Málefni barna og ungmenna

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 11:49:05 (6847)

1997-05-17 11:49:05# 121. lþ. 130.95 fundur 341#B málefni barna og ungmenna# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[11:49]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þó að ég skildi ekki alveg þá ræðu sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti og á hvern hátt hún tengdist nákvæmlega þeim atriðum sem um er verið að fjalla og fyrirspurnir okkar voru um vil ég samt sem áður taka upp orð hennar þar sem hv. þm. segir: Það er möguleiki á sparnaði í heilbrigðiskerfinu ef forvarnastarfsemi varðandi áfengis-, tóbaks- og aðra vímuefnagjafa er öflug. Það er nefnilega nákvæmlega þetta sem málið í heild snýst um, þ.e. að ef staðið er vel að forvarnamálum, ef staðið er vel að málefnum barna, þá má spara til lengri tíma litið vegna þess að þá er tekið á vandanum í byrjun. Það er það sem málið snýst um.

Það bíða á annað hundrað börn á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildarinnar. Þetta eru bráðveik börn sem þurfa á aðstoð að halda. Ef þau fá ekki þessa hjálp mun það leiða til mun alvarlegri vandamála. Það er vissulega rétt að hér hefur verið samþykkt þál. um opinbera fjölskyldustefnu og þar er áætlun um að setja á sérstakt fjölskylduráð sem veita á stjórnvöldum ráð í málefnum fjölskyldna og hvað það er þar sem helst þarf að taka á. En það þarf ekki að setja á neitt ráð eða nefndir til þess að fara yfir þann vanda sem við blasir, og við þekkjum öll. Það er hægt að taka á honum áður en slíkt ráð tæki til starfa.

Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra heilbrigðismála að umönnunarlaun til foreldra barna skipta verulegu máli og það frv. sem verður vonandi afgreitt á eftir. Það skiptir verulegu máli þegar rætt er um aðbúnað barna og unglinga en það er ekki mjög langt síðan ég átti í stríði við Tryggingastofnun vegna foreldra barns sem hafði orðið fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi, hafði dvalið á barna- og unglingageðdeildinni en fékk ekki neina þjónustu þegar dvöl þar lauk vegna þess að þjónustan var ekki til staðar utan geðdeildarinnar. Barnið hafði reynt að fyrirfara sér. Þetta er í sjö manna fjölskyldu þar sem foreldri þurfti að hætta vinnu og sinna barninu algjörlega heima og það kom í ljós að umönnunarlaun voru ekki greidd þess vegna. Vegna þess að þetta voru ekki sýnileg, áþreifanleg veikindi. Þetta voru ekki áþreifanleg veikindi heldur átti barnið við geðræn vandamál að stríða. Sú reglugerð sem í gildi var tók ósköp einfaldlega ekki á því. Það er í mjög mörgum tilvikum sem foreldrar barna sem eiga við geðræn eða sálræn vandamál að stríða fá engin umönnunarlaun vegna þess að oft á tíðum er erfitt að skilgreina eða þekking er ekki til staðar.

Það er vissulega gott að efla starfsemi heilsugæslunnar og ég er alveg sammála ráðherranum um það og gott ef hægt er með námskeiðahaldi að gera starfsmönnum heilsugæslu kleift að sinna greiningarstarfsemi þar sem um geðræn vandamál barna er að ræða. En hvað tekur síðan við? Það er ekki starfsfólk til að sinna þessari meðferð. Það er ekki pláss á barna- og unglingageðdeildinni þannig að það er ekki nóg að greina vandann, það verður að takast á við hann áður en hann verður mjög alvarlegur. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag og það er það sem við erum að ræða akkúrat hérna. Við erum að ræða það líka að þó að ríkiskerfið greiði laun sálfræðinga og félagsráðgjafa sem starfa á stofnunum þá tekur ríkið ekki þátt í greiðslu fyrir þessa þjónustu við börn og unglinga þegar það er í einkageiranum. Og þegar börn eru ekki inni á stofnunum eða sinnt frá stofnunum þá er þessi þjónusta mjög dýr og því miður er ekki vilji til staðar til þess að taka þátt í þessum greiðslum.

Hæstv. félmrh. kom inn á sérstök meðferðarúrræði og að mati forstöðumanns Barnaverndarstofu væri það út af fyrir sig tiltölulega gott að biðtíminn sem liði frá því að sótt er um meðferð fyrir unglinga á Stuðlum væri nú einhver því það vekti kannski foreldrana til umhugsunar og hvetti þá til að taka á vandamálunum. Í flestum tilvikum er þessu nú þannig háttað að þegar kemur til að barn er sett í meðferð þá er vandamálið orðið það alvarlegt að þarf að grípa inn í það strax. Þess vegna finnst mér þessi ummæli forstöðumanns Barnaverndarstofu vera alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög margt sem ég hefði viljað koma inn á á þessum fimm mínútum en að lokum vil ég aðeins benda á að það er gífurleg þjónustukreppa í geðheilbrigðismálum okkar hvað varðar börn og unglinga. Við sinnum 0,1--0,2% barna þegar aðrar þjóðir segja að lágmarkið, algert lágmark, sé að þessi þjónusta sé til staðar fyrir a.m.k. 2% barna. Við erum því langt á eftir öðrum og þurfum að taka verulega á nú þegar.