Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 10:04:23 (6836)

1997-05-17 10:04:23# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[10:04]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er hægt að fullyrða að börn hér á landi eru hornrekur hvað varðar opinbera þjónustu.

Þessa dagana erum við hér á Alþingi að afgreiða frumvörp og tillögur sem hafa munu í för með sér veruleg útgjöld ríkisins á næstu árum, jafnvel svo skiptir milljörðum. Fá þessara mála snerta beint málefni barna og ungmenna.

Hér hafa þó verið fluttar tillögur sem fela í sér réttarbætur til handa börnum og fjölskyldum þeirra en fæstar hafa hlotið náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans. Rökin fyrir höfnun þessara mála eru yfirleitt þau að það vanti peninga, auðvitað sé vilji til að taka á hvað varðar aðbúnað og þjónustu við börn en peningarnir séu ekki til. Við vitum að þetta er ekki rétt. Þetta er og verður alltaf spurning um forgangsröðun verkefna.

Málefni barna og ungmenna heyra undir fjögur ráðuneyti sem hvert um sig virðist vinna að þeim málum sem til þeirra heyra án samræmdrar stefnu. Og vegna þess að störf og stefna þessara fjögurra ráðuneyta, þ.e. menntmrn., félmrn., heilbr.- og trmrn. og dómsmrn., eru ekki samræmd í málefnum er snerta börn og unglinga gerist það því miður að greining og lausn á vanda barns getur hæglega fallið milli stóla ráðuneytanna.

Það er til að mynda afar erfitt að skilgreina skýr mörk ábyrgðar og verkefna milli félmrn. og heilbrrn. á þessu sviði. Við getum tekið sem dæmi vímuefnamisnotkun. Þegar um fullorðna er að ræða þá telst það hlutverk heilbrigðiskerfisins að meðhöndla vandamálið. Þegar barn eða ungmenni á í hlut telst það hlutverk félagsmálakerfisins og ekki alltaf talin brýn þörf á þeirri þekkingu sem heilbrigðiskerfið býr yfir.

Alvarlegar hegðunartruflanir barns eða unglings má stundum rekja til félagslegra orsakaþátta en geta einnig átt sér líffræðilegar orsakir og ættu þá að falla innan heilbrigðiskerfisins en gera það ekki alltaf.

Sveitarfélögin bera mikla ábyrgð í málefnum barna og ungmenna. Þó eru þar ekki til samræmdar reglur eða viðmið sem þeim ber að fara eftir. Þessi óskýra stefna í málefnum barna og unglinga veldur því að hætta er á að ekki sé brugðist rétt á réttum tíma við þeim vandamálum sem upp koma, jafnvel ekki fyrr en málin eru komin í algjört óefni.

Þegar lögum um grunnskólann var breytt síðast var skorið á þá þjónustu sálfræðinga og félagsráðgjafa sem átti að veita samkvæmt eldri lögum. Nú er það aðeins hlutverk þessara sérfræðinga innan skólakerfisins að greina vanda barns eða unglings og vísa síðan einstaklingnum annað til meðferðar.

Samkvæmt reglugerð á að einskorða vinnu þessa fagfólks við ráðgjöf varðandi almenna kennslu og sérkennslu. Börn sem líður illa, eiga erfitt með að samlagast öðrum börnum, börn sem beita ofbeldi eða eru beitt ofbeldi, ofvirk börn eða börn með skólakvíða svo nokkur dæmi séu tekin, verða að leita annað eftir aðstoð. Meðferð hjá sálfræðingi eða félagsráðgjafa utan skólakerfisins getur kostað á bilinu 3-4 þús. kr. hver tími. Það segir sig sjálft að efnalitlir foreldrar geta ekki staðið undir kostnaði af langtímameðferð þar sem kostnaðurinn er svona mikill.

Alþb. hefur flutt á Alþingi frv. þess efnis að tryggingakerfið taki þátt í greiðslum fyrir þessa þjónustu við börn og unglinga að 18 ára aldri. Það var ekki vilji til þess hjá meiri hluta heilbr.- og trn. að afgreiða það mál.

Ef barni eða unglingi er vísað í meðferð hjá barnageðlækni tekur tryggingakerfið vissulega þátt í þeim kostnaði. En það segir þó ekki alla söguna. Sérfræðingar á þessu sviði hér á landi eru svo fáir starfandi að þar horfir til vandræða. Og sé vísað á meðferð hjá barna- og unglingageðdeildinni, þá er þar um að ræða margra mánaða, jafnvel árs bið. Hjá barna- og unglingageðdeildinni bíða hátt á annað hundrað börn eftir meðferð og stöðugt er verið að vísa ráðþrota foreldrum frá vegna þess að möguleikar til að taka fleiri sjúklinga eru ekki fyrir hendi. Það er ekki langt síðan nýr yfirlæknir var ráðin til starfa hjá barna- og unglingageðdeild en hún er nú að fara í árs leyfi.

