Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 10:58:37 (6840)

1997-05-17 10:58:37# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[10:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég sé nú ástæðu til þess að þakka þessa umræðu. Það hefur margt komið fram sem er umhugsunarefni og margt verið spaklega sagt.

Ég mun reyna að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og þá fyrst tveimur spurningum sem hv. 5. þm. Suðurl. beindi til mín. Það er í fyrsta lagi: Hver er reynslan af starfi Stuðla? Eru fyrirhugaðar breytingar á starfseminni í ljósi reynslunnar og vegna hækkunar á sjálfræðisaldri, t.d. að einfalda aðgengið að þjónustunni, koma á sérhæfðri vímuefnameðferð, auka göngudeildarþjónustu og taka sérstaklega á vistun þeirra unglinga sem hafa brotið af sér? Það er nú þetta með reynsluna af starfi Stuðla að þá er það auðvitað alltaf matsatriði. En ég held að óhætt sé að segja að hún sé eftir vonum. Að vísu hafa ekki allir fengið bata sem þangað hafa farið og ekki tekist að leysa vandamál hjá öllum. En ég held að þetta úrræði hafi sannast að er gott og þarna hafi verið vel að verki staðið.

[11:00]

Það eru 51 sem hafa verið vistaðir á Stuðlum frá opnun meðferðarstöðvarinnar 27. sept. sl., þar af 24 í meðferðarvistun. Eins og er eru níu þar í meðferð og 15 hafa útskrifast en 27 hafa verið í skammtímavistun eingöngu. Ekki hefur farið fram kerfisbundin könnun á afdrifum þeirra unglinga sem útskrifast hafa. Þó má geta þess að af þeim 15 unglingum sem útskrifast hafa frá upphafi hafa sjö fengið pláss á langtímameðferðarheimili, fimm hafa farið aftur heim til foreldra að lokinni meðferð að Stuðlum en þrjú hafa hætt í meðferð eða útskrifast án þess að meðferð væri lokið.

Biðtími eftir innlögn, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, er um tveir mánuðir þó að hann geti í einstaka tilfellum verið lengri ef þörfin er ekki brýn eða unglingurinn nýtur annarra úrræða og gengur sæmilega. Ef um neyðartilvik er að ræða, t.d. nauðsynlegt að stoppa ungling af, er oftast fyrirvaralaust unnt að vista ungling í neyðarvistun í allt að 14 daga. Biðtíminn getur verið breytilegur og ræðst fyrst og fremst af eftirspurninni. Þegar Stuðlar tóku til starfa sl. haust var biðtíminn til muna lengri en hann er nú. Ekki eru neinar sérstakar vísbendingar um að hann kunni að lengjast. Það er matsatriði hvort umræddur biðtími sé óhóflegur. Vert er að leggja áherslu á að biðtími getur verið af hinu góða því stundum tekur fjölskyldan við sér og tekst að yfirvinna vandann þannig að þegar að innlögn kemur reynist hún óþörf. Þetta er ástæða til þess að stundum er varhugavert að hafa aðgengi að meðferðarstofnunum of einfalt að mati forstöðumanns Barnaverndarstofu því þá getur ábyrgðin verið tekin af foreldrunum. Það hefur líka sýnt sig að fjölskyldan er besta meðferðarúrræðið ef hún er í stakk búin til að taka á málum. Hitt er svo annað mál að fjölskyldan þarf á stuðningi að halda í ýmsum tilfellum í þessari glímu og þá reynir á félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Spurt er um hvort fyrirhugað sé að koma á sérhæfðri vímuefnameðferð, þ.e. að aðskilja eða deildarskipta Stuðlum. Eins og stendur er veitt sérhæfð meðferð fyrir vímuefnaunglinga á Stuðlum. Hún er byggð á lífsreglum sem eru í anda svonefnds tólf spora kerfis sem notað er í hefðbundinni áfengismeðferð. Á Stuðlum eru AA-fundir sem vímuefnabörn sækja. Hins vegar eru Stuðlar fyrst og fremst greiningarstöð og ef í ljós kemur við greiningu að unglingurinn þurfi á enn frekari vímuefnameðferð að halda verður honum beint í slíka meðferð. Á næstu vikum tekur til starfa meðferðarstofnun fyrir vímuefnaunglinga í Varpholti við Skjaldarvík.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði eftir því hvað hefði tafið að þessi stofnun tæki til starfa. Ég verð að segja að ég vonaðist eftir að hún kæmist fyrr í gagnið en raunin hefur orðið. Tafir hafa m.a. orsakast af því að menn voru ekki sammála um hvar átti að setja hana niður. Nokkrir staðir voru skoðaðir sem þóttu koma til greina. Í það fór töluverður tími. Niðurstaðan er sú að meðferðarstöðin verður í Varpholti, þ.e. í Skjaldarvík rétt hjá Akureyri. Á næstu vikum er þar að fara í gang meðferðarheimili. Það er eftir að ganga frá atriði þegar ég vissi síðast í þjónustusamningi en starfsfólk hefur verið ráðið eftir því sem ég best veit og þetta er að fara í gang.

