Suðurlandsskógar

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:24:37 (6866)

1997-05-17 13:24:37# 121. lþ. 130.12 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[13:24]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég bað ekki um orðið um leið og málið var tekið á dagskrá var að mér væri tjáð að formaður landbn. ætlaði að segja eitthvað um málið. En hv. formaður hefur ekki haft fyrir því og hefur ætlað að láta það vera.

Ég vildi við umræðuna koma því á framfæri sem fram kom við 2. umr. málsins að við alþýðubandalagsmenn styðjum að lögfest verði ákvæði og frv. um Suðurlandsskóga. Við teljum það vera jákvætt mál almennt séð. En jafnframt hefur komið fram að fulltrúi Alþb. í landbn. hefur fyrirvara við nefndarálitið og hann varðar það að ekki er tekið inn í nál. eða í frv. sjálft ákvæði þess efnis að eðlilega sé staðið að undirbúningi þeirrar áætlunar sem hér um ræðir. Verið er að efna til viðamikillar skógaáætlunar sem felur í sér, að vísu á löngu tímabili, 40 árum, verði teknir til ræktunar 15 þús. hektarar lands til timburskógræktar. 10 þúsund km af skjólbeltum verði sett niður og 20 þús. hektarar lands verði tekin til svokallaðra landbótaskógræktar. Það ætti að vera sjálfgefið þegar svo viðamikil áætlun er sett á laggirnar og ríkið stendur að meginhluta kostnaðar við málið að ástundaður sé opinn undirbúningur og skipulagður samkvæmt þeim lögum sem varða málið samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum en heimild er til að einmitt svona aðgerðir falli undir slíka löggjöf. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur forustan í landbn. og væntanlega studd af hæstv. landbrh., það hefur raunar komið fram, ekki fallist á þetta og það þrátt fyrir að fram komi í nál. að forstöðumenn allra þeirra stofnana sem eiga að gæta almannahagsmuna um slík mál leggjast eindregið á þá sveif að farið sé að lögum um mat á umhverfisáhrifum við undirbúning málsins. Þetta gildir um Skipulag ríkisins, forstöðumann þess, Náttúruvernd ríkisins og um Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar við bætist, virðulegur forseti, að Samband sveitarfélaga á Suðurlandi, samband sveitarfélaga á svæðinu, hefur ályktað um það efni að farið verði að lögum um mat á umhverfisáhrifum við undirbúning málsins. Í nál. stendur, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þessara athugasemda [þ.e. frá fulltrúum þeirra stofnana sem ég vitnaði til] telur nefndin að í þeim tilfellum þar sem farið verður í stór ræktunarverkefni á vegum Suðurlandsskóga verði skoðað sérstaklega hvort beita beri 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.``

Verði skoðað hvort. Þetta er orðalag nál. Í nál. er vitnað til skipulagsstjóra ríkisins sem leggur til samkvæmt nál. að áður en verkefnið hefjist verði ,,... gerð sérstök skipulagsáætlun sem nái til skógræktar fyrir það svæði sem verkefnið nær til. Haga þurfi skógræktaráætluninni þannig að samráð við hagsmunaaðila verði tryggt og almenningi gefist kostur á því að gera athugasemdir við áætlunina.``

Síðar þegar kemur að áliti sjálfrar nefndarinnar er tekið upp að það verði í samræmi við lög, það er sérstök ástæða fyrir hv. landbn. að taka fram að verkið sé unnið í samræmi við lög og það er svo sem ágætt, það sakar ekki og í sátt við hagsmunaaðila. En hvergi er vikið að almenningi í málinu. Það er um það sem málið snýst því að svona verkefni kostað af opinberu fé snertir almenning í landinu hvernig á er haldið og að fólkið geti almennt sett fram sjónarmið sín í farvegi laga um mat á umhverfisáhrifum. Þetta eru orðin viðtekin vinnubrögð og þykja sjálfsögð hvarvetna í nágrannalöndum okkar og í Evrópu utan Íslands að þannig sé haldið á málum varðandi verkefni af þessum toga. Hér er mjög einkennilegt að menn skuli kjósa að vilja vinna að svona verkefni lokað og hleypa ekki almenningi að í sambandi við meðferð og undirbúning málsins. Ég óttast, virðulegur forseti, að ef svona er haldið á málum varðandi góð efni eins og að hlynna að skógum í landinu og rækta skóga þar sem það á við þá muni það fyrr en seinna bitna á vilja fjárveitingavaldsins til að styðja við slík verkefni. Það væri mjög miður. Ég lýsi miklum vonbrigðum með það að menn skuli ekki vilja koma til móts við sanngjörn sjónarmið í þessu efni og vinna að þessu út af fyrir sig þarfa málefni fram hjá þeim lögum sem eðlilegt er að þetta fari eftir.

Ég ætla ekki að segja meira um málið, virðulegur forseti, nema eitthvert sérstakt tilefni verði til en ítreka vonbrigði með að svona skuli haldið á þessu stóra máli.