Sjálf svarar yfirlæknirinn því til að hún verði að fara úr þessu starfi, í það minnsta um tíma, vegna þess að hún geti ekki sem fagmaður eða manneskja staðið þannig að verki að vísa frá eða geta ekki sinnt þeim börnum og unglingum sem nauðsynlega þurfa á aðstoð að halda. Þannig sé búið að þessari grein læknisþjónustu við börn að það sé með öllu óviðunandi.

Mér skilst að það sé enn óráðið hver leysi yfirlækni barna- og unglingageðdeildarinnar af. Hér eru ekki margir læknar starfandi á þessu sérsviði og varla margir sem sækja í það að koma til þessara starfa miðað við hvaða vægi barna- og unglingageðdeildin hefur þegar verkefnum ríkisins er forgangsraðað.

Það er mjög alvarlegt ef ekki er gripið fljótt inn í þegar börn þarfnast meðferðar geðlæknis, sálfræðings, félagsráðgjafa eða annarra sem sérhæfa sig til þess að veita börnum með sálræn eða geðræn vandamál meðferð.

Það má fullyrða að hluta þeirra sálrænu, félagslegu eða geðrænu vandamála eða veikinda sem upp koma hjá fullorðnu fólki megi rekja til bernsku. Ef brugðist er strax við má jafnvel koma í veg fyrir að þau leiði til alvarlegra veikinda eða alvarlegra sálrænna eða félagslegra vandamála síðar. Það er því mjög alvarleg staðreynd að í dag er staðan sú að við getum hvorki veitt þá þjónustu barnageðlækna sem þörf er fyrir, né þjónustu sálfræðinga, félagsráðgjafa eða annarra þeirra sem koma að meðferð þeirra geðrænu eða sálrænu vandamála sem upp koma meðal barna og unglinga í dag. Það verður að sjá til þess að börn sem þurfa á þessari þjónustu að halda hafi möguleika á að fá hana. Það er einnig mjög brýnt að auka stuðning á barna- og unglingageðdeild við aðstandendur ungmenna með geðsjúkdóma eins og t.d. geðklofa sem kemur stundum fram hjá piltum snemma á unglingsaldri en oft eitthvað síðar hjá stúlkum. En mikið vantar á að fjölskyldur þessara veiku barna fái þann stuðning og þá fræðslu sem nauðsynleg er í þessum tilvikum. Ekki er áætlað fjármagn í fjölskylduaðstoð, svo nauðsynleg sem hún er.

Því spyr ég hæstv. heilbrrh. eftirfarandi spurninga:

Mun ráðherra beita sér fyrir því að ríkið taki þátt í kostnaði við þjónustu sálfræðinga og/eða félagsráðgjafa fyrir börn og ungmenni?

Er fyrirhugað að efla og styrkja starfsemi barna- og unglingageðdeildar ríkisins, t.d. að auka rekstrarlegt sjálfstæði deildarinnar og auka framlög til starfseminnar? Verða settar á fót langtímaeiningar? Á að standa að auknu samstarfi og ráðgjöf við sveitarfélög og skóla vegna sálrænna og/eða geðrænna vandamála barna og ungmenna?

Hyggst ráðuneytið beita sér á einhvern hátt fyrir því að fá til starfa sérfræðinga í málefnum barna með geðræna sjúkdóma eða vandamál?

Mun hækkun sjálfræðisaldurs hafa áhrif á starfsemi barna- og unglingageðdeildar eða á aðra starfsemi heilbrigðisþjónustu, t.d. hvað varðar meðferðarúrræði vegna fíkniefnanotkunar ungmenna?

Er fyrirhugað að skýra verkaskiptingu milli ráðuneyta hvað varðar málefni barna og ungmenna?

Virðulegi forseti. Það er á fleiri sviðum sem þarf að bæta þjónustuna fyrir börn og ungmenni. Ákveðnar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað hvað varðar meðferð barnaverndarmála, sumar vissulega til góðs en aðrar orka meira tvímælis.

