Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 10:20:28 (6837)

1997-05-17 10:20:28# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[10:20]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Stuðningur við barnafjölskyldur er minni á Íslandi en almennt gerist í löndunum í kringum okkur. Hér hefur hingað til ekki verið mörkuð markviss opinber fjölskyldustefna. Það mál er nú farsællega í höfn því Alþingi hefur afgreitt tillögu um opinbera fjölskyldustefnu með dyggum stuðningi okkar jafnaðarmanna enda eigum við hlut að því máli. Þó það hafi tekið á þriðja ár að ná því máli fram ber að fagna því að það er til lykta leitt nú þegar við ræðum málefni barna og ungmenna utan dagskrár í þinglok.

Af hverju blasir vandi við í málum yngsta aldurshóps þjóðarinnar? Fjölskyldan hefur setið á hakanum í íslensku þjóðfélagi. Langur vinnudagur oft samfara húsnæðisöflun, foreldrar langdvölum frá heimilinu, óviðunandi gæsluúrræði. Þetta eru aðstæður sem við þekkjum öll. Aldurshópurinn sex til 16 ára býr við skert öryggi þar sem mörg þeirra barna sjá um sig sjálf á meðan foreldrar vinna langan vinnudag.

Það var sannarlega spor í rétt átt þegar málefni barna og ungmenna voru flutt úr menntmrn. yfir í félmrn. og samfara því gerðar skipulags- og lagabreytingar varðandi málaflokkinn. Á síðasta ári bárust athugasemdir frá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem lýst var ánægju með ýmsa þætti í framkvæmd barnaverndarmála hér en alvarlegar athugasemdir gerðar við aðrar. Það er því ljóst að við verðum að taka okkur á í málum yngstu borgaranna og löngu ljóst að með góðum aðbúnaði þeirra munum við fjárfesta til framtíðar.

Börnum sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi er ekki tryggður stuðningur og meðferð af hálfu opinberra aðila þrátt fyrir að skýr fyrirmæli séu um það í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum staðfest. Engin hópmeðferð stendur þessum börnum til boða. Áfallahjálp og langtímameðferð eru sjaldan skipulagðar af barnaverndarnefndum enda lagaskyldur þar um óljósar. Í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um kynferðislega misnotkun á börnum kom fram að á síðustu fimm árum hafi barnaverndarnefndir fengið 465 mál til meðferðrar vegna meints kynferðislegs ofbeldis og að hlut eigi að máli 560 börn yngri en 16 ára. Þessar upplýsingar vöktu óhug þegar þær komu fram en það sem máli skiptir er að nýta þessa þekkingu til að gera allt sem unnt er svo þolendur ofbeldis eigi kost á stuðningi og að sálfræðiaðstoð og önnur félagsleg úrræði geri það kleift að börn vaxi úr grasi til að verða heilbrigðir og nýtir þjóðfélagsþegnar.

Vaxandi ofbeldi er mikið áhyggjuefni. Að því er virðist tilefnislausar árásir eru daglegt brauð hér nú orðið. Alvarlegt ofbeldi veldur örkumlum og jafnvel dauða. Umræðan um ofbeldi meðal ungmenna hefur líka leitt í ljós ágalla sem eru á okkar löggjöf. Hún leiðir í ljós ákveðið úrræðaleysi barnaverndaryfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og lögreglu. Alvarlegar hegðunartruflanir barna verða æ algengari og ef ekki er brugðist við er hætta á að einstaklingur leiðist síðar út í ofbeldi, afbrot og andfélagslega hegðun. Við höfum flotið að feigðarósi varðandi félagslegan og sálfræðilegan stuðning við börn í vanda og það er mál til komið að við tökum okkur saman í andlitinu, bæði með aukið fjármagn í þennan viðkvæma málaflokk og ný úrræði.

Málshefjandi kom inn á málefni barna- og unglingageðdeildarinnar. Sú deild er eina úrræðið sinnar tegundar hér og getur eingöngu sinnt tíunda hluta þeirra tilfella sem á þjónustu hennar þurfa að halda. Í fyrra var tilkynnt að deildin tæki ekki við fleiri börnum með einhverfu þrátt fyrir að fleiri börn greinist nú einhverf en áður.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins var fengið það hlutverk að fást við vandann. Ég spyr félmrh. hvernig staðan sé varðandi einhverf börn í dag. En þeim var eins og kemur fram hér úthýst af barna- og unglingageðdeild Landspítalans.

