1997-05-17 00:16:52# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:16]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans í málinu. Þau eru kannski ekki önnur en við mátti búast. Fulltrúi annars stjórnarflokksins fer ekki að bera það á hinn að niðurskurðurinn sé honum að kenna þannig að svörin gátu aldrei orðið önnur en að samkomulag væri milli flokkanna um þetta.

Ég dreg þá ályktun að þeir hafi báðir verið sammála um að nauðsynlegt væri að skera niður framkvæmdir í vegamálum, þeir hafi báðir verið sannfærðir um að það ráð yrðu þeir að grípa og skera hraustlega niður, 20%, eigi minna, hvort ár. Það er sú ályktun sem hægt er að draga í fullri sanngirni að ég tel og að sé rétt mat á afstöðu stjórnmálaflokkanna sem að ríkisstjórninni standa. Það hafi verið þeirra mat að til þess að ná jafnvægi í ríkisfjármálum yrðu menn að bregða á þetta ráð.

Ég minni á að hinn mikli hagvöxtur sem við búum við og menn sjá fyrir að við munum búa við á næstu árum er að færa ríkissjóði miklar tekjur umfram það sem ríkissjóður hefur haft af óbreyttum tekjustofni. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja allar þessar væntanlegu tekjur út aftur í formi skattalækkana og auðvitað eru skattalækkanir vel þegnar hjá þeim sem njóta þeirra en hjá þeim sem eiga að bera ábyrgð á ríkisfjármálum, rekstri ríkisins og framkvæmdum þess er það a.m.k. álitamál þegar menn hafa árum saman búið við mjög þröngan hag í fjárveitingum til heilbrigðismála, skólamála og vegamála að þegar menn sjá fram á að til eru peningar og munu verða það á næstu árum að slaka þeim öllum út í skattalækkunum. Það er yfirlýsing um áframhaldandi samdrátt á þessu sviði í vegamálum sem og hinum sem ég gat um áðan.