Spurt er um hvort fyrirhugað sé að koma á fót göngudeildarráðgjöf fyrir yngri unglinga til að minnka þörf fyrir stofnanavist. Göngudeildarþjónusta er lögbundið verkefni sveitarfélaga og er tæplega á færi félmrn. að koma beint að því. Hins vegar má þó minna á að félmrn. hefur hvatt til þess að komið yrði á fót öflugri ráðgjafarþjónustu fyrir fjölskyldur og félmrn. lagði fjármagn í tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar sem er fjölskylduráðgjöfin Samvist. Ég vil líka minna á vímuvarnaátak sem félmrn., dómsmrn., Reykjavíkurborg, grunnskóli Reykjavíkur og Rauði krossinn standa að. Í tengslum við það hefur verið sett á laggirnar unglingamiðstöð í Heilsuverndarstöðinni þar sem unglingum og fjölskyldum þeirra er veitt ráðgjöf og meðferð.

Það er spurt hvort fyrirhugað sé að dæma afbrotaunglinga til meðferðar og hvort fyrirhugað sé að koma á fót heimili með strangari gæslu en nú er.

Núgildandi ákvæði hegningarlaga veita ekki heimildir til að dómarar dæmi unga afbrotamenn til dvalar á meðferðarstofnunum. Hins vegar er Fangelsismálastofnun ríkisins heimilt að láta afbrotamenn afplána hluta refsingar sinnar á meðferðarstofnunum. Í kjölfar hækkunar á sjálfræðisaldri má búast við að kröfum um breytingar á hegningarlögunum í þessa veru vaxi ásmegin og dvöl á meðferðarheimili geti komið í stað fangelsisvistar. Því miður hefur ofbeldisfullum unglingum farið fjölgandi og núverandi meðferðarkerfi á erfitt með að glíma við það vandamál. Það er alveg ljóst að hækkun sjálfræðisaldurs veldur því að það þarf aukin úrræði á vegum félmrn. til að taka við þeim tveimur árgöngum sem Alþingi hefur ákveðið að verði á verksviði okkar.

Ég hef leitað eftir hugmyndum um hvað þyrfti að gera til þess að svara þeirri viðbótarþörf sem þar kemur fram. Menn búast við að það verði óhjákvæmilegt að setja á laggirnar sérhæfð meðferðarúrræði fyrir 16--18 ára unglinga. Það vistast fimm til tíu ungmenni á umræddum aldri á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu um lengri eða skemmri tíma. En starfsemi þeirra miðast við 13--16 ára. Það þarf að fjölga meðferðarheimilum og sérhæfða vímuefnameðferð fyrir 16--18 ára sem áður hefur verið á sjúkrastofnunum. Síðan er það hugmyndin um meðferð í stað refsivistar. Reikna má með því að hækkun sjálfræðisaldurs feli í sér að starfrækja yrði að minnsta kosti eitt sérhæft meðferðarheimili fyrir 16--18 ára. Áætlaður rekstrarkostnaður þess yrði 35 millj. kr. Það er líklegt að fljótlega yrði að bæta við öðru heimili vegna lengri vistunartíma á öðrum meðferðarheimilum og má áætla árlegan rekstrarkostnað á bilinu 20--25 millj. kr.