Fyrir einu og hálfu ári síðan í umræðum hér á Alþingi um fíkniefnavandann upplýsti heilbrrh. að hún hefði veitt 12 millj. kr. til að efla barna- og unglingageðdeildina og koma á fót upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda. Það var mikil þörf fyrir ráðgjafarþjónustu af þessu tagi fyrir forelda ungra neytenda en það kom mörgum jafnmikið á óvart og mér að koma ætti slíkri starfsemi fyrir á barna- og unglingageðdeildinni sem var þegar í miklum þrengingum. Í skriflegu svari heilbrrh. nú í vetur við fyrirspurn minni kom svo í ljós að þessi leiðbeiningarstöð komst aldrei á laggir. Starfsemin hafði hvergi verið kynnt enda reyndist brýn þörf á þessu fjármagni til að unnt væri að leysa hefðbundin verkefni deildarinnar sem því miður neyðist til að vísa börnum og unglingum frá sér í stórum stíl með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú er loks verið að bregðast við og koma þessari áformuðu leiðbeiningarstöð fyrir á nýjum stað í samvinnu við Reykjavíkurborg einu og hálfu ári eftir að þessari gulrót var veifað framan í okkur þingmennina í umræðu um fíkniefnavandann.

Virðulegi forseti. Það blasir nú við í okkar seinvirka kerfi að þetta var röng og gagnslaus ákvörðun og eitt og hálft ár er farið fyrir bí. Stuðningur við foreldra er mjög mikilvægur en slíkur stuðningur er af skornum skammti. Takmörkuð fjölskylduráðgjöf er í boði og óaðgengileg fyrir foreldra barna í vanda. Landsnefnd um ár fjölskyldunnar notaði mestallt fjármagn sem hún fékk til ráðstöfunar til að setja á laggir tilraunaverkefni í samvinnu við Reykjavík og Mosfellsbæ. Þetta verkefni, fjölskylduráðgjöfin Samvist, hefur sannað gildi sitt. Í þeirri tillögu um opinbera fjölskyldustefnu sem Alþingi hefur nú samþykkt er ákvæði um að, með leyfi forseta:

,,Fræðsla um stofnun heimilis verði aukin og unnið verði gegn upplausn fjölskyldna, m.a. með fjölskylduráðgjöf.``

Þetta segir í almennum markmiðum í II. kafla tillögunnar. Í þeim kafla segir jafnframt:

,,Að vernd gagnvart ofbeldi verði efld, jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Forvarnir vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði auknar.``

Þarna er komin forskrift Alþingis fyrir okkar ríkisstjórn og ráðherra að hrinda í framkvæmd. Alþingi hefur talað og látið í ljósi vilja sinn sem er gífurlegur stuðningur, t.d. við félmrh. í að hrinda fram verkefnum í forvörnum á þessu sviði.

Mál eru nefnilega komin í algjört óefni þegar vista þarf ungling á meðferðarstofnun og oft er um margra ára vandamál að ræða sem ekki hefur verið tekið tímanlega á með markvissum hætti. Ef við förum ekki að sinna börnum betur getum við þurft mörg heimili fyrir hegðunartruflaða einstaklinga í framtíðinni. Það er heimilt að svipta 15 ára ungling frelsi með fangelsun eða varðhaldi hér á Íslandi. En í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fjallað um réttindi frelsissviptra barna og ungmenna. Þar er mælt fyrir um mannúðlega meðferð og að tekið skuli tillit til þarfa einstaklinga á þeim aldri sem um ræðir. Sérstaklega er mælt fyrir um að barni sem er svipt frelsi sínu skuli haldið aðskildu frá fullorðnum nema ef það er talið því fyrir bestu að gera það ekki.

Þegar við afgreiddum barnasáttmálann á sínum tíma var staðfest með yfirlýsingu að í íslenskum lögum væru ekki ákvæði um að ungum föngum skuli halda aðskildum frá eldri föngum. En þess var jafnframt vænst að við ákvörðun um fangelsun ungmenna yrði ávallt tekið mið af því hvers konar afplánun væri ungmenni fyrir bestu. Þetta var árið 1992 og enn getum við ekki uppfyllt þetta mikilvæga ákvæði barnasáttmálans. Það er mín skoðun að það þurfi að breyta hegningarlögunum þannig að dvöl á meðferðarheimili komi til viðbótar við önnur refsiákvæði samkvæmt lögum.

[10:30]

Almennt eru afbrot talin birtingarform annarra undirliggjandi ástæðna, svo sem tilfinningalegra, geðrænna eða félagslegra vandkvæða. Málefni ungra afbrotamanna verður því að skoða í ljósi uppvaxtar þeirra og uppeldisaðstæðna og þeirrar ábyrgðar sem samfélagið ber. Sérhæft meðferðarheimili eða stofnun gæti skapað þær forsendur sem eru nauðsynlegar til að ungmenni ráði bót á vanda sínum. Ég beini þeirri spurningu til félmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir að slíkt meðferðarheimili geti orðið viðbótarúrræði í refsilöggjöf okkar. Hvort hann telji tímabært að fella yfirlýsingu Íslands, sem fylgir barnasáttmálanum, úr gildi. Það er hún sem gerir okkur stikkfrí því við erum ekki eins og siðuð þjóð í meðferð ungra afbrotaunglinga.

