Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 11:14:59 (6841)

1997-05-17 11:14:59# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:14]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þar sem fólkinu líður vel þarf ekki fangelsi, sagði Nóbelsskáldið okkar á einum stað í sínum bókum. En nú fagna menn hækkun ósjálfræðisaldurs Íslendinga og hugleiða hvað þurfi að byggja af fangelsum yfir þessi börn. Mér er ljóst að það verður að byggja fangelsi yfir þessi börn verði þeirri stefnu fram haldið sem hér hefur verið ákveðin. Þá verða að sjálfsögðu 16--18 ára ungmenni með öðrum sem eru mun yngri. Hvort það verður til góðs eða ekki á tíminn eftir að leiða í ljós. En það má segja að einkenni okkar tíma er að vilja leysa alla hluti með stofnunum, ein stofnun hér, ein stofnun þar. Við höfum verið að ganga frá því að til þess að stjórna þessum stofnunum þurfi menn með háskólamenntun án frekari skilgreiningar hvað passi nú við hverja. Og þeir sem að hampa mest þessari lausn með stofnun hafa vissulega sigrað, þeirra er ríkið, þeirra er stefnan.

Ég minnist þess aftur á móti að sem ungur maður las ég einu sinni bókina Frá mönnum og skepnum eftir doktor Brodda Jóhannesson. Hann skrifaði þessa bók þegar hann var ungur og kannski róttækur á sína vísu. Þar segir hann frá því þegar ungur drengur situr undir athugasemdum heimilisfólksins, gestkomandi, frænkur og frændur, og allir eru með ráð og leiðbeiningar hvernig eigi að standa að uppeldi stráksins, og við getum að sjálfsögðu bætt skólanum við eftir að við erum komin með skyldunám eins og nú er. Í lok þessarar litlu frásagnar segir hann frá karlinum sem er að umgangast rauða folann í kofa og tekur fram að rauði folinn sé efnileg skepna. Hann umgangist enginn nema gamli maðurinn sem láti vel að honum og sinni hans þörfum og satt best að segja dytti engum heilvita manni í hug að hafa 20 tamningamenn á einn hest. Ég veit ekki hvernig færi en ég efa stórlega að svo gott upplag sé í íslenskum reiðhestastofni að það fengist nothæfur gæðingur með því fyrirkomulagi. Og ég undrast það oft að þrátt fyrir allt skuli íslensk æska vera jafnhæf og eins vel á sig komin og hún er miðað við þær tamningaaðferðir sem við notum á hana.

Um nokkur ár átti ég þess kost að sitja þing Alþjóðaþingmannasambandsins. Ein setning er mér minnisstæðari en nokkur önnur. Það var svissneskur prófessor sem lýsti því yfir að okkar kynslóð hefði tapað hæfileikanum til að hlusta. Við sjáum þetta mjög oft og skynjum í okkar samtíð, menn hlusta ekki, menn tala. Og eitt af því sem börn hafa mesta þörf fyrir er að einhver hlusti en gjarnan er það nú svo að hinir fullorðnu snúa því snarlega við og vekja athygli á því að það eru þeir sem eiga að tala og börnin sem eiga að hlusta. Hún amma mín ræddi reyndar um að það ætti að tala um fyrir börnum sem byggist á því að barnið og sá fullorðni tala til skiptis en það er kannski frekar undantekning heldur en hitt. Við launum íslenska kennara frekar illa. Það er ekki stór biðlisti sem stendur eftir þegar búið er að ráða í kennarastöðurnar. Það eru ekkert 100 eða 200 manns sem hafa sótt (Forseti hringir.) um þessar stöður enda er það staðreynd, því miður, að íslenski skólinn veldur ekki því hlutverki að ala upp börnin á þann hátt að ástand fari batnandi í uppeldismálum þjóðarinnar.