1997-05-17 04:30:59# 121. lþ. 129.19 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[28:30]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Bara aðeins til að skýra einn þátt málsins sem hv. þm. gerði að umtalsefni í sinni ræðu. Það sem ég sagði um möguleikann á að breyta kerfinu, svo ég orði það skýrar svo það verði síður misskilið, er að Alþingi hefur alveg sömu möguleika og hefur á engan hátt þrengt að þeim möguleikum sínum til að breyta lögum og afnema kerfið eða breyta því verulega. Það hefur fullt vald á málinu og á engan hátt er hægt að draga í efa rétt þess og möguleika til að breyta lögunum eða lögum um stjórn fiskveiða. Það er það sem ég meina.

Hitt sagði ég líka, og vil draga fram svo hv. þm. misskilji mig ekki, að ég legðist gegn ákvæðinu um leyfi veðkröfuhafa fyrir flutningi á aflahlutdeild vegna þess að það þyngdi í kerfinu, það styrkti aflamarkskerfið í sessi. Það er mitt mat eins og ég sagði við 1. umr. málsins að ég met breytinguna þannig að hún styrki aflamarkskerfið í sessi. Ég er ekki hrifinn af því. Ég tel að það styrki aflamarkskerfið í sessi vegna þess að það mun þyngja í skuldum sjávarútvegsins. Hann mun geta sótt sér meiri skuldir í skjóli aflahlutdeildarinnar og auðvitað munu þeir hagsmunir vigta. Ég er því alveg sammála þeim rökum hv. þm. Ég hef svo sem ekki að öðru leyti neitt að athuga við mál hans í þessu efni.