Þess má geta að til margra ára hafa um þrír unglingar verið dæmdir til refsivistar á hverju ári en sá hópur hefur tvöfaldast síðustu tvö til þrjú ár. Þetta leggur okkur skyldur á herðar. Foreldrar eru framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum til 18 ára aldurs samkvæmt gildandi lögum þó þau fari bara með forsjá þeirra til 16 ára aldurs. Í þessu tilfelli, sem mörgum öðrum er mikið misræmi í löggjöf okkar, sem nú tekst vonandi að lagfæra þar sem Alþingi er að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Sú breyting hefur hins vegar ekki þær grundvallarbreytingar í för með sér sem margir hafa staðhæft en hún gerir okkur mögulegt að beita betri aðferðum í meðferð unglinga sem þarfnast samfélagslegrar hjálpar. Það er nauðsynlegt að foreldrar geti haft yfirráð og eftirlit með börnum sínum lengur en til 16 ára aldurs í því skyni að veita vernd gegn aðsteðjandi hættu, ekki til að gera ungmenni ábyrgðarlaus heldur vegna þess að ábyrgðin er ekki einungis barnanna heldur foreldranna og samfélagsins alls.

Í umsögn Barnaverndarstofu til allshn. á síðastliðnu ári kom fram að enga hjálp hefur verið hægt að veita ungmennum eftir að þau hafa náð 16 ára aldri þótt þau þurfi á stuðningi eða meðferð að halda enda dæmi um að börn hafi gengið út úr meðferð á 16 ára afmælisdaginn. Það kom fram að óhjákvæmilegt sé að bjóða upp á sérhæfð meðferðarúrræði fyrir þennan aldurshóp. Árlega vistast fimm til tíu ungmenni á umræddum aldri á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu í lengri eða skemmri tíma. Þau heimili eru almennt ekki í stakk búin til að veita þessum hópi þjónustu enda miðast starfsemi þeirra flestra við aldurshópinn 13--16 ára.

Nýlegar breytingar á meðferðarkerfi ríkisins hvað varðar vímuefnaneytendur gera ráð fyrir að sjálfráðu einstaklingarnir 16 ára og eldri leiti þeirrar þjónustu á sjúkrastofnunum fyrir fullorðna nema í undantekningartilvikum. Það hefur ekki þótt góður kostur að blanda saman ósjálfráða og sjálfráða einstaklingum í t.d. vímuefnameðferð.

Mér finnst brýnt að menn geri sér grein fyrir því að tilfellum sem þarfnast hjálpar fjölgar ekki við það að sjálfræðisaldur hækkar. Þeir sem njóta ekki meðferðarúrræða á vegum barnaverndaryfirvalda eða hjá barna- og unglingageðdeild hafa þurft að leita fullorðinsúrræða sem eru væntanlega alls ekki ódýrari og þegar upp er staðið erum við að tala um samfélagskostnað og einn og sama vasann. Ég beini engu að síður þeim spurningum til félmrh. hvort hann muni láta vinna áætlun um uppbyggingu í málaflokknum í kjölfar hækkunar lögræðisaldurs.

Í umsögn Barnaverndarstofu kom einnig fram að þó hækkun lögræðisaldurs kallaði á aðgerðir væri fullvíst að breytingar hefðu áhrif til lækkunar til lengri tíma litið. Þannig megi draga úr fjárhagstjóni vegna síbrota auk þess sem meðferð mun væntanlega draga úr afbrotum margra á fullorðinsárum. Draga mun úr kostnaði vegna löggæslu, rannsóknar- og dómsmálameðferðar sem og heilbrigðis- og félagsþjónustu en ómældur er sá samfélagskostnaður sem hlýst af fjölda ungs fólks sem eyðileggur sjálft sig og aðra að ekki sé talað um sársaukann sem slík örlög valda.

Félmrh. sagði við opnun Stuðla í september síðastliðnum að verið væri að undirbúa rekstur nýs heimilis sem mundi starfa á grundvelli tólf þrepa kerfis, þetta yrði á næstu mánuðum. Sama kom fram við umræðu hér á Alþingi. Hvað líður málinu? Hvenær á að opna heimilið? Hvar er það staðsett? Og á hverju hefur staðið?

Að lokum þetta, virðulegi forseti og ágætu alþingismenn, af hverju tekur alltaf svona langan tíma að hrinda fram úrbótum í barnaverndarmálum? Hvers vegna er skorið við nögl fjármagn til þeirrar fjárfestingar sem skilar þjóðinni mestum arði þegar upp er staðið?