1997-05-17 04:34:57# 121. lþ. 129.19 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[28:34]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég mun í lengstu lög halda því fram á meðan ég tel mér stætt á því að sú löggjöf sem menn munu setja grafi ekki undan sameignarákvæði laganna um stjórn fiskveiða af því að ég vil ekki rétta þeim mönnum spilin upp í hendurnar sem vilja að þetta verði óafturkræf séreign án bóta. Það þjónar ekki málstaðnum að halda hinu gagnstæða fram. Það hittir menn bara sjálfa fyrir nema menn hafi þá sannfærandi rök fyrir því og þá eiga menn auðvitað að vara við málinu.

Ég vil benda á að sjávarútvegurinn hefur verið gríðarlega skuldugur í gegnum árin bæði áður en aflamarkskerfið var tekið upp og ekki síður eftir. Hann þarf að geta borgað skuldir sínar. Aflamarkskerfið hefur að sumu leyti aukið trú bankanna á því að þeir gætu fengið skuldir sínar endurgreiddar. Ég sé ekki, svo ég reyni nú að líta raunhæft á málið, miklar líkur til þess að neinn þingvilji sé til að afnema aflamarkskerfið. Ég sé ekki líkur til að það verði í náinni framtíð. Ég met stöðuna þannig að allir helstu stjórnmálaflokkar landsins styðji aflamarkskerfið. Þó ég hafi aldrei verið stuðningsmaður þess og ég hefði fremur kosið aðrar aðferðir við stjórn fiskveiða þá er þetta sá veruleiki sem ég þykist horfast í augu við. Ég lít þannig á málin að aflamarkskerfið sé það sem við munum búa við í náinni framtíð þó það kunni að breytast þegar lengra líður frá.