1997-05-17 04:25:25# 121. lþ. 129.19 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[28:25]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta mál þó ekki væri nema til að rifja upp fyrir framsóknarmönnum í húsinu nokkrar af þeim yfirlýsingum sem þeir hafa áður gefið um veðsetningu kvóta og ég veit að hæstv. forseta er nokkuð kunnugt um. En sökum þess að mér sýnist að Óli lokbrá sé farinn að sveifla fjöðurstaf sínum yfir þeim framsóknarmönnum sem að minnsta kosti eru í þessum sal ætla ég ekki að ergja þá fram eftir morgni með því að fara í þessa upprifjun. Allir aðrir framsóknarmenn eru bersýnilega sofnaðir í dag.

Um þessa ræðu Kristins H. Gunnarssonar verð ég að segja að mig undraði hún. Ég tel að hv. þm. sé í hópi þeirra sem eru einna rökfastastir í þessum sölum og það er oft gaman að hlýða á mál hans vegna þess að af og til og oftar en margir kemur hann með nýja sýn á hlutina. Hann kemur stundum að þeim úr sólarátt þar sem maður á helst ekki von á að finna hann fyrir. En ég verð að setja að mér finnst að hann skilji ekki alveg sín eigin rök sem hann hefur flutt hér í dag. Hann segir að ekki sé hægt að kalla það veðsetningu á aflahlutdeild þegar skip er veðsett á yfirverði vegna þess að því fylgir aflahlutdeild. Það kallar hann veðsetningu í skjóli aflahlutdeildar. Þetta er ekkert annað en orðhengilsháttur sem ég á að minnsta kosti mjög erfitt með að skilja. Mér fannst öll rök sem hv. þm. færði áðan færa mér með minni takmörkuðu greind heim sanninn um það að eins og hv. þm. skynjar kerfið er um það að ræða að aflahlutdeild er veðhæf og lögin heimila að hún sé veðsett. Rök hans gegn þessu eru þau að hann getur þess að veðhafinn búi við þá óvissu að ef Alþingi afnemur kvótakerfið tapar hann andvirðinu, tapar hann peningum sínum, missir hann af veðinu. Eigi að síður segir hv. þm. í beinu framhaldi af þessu að þetta dragi ekki úr möguleikum Alþingis til að breyta kerfinu. Þetta er algjör fjarstæða. Að sjálfsögðu leggur þetta þá fjötra á kerfið allt að ómögulegt verður að slíta þá af. Það verður ómögulegt að spretta upp þessu kerfi vegna þess að þá eru komin svo sterk öfl sem hafa gífurlegra hagsmuna að gæta að þau munu í gegnum tök sín á stjórnmálamönnum innan flestra flokka sjá til þess að kerfinu verður aldrei sprett upp.

Nú er ég að vísu þeirrar skoðunar að það sé engin sérstök nauðsyn til þess að breyta kvótakerfinu. Ég hef sagt það áður í þessum sölum að efasemdir mínar um það hafa dvínað. Ég stend alltaf frammi fyrir því sama og aðrir sem hafa lýst efasemdum um kvótakerfið, ég get ekki boðið upp á neitt betra. Það er einfaldlega með öllum löstum sínum eina kerfið sem býr þó að innri rökheldni og hægt er að segja að funkeri. Ég tel líka að ástand fiskstofna bendi á vissan hátt til þess að meira að segja sá partur kerfisins sem menn sögðu lengstum að virkaði ekki, fiskverndarþátturinn, hafi þegar grannt er skoðað sín jákvæðu áhrif. Ég ætla ekki að lengja þetta frekar, herra forseti, en það er enginn efi á því í mínum huga að þetta frv. heimilar í rauninni aflahlutdeild. Að vísu er farið í kringum hlutina til þess að gera Framsfl. kleift að reyna að telja kjósendum sínum trú um að hann hafi ekki svikið þetta eins og flest önnur kosningaloforð sín. Að því er varðar mál hv. þm. fannst mér hann bera fram mjög elegant rök fyrir því að frv. byði upp á veðsetningu aflaheimildar. Ég vísa að minnsta kosti algjörlega á bug þeirri ályktun hans að kerfið, eins og það verður að þessu frv. samþykktu, dragi ekki úr möguleikum til að Alþingi breyti kvótakerfinu. Ég skildi mál hans þannig. Ef það er svo þá finnst mér að hv. þm. ætti kannski að draga fram gamlar skræður um hina ósýnilegu þræði kapítalsins sem ég veit að hann hefur í æsku sinni lesið og má ef til vill finna enn rykfallnar í skúmaskotum Alþb. því svo mikið býr þó enn í hugskoti mínu af þeim gömlu fræðum að enginn vafi er á því að þegar hagsmunir fjármagnsins og fjármagnseigendanna eru orðnir svona gríðarlegir munu þeir fyrr flytja fjöll en að horfa aðgerðalausir upp á þetta kerfi hrynja vegna þess að með því hrynur grundvöllur sá sem þeir standa á í dag.