hún hlýtur að fagna því þegar svo skynsamlega er að verki staðið.