Það hefur m.a. hér á Alþingi átt sér stað mikil umræða um meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga sem hafa ánetjast fíkniefnum, átt við veruleg hegðunarvandamál að stríða og/eða farið út á braut afbrota. Nýtt meðferðarheimili, Stuðlar, var tekið í notkun. Nú er komin nokkur reynsla af starfi þess heimilis sem hefur reynst vel. Þó að stutt sé síðan þetta nýja heimili var vígt þá annar það í dag ekki eftirspurn. Biðtími eftir að umsókn hefur borist um vistun á Stuðlum er allt of langur, getur verið nokkrar vikur eða jafnvel mánuðir eftir að málið fer af stað. Foreldrar og þeir sem koma að þessum málum hafa ítrekað kvartað yfir því hversu langan tíma þetta ferli tekur og á meðan vaxi vandinn og sé því mun alvarlegri þegar loks kemur að meðferð á heimilinu. Og þjónusta Barnaverndarstofu sé tímafrek og seinvirk. Tökum dæmi:

Unglingur sem ánetjast hefur fíkniefnum og þarf nauðsynlega að komast strax í meðferð. Mál hans þarf að fara fyrst til nokkurra aðila hjá sveitarfélögum og ríki áður en langþráð hjálp fæst. Þetta gæti litið svona út:

Foreldri sem vill fá aðstoð vegna barns síns á unglingsaldri snýr sér til félagsmálastofnunar. Starfsmaður þar kannar málið, hittir líklega foreldra og unglinginn einnig í því skyni að gefa ráð og veita stuðning eða grípa til annarra úrræða, allt eftir mati. Ef ákveðið er að sækja um á Stuðlum þarf að senda umsókn til Barnaverndarstofu ásamt greinargerð, jafnvel afla gagna frá þriðja aðila. Umsóknin er tekin fyrir á fagteymisfundi hjá Barnaverndarstofu sem haldinn er á tveggja til fjögurra vikna fresti. Málið er afgreitt til Stuðla ef það þykir eiga heima þar og telst nægilega unnið. Málið fer á biðlista á Stuðlum. Ef ekki er um biðlista að ræða hefst inntökuferli sem getur tekið tvo til sjö daga, þar til unglingurinn er kominn inn. Ef um biðlista er að ræða verður þetta mun lengri tími. Þó er möguleiki á skammtímavistun í bráðatilvikum. Þannig getur það tekið nokkrar vikur áður en umsóknir um meðferð á Stuðlum eru afgreiddar og málið er komið á biðlista hjá stofnuninni. Barnaverndarstofa er hér í hlutverki Lykla-Péturs og sér til þess að þjónustan sé ekki veitt umfram það sem talin er sérstök þörf fyrir. Það er ljóst að þetta ferli er flókið og tekur allt of langan tíma frá sjónarhóli foreldra og unglinganna sjálfra og þessi langa leið verður þess valdandi að margir gefast upp á að fá hjálp og þá má velta því fyrir sér til hvers það leiðir.

En þó vistun fáist á Stuðlum eða á öðrum heimilum þar sem unglingar í vanda eru vistaðir þá er málinu ekki lokið. Hver verða afdrif unglinga sem lokið hafa vist á Stuðlum eða öðrum meðferðarheimilum og fara aftur til síns heima? Því miður gerist það allt of oft að þrátt fyrir ótvíræðan árangur á meðferðartímanum þá leitar líf þessara unglinga í fyrra horf þegar út er komið. Eftirmeðferð er nauðsynlegur þáttur í öllu meðferðarstarfi eigi það að skila þeim árangri sem við vonumst til, en því miður hefur þessi þáttur verið vanræktur og allt of litlir fjármunir settir í þetta verkefni, bæði af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna.

Stuðningur við þessa unglinga og fjölskyldur þeirra er lítill, hvort sem um er að ræða atvinnuleit eða nám. Úr þessu þarf að bæta. Þörfin fyrir öfluga meðferð og eftirmeðferðarþjónustu hefur því miður aukist á undanförnum árum. Ef til vill má að hluta rekja ástæðuna fyrir þessari auknu þörf til þess að ekki er staðið nægjanlega vel að málum, hvorki svarað þörf fyrir þjónustu geðlækna, sálfræðinga eða annarra sérfræðinga strax þegar þörfin verður ljós, þ.e. þegar einstaklingurinn er á barnsaldri.

[10:15]

Þörfinni, eins og hún er í dag, er hvergi nærri mætt. Það liggur fyrir að sjálfræðisaldur verður hækkaður. Um það náðist þverpólitískur meiri hluti hér á Alþingi. Með þessari samþykkt tel ég að fyrsta skrefið í þá átt að bæta meðferð í málefnum ungmenna hafi verið stigið. En það skiptir þó miklu máli að það sem á eftir kemur sé vel unnið og menn geri sér grein fyrir að hér var stigið skref sem þýðir að taka verður með öðrum hætti á málefnum ungs fólks á aldrinum 16 til 18 ára. Það blasir t.d. við að álag á þeim stofnunum sem sinna meðferðarstarfsemi fyrir börn og unglinga eykst. Og það blasir við að þörf er á nýjum úrræðum t.d. í vistun þeirra ungmenna sem hafa farið út á braut afbrota. Stuðlar anna ekki verkefnum sínum í dag enda verður að breyta starfsfyrirkomulagi heimilisins ef því verður ætlað að taka við ungmennum 16 til 18 ára. Það getur til að mynda orkað tvímælis að ætla að 13 ára unglingur og 17 ára séu saman í meðferð. Þá hlýtur að þurfa að auka göngudeildarþjónustu sem er hvergi nærri nægjanleg í dag, hvað þá ef hópur þeirra sem þurfa á þeirri þjónustu að halda stækkar. Gæsla og umönnun eldri hópsins gerir aðrar kröfur til meðferðarheimila, t.d. aukna umönnun og auknar öryggisráðstafanir því gera má ráð fyrir að hlutfall þeirra sem gerst hafa sekir um afbrot verði hærra í eldri hópnum.

