1997-05-17 00:19:29# 121. lþ. 129.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[24:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í raun ekki miklu við að bæta. Það er þó rétt að undirstrika að á undangengnum tveimur árum hefur nánast allt framkvæmdafjármagn til heilbrigðismála verið skorið niður. Ég hygg að það sé teljandi í líklega einhverjum tugum milljóna, þó að ég hafi ekki töluna fyrir framan mig, það sem farið hefur í framkvæmdir á vegum heilbrrn. til þess að standa við gerða samninga, mjög þröngt skorið og meira að segja suma samninga sem væntingar voru miklar til var reynt að endursemja til þess að draga úr framkvæmdum.

Sama á við í öðrum málaflokkum eins og ég nefndi áðan, menntamálum, félagsmálum og víðar. Það var því ljóst að það hlyti að bitna á öllum þessum framkvæmdamálaflokkum og eins og hv. þingmenn vita, þá eru vegamálin stærsti einstaki framkvæmdaliðurinn. Við hv. þm. erum allir sammála um að mikilvægt er að halda áfram að byggja upp okkar vegakerfi og gera það með þeim þrótti sem við teljum okkur ýtrast mögulegt á hverjum tíma. Ég vil leyfa mér að segja að á undanförnum árum --- þá er ég kannski ekki að tala um tvö, fjögur eða sex ár heldur tíu eða 15 ár --- höfum við gert gríðarlegt átak á þessu sviði þó að ég viti og viðurkenni að víða er enn eftir að taka til hendinni. Við munum að sjálfsögðu halda áfram með það, en sú framkvæmdaáætlun sem gerð verður varðandi ýmsar opinberar framkvæmdir verður líka styrkari á næstu árum þegar við höfum náð jafnvægi í ríkisfjármálunum. Það er mikilvæg undirstaða og grunnur að því að okkur takist vel að vinna áfram að því að byggja upp hvort heldur það eru framkvæmdir á sviði heilbrigðismála, menntamála, félagsmála eða samgöngumála.