1997-05-17 04:33:11# 121. lþ. 129.19 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[28:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það að Alþingi hefur formlega sömu tök á málinu. En auðvitað er alveg ljóst að að þessum lögum samþykktum verða til nýir hagsmunir og hérna inni er alveg ljóst að menn eru að gæta ákveðinna hagsmuna. Sjálfstfl. og partur hans gætir hagsmuna kvótaeigendanna sem ég kalla svo og því miður gildir hið sama um ákveðinn hluta Framsfl. líka þótt menn með gullhjarta reyni að sjálfsögðu enn að halda sig réttu megin sannleikans og réttlætisins í málinu.

Annað vildi ég nefna fyrst ég er kominn hér upp. Hv. þm. sagði í ræðu sinni áðan að hann teldi ekki að samþykkt þessa frv. græfi undan sameignarákvæði laga um stjórn fiskveiða. Annaðhvort er hér um að ræða mikla meinloku hjá þessum greinda hv. þm. eða hann heldur þessu fram af taktískum astæðum vegna þess að hann vill ekki að umræðan sem hefur spunnist í tengslum við þetta festi í sessi þá skoðun að þetta kunni að grafa undan sameignarákvæðinu. En því miður held ég ef ég á að vera fullkomlega ærlegur að þetta sé rangt hjá honum. Ég tel að samþykkt þessa muni grafa stórlega undan sameignarákvæðinu og að þetta sé enn eitt skrefið til þess að gera aflahlutdeildina að varanlegri eign manna sem hafa látið greipar sópa um þessa sameiginlegu arfleifð þjóðarinnar.