Meðferðarheimili í dag eru ekki í stakk búin til að taka við 16 og 17 ára unglingum sem til dæmis hefur þurft að hafa afskipti af vegna ofbeldisafbrota. Reyndar virðast meðferðarheimili sem starfa í dag ekki vera í stakk búin til að sinna öryggisgæslu eins og nýleg dæmi sanna. Það er löngu tímabært að taka sérstaklega á hvað varðar unga afbrotamenn. Þeir þurfa sér úrræði. Þeir þurfa sérstaka aðhlynningu og sérhæfða þjónustu geðlækna, sálfræðinga og félagsráðgjafa langt umfram þá þjónustu sem veitt er í dag.

Öflugt samstarf barna- og unglingageðdeildar og annarra stofnana eða heimila þar sem ungmenni eru vistuð er nauðsynlegt. Miðað við stöðuna í dag er óframkvæmanlegt að standa þarna nægjanlega vel að verki, þar sem barna- og unglingageðdeildin getur engan veginn sinnt hlutverki sínu m.a. vegna fjárskorts.

Þá þarf að auka fjölskylduráðgjöf hjá öllum þeim stofnunum sem starfa á þessu sviði í dag. Öflug fjölskyldumeðferð eða fjölskylduráðgjöf er nauðsynlegur þáttur í bata barns eða unglings sem þarf á hjálp geðlæknis, sálfræðings eða annarra sérfræðinga að halda. Þessi mikilvægi þáttur hefur verið illa vanræktur og ekki áætlað fjármagn, hvorki af hálfu ríkis né flestra sveitarfélaganna til þess að sinna verkefninu svo vel fari.

Fjölskylduráðgjöf er rekin hér í Reykjavík í samstarfi sveitarfélaga en það sveitarfélag sem tekið hefur á þessu með hvað mestum myndarbrag er Sauðárkrókur þar sem starfa á vegum þess bæði sálfræðingur og félagsráðgjafi sem veita börnum og ungmennum aðstoð án gjaldtöku.

Nauðsynlegt er að koma á skipulegu samstarfi ríkis- og sveitarfélaga í málefnum barna, unglinga og fjölskyldna. Það er þó ekki síður nauðsynlegt að skipuleggja betur en gert er samstarf þeirra ráðuneyta sem fara með málefni barna og ungmenna. Staðan eins og hún er í dag er óviðunandi. Þarfir barna og ungmenna eru afgangsstærð þegar verkefnum ríkisins er raðað. Staða þessara mála er okkur öllum til skammar. Hækkun sjálfræðisaldurs er spor í rétta átt en því fylgir að gera verður verulegar breytingar á löggjöf og skipulagi verkefna. Í þá vinnu verður að fara nú þegar.

Ég beini eftirfarandi spurningum til hæstv. félagsmálaráðherra:

Hver er reynslan af starfi Stuðla og annarra meðferðarstofnana eftir þær breytingar sem gerðar voru?

Eru fyrirhugaðar breytingar á starfseminni í ljósi reynslunnar og vegna hækkunar á sjálfræðisaldri, t.d. að einfalda aðgengið að þjónustunni, koma á sérhæfðri vímuefnameðferð, auka göngudeildarþjónustu og taka sérstaklega á vistun þeirra unglinga sem brotið hafa af sér?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að upp verði tekin önnur vinnubrögð við ákvörðun refsinga vegna afbrota ungmenna, t.d. unglingadómstóll og hvað varðar refsiúrræði svo sem að dæma megi til samfélagsþjónustu?

Hefur verið ákveðið hvernig dóms- og félmrn. skipta með sér verkum í málefnum þeirra ungmenna sem eru á aldrinum 16 til 18 ára? Verður ákvæðum varðandi sakhæfi breytt?

Hvaða aðrar breytingar á réttarstöðu ungmenna breytast við hækkun sjálfræðisaldurs?

Mun ráðherra beita sér fyrir því að fjölskylduráðgjöf verði aukin við þær stofnanir sem starfa að málefnum barna og ungmenna?

Virðulegi forseti. Við skulum hafa í huga að haft er fyrir satt að segja megi fyrir um framtíð samfélags út frá því hvernig það kemur fram við börnin sín.