Búast má við útgjaldaauka hjá félmrn. vegna hækkunar sjálfræðisaldurs um 120--140 millj. kr. Þá er ekki tekið tillit til stofnkostnaðar og ég vil taka það fram og undirstrika það sérstaklega. Væntanlega sparast eitthvað í þjóðfélaginu á móti en það lítur þannig út frá bæjardyrum okkar í félmrn. að þarna sé um að ræða aukna fjárþörf upp á 120--140 millj. vegna ákvörðunar Alþingis.

Önnur spurning 5. þm. Suðurl. var þessi: Mun ráðherra beita sér fyrir því að upp verði tekin önnur vinnubrögð við ákvörðun refsinga vegna brota ungmenna, t.d. unglingadómstóll og hvað varðar refsiúrræði svo sem að dæma megi til samfélagsþjónustu?

Nú eru refsiúrræðin ekki á valdi félmrn. og á þess vegum eru ekki rekin fangelsi þannig að þetta mál yrði að leysast að frumkvæði dómsmrh. Ég held að óhjákvæmilegt sé að koma upp einhverju öflugu meðferðarúrræði svo þeir sem í meðferð væru gætu ekki strokið. En það verður líka að gæta að mannréttindum. Ég held að þróunin sé þannig að þetta verði innan skamms óhjákvæmilegt. Til meðferðar koma unglingar sem eru ákaflega erfiðir í umgengni og virðist þurfa kröftugri úrræði en nú eru fyrir hendi.

Þriðja spurningin var: Hefur verið ákveðið hvernig dómsmrn. og félmrn. skipta með sér verkum í málefnum þeirra ungmenn sem eru á aldrinum 16--18 ára verður ákvæðum varðandi sakhæfi breytt?

Ég er vanbúinn að svara spurningunni á þessari stundu. Lögin hafa ekki verið samþykkt og ákvörðun Alþingis um hækkun á sjálfræðisaldrinum er ekki nema fárra daga. En það hefur verið ákveðið í ríkisstjórninni að dómsmrh. hafi forustu um að mynda starfshóp með aðild frá félmrn., menntmrn. og heilbrrn. Þessi starfshópur kanni m.a. hvaða lögum þurfi að breyta vegna þessarar hækkunar á sjálfræðisaldri. Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður að taka tillit til þess í barnaverndarlögum og skattalög þarf væntanlega að skoða með sérstöku tilliti til þess arna og ef til vill fleiri lög. Það stendur þannig á að verið er að endurskoða barnaverndarlögin og ég vænti þess að geta lagt fram frv. um breytt barnaverndarlög í þingbyrjun í haust.

Hvaða aðrar breytingar á réttarstöðu ungmenna breytast við hækkun sjálfræðisaldurs?

Ég held að ég hafi verið búinn að svara þessari spurningu. Það hefur ekki verið kannað til fullnustu.

Mun ráðherra beita sér fyrir því að fjölskylduráðgjöf verði aukin við þær stofnanir sem starfa að málefnum barna og ungmenna?

Ég mun beita mér fyrir því og reyna að komast í samstarf þar sem það er unnt um aukna fjölskylduráðgjöf. Spurt hefur verið um einhverf börn og hvers staðan sé í málum þeirra. Á síðasta ári var opnað meðferðarheimili eða sambýli í Tjaldanesi. Það verður rekið áfram.

Tími minn er búinn en ég held að ég hafi komist yfir að svara þeim spurningum sem til mín var beint.