Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 11:20:49 (6842)

1997-05-17 11:20:49# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta er vissulega stórmál sem við erum að ræða á síðasta degi þingsins í vor. Þetta er stærra mál en svo að það verði tæmt í einni utandagskrárumræðu þó hún sé af lengri gerðinni. Eins og komið hefur fram hefur þingið verið með til umræðu ályktun um fjölskyldustefnu og það er af hinu góða, orð eru til alls fyrst, en því miður hefur framkvæmdum ekki verið fylgt eftir í samræmi við það því hér hafa komið fram ýmis mál þar sem bent hefur verið á og tekið hefur verið á vanda fjölskyldunnar og ekki verið vilji til þess að koma þeim í framkvæmd.

En ástandið er alvarlegt í málefnum barna og unglinga og þeirra sem eiga við veikindi og erfiðleika að stríða. Hæstv. heilbrrh. sagði áðan: Þeir sem veikastir eru fá aðstoð. Því miður er það vandi okkar að aðeins þeir allra veikustu komast að en hinir verða að bíða og það er alvarlegur vandi. Eins og ástandið er nú á barna- og unglingageðdeildinni þá er tekið á bráðavandanum. Það er tekið á þeim tilfellum sem koma inn þar sem börn og unglingar eru í bráðri sjálfsvígshættu eða þurfa að fá aðstoð strax, hinir þurfa að bíða. Nú bíða á annað hundrað börn og unglingar eftir bæði greiningu og meðferð. Það er mjög mikilvægt að grípa snemma inn í því þessir biðlistar eru hættulegir biðlistar og alvarlegir biðlistar því að ef við tökum ekki á vandanum snemma þá verður þetta mun stærri vandi síðar. Við sjáum hverjar afleiðingarnar eru af því að við höfum ekki tekið nógu snemma á vandanum. Hvernig er ástandið hér í miðbænum t.d. að næturlagi? Ég verð að segja eins og er að þegar ég fór úr þingsalnum klukkan fimm í morgun var mér ekki rótt að ganga í gegnum bæinn og heim til mín. Þannig var ástandið á götum borgarinnar í nótt og við heyrum það í fréttum um hverja helgi hvernig það er. Þetta kemur niður sem mun dýrara fyrir samfélagið að grípa ekki á vandanum snemma, það er vissulega rétt. Sparnaður á þjónustu við sjúk, geðsjúk börn og börn sem eiga í hegðunarvanda eða vímuefnavanda er dýr sparnaður. Nú horfum við upp á það, sem vitað var að mundi blasa við, og það er atgervisflótti fagfólks í stéttinni vegna þess hvernig búið er að fólki sem sinnir þessum málum. Við erum að missa fagfólkið okkar frá okkur vegna sparnaðarins og vegna þess óhemju álags sem fólk býr við.

Ég nefni barna- og unglingageðdeildina. Henni ber að sinna öllum börnum á landinu með geðræn vandamál undir 18 ára aldri, en deildin fær aðeins 10% af fjárveitingu geðdeildanna. Þetta er alvarlegt mál sem þarf vissulega að ráða bót á.

Ég vil nefna annað atriði sem er sálfræðiþjónustan. Það hefur komið upp æ ofan í æ í umræðunni um heilbrigðisþjónustuna að sálfræðiþjónusta er ekki sem skyldi hér. Sá vandi sem við eigum við að glíma nú þegar grunnskólinn hefur verið fluttur til sveitarfélaganna er að eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis í þeim málum því sálfræðiþjónustan er ekki eins og var, börn fá greiningu en ekki er um meðferð að ræða og aðeins gert er ráð fyrir aðstoð við kennara.

Ég vil nefna annað sem er stórt vandamál og það er vegna vímuefnaneytendanna. Þó að við séum með úrræði fyrir börn í vímuefnavanda þá er eftirmeðferðin alls ekki sem skyldi. Það er ekki nóg þó meðferð barna og unglinga í vímuefnavanda gangi vel því oft vill eftirmeðferðin gera alla þá vinnu að engu því börnin koma út í samfélagið og þessari meðferð er ekki fylgt eftir. (Forseti hringir.) Eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá er þetta mun stærra mál en hægt er að koma inn á í stuttri fimm mínútna ræðu. Þetta er mál sem þarfnast mun meiri umræðu. En ég kalla eftir því að ráðin verði bót á þeim stóra vanda sem við eigum við að etja í þjónustu við þá sem við erum að ræða hér, börn og unglinga hér á landi.