Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 11:44:25 (6846)

1997-05-17 11:44:25# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:44]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það fer vel á því að nú þegar við erum að ljúka þingstörfum skulum við ræða málefni barna og unglinga á síðasta morgni okkar þinghalds. Það fer vel á því vegna þess að æskufólkið er það dýrmætasta sem þjóðin á. En það sem blasir við eftir þessa umræðu og það sem við vissum er að við búum ekki að börnum og unglingum eins og vera ber og að við eigum takmörkuð úrræði þegar vandi steðjar að. Það er dapurt, virðulegi forseti, að umræða um málefni barna og unglinga skuli alltaf vera vegna umræðunnar um vanrækslu okkar og vegna þess að við erum ekki að gera það sem við ættum að gera. Við höfum fengið athugasemdir frá barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna vegna þessa og það er auðvitað umhugsunarefni bæði fyrir þingmenn og ráðamenn þjóðarinnar.

Ég þakka svör ráðherranna sem hafa verið veitt í þessari umræðu en ég verð að viðurkenna að mér finnst þau ekki mikið að byggja á. Það eina sem hægt er að binda einhverjar vonir við er samstarfshópur ráðuneytanna sem skýrt hefur verið frá. Og ég vona að störf þess hóps leiði til þess að tekið verði samræmt á þeim verkefnum sem bíða í hverju ráðuneyti fyrir sig.

Það kom fram í máli félmrh. að núgildandi meðferðarkerfi ræður illa við aukna ofbeldishneigð unglinga. Við vitum líka að það þarf að taka á í meðferðarúrræðum vegna þeirra sem hafa leiðst út í fíkniefnaneyslu. Það kemur líka fram hjá ráðherranum að það er óhjákvæmilegt að setja á laggir sérhæfð vistunarúrræði fyrir 16--18 ára. Þessu munum við að sjálfsögðu öll fylgjast með.

Það var athyglisvert að heyra frá bæði félmrh. og heilbrrh. varðandi einhverf börn. Það eru mjög lítil svör við því. Sú þjónusta sem barna- og unglingageðdeildin veitti foreldrum barna sem hafa greinst með einhverfu var afar mikilvæg áður en farið var að takast á við meðferðarúrræðin og það var mjög sorglegt þegar barna- og unglingageðdeildin þurfti að vísa þessum börnum frá. Félmrh. upplýsti að það væri búið að setja á laggirnar eitt heimili fyrir einhverf börn. Þetta var kannski ekki spurning um sambýlin heldur þá frumþjónustu sem þarf að veita börnunum þegar og eftir að einhverfan greinist. Einnig staðfesti heilbrrh. að því miður varð ekkert úr þeirri leiðbeiningastöð sem áformuð var með fjárframlagi á haustdögum 1995. Ég vænti þess að samstarfið sem nú fer í gang á milli Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og heilbrrn. verði þess eðlis að það verði það forvarnastarf og leiðbeiningastarf til foreldra þeirra barna sem lenda í vímuefnavanda sem hugsað var þegar fjárframlagið var veitt til barna- og unglingageðdeildar og minna á að við látum okkur það að kenningu verða þegar á að taka á í þessum efnum að láta hlutina heita það sem þeir heita. Það var þörf á fjárframlagi til barna- og unglingageðdeildar. Það er þörf á meira framlagi þangað vegna þess að deildin getur alls ekki annað hlutverki sínu eins og hér hefur komið fram en það er líka þörf á að taka verulega á varðandi börn og unglinga í vanda. Þess vegna hvet ég heilbrrh. til þess að leggja mikla rækt við þessa leiðbeiningastöð sem nú að setja á laggir í Heilsuverndarstöðvarhúsinu þar sem ljóst er að áformin um barna- og unglingageðdeildina gátu ekki gengið eftir.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún var gagnleg. Fyrst og fremst er hún gagnleg ef aðvaranir okkar hafa náð eyrum ráðherranna þannig að úrbætur verði gerðar í þessum mikilvæga málaflokki.