Skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 13:51:42 (6873)

1997-05-17 13:51:42# 121. lþ. 131.95 fundur 342#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um félagslega íbúðakerfið# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[13:51]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa orðið atburðir sem hljóta að vekja mikla umhugsun og viðbrögð, ekki aðeins á Alþingi heldur utan þings. Samanburður á svörum hæstv. félmrh. annars vegar og Ríkisendurskoðunar hins vegar leiða í ljós ósamræmi í grundvallaratriðum og virðist augljóst að hæstv. ráðherra hafi a.m.k. hagrætt sannleikanum að ekki sé sterkara að orði kveðið. Það er nánast óhugsandi að þessir tveir aðilar hafi fengið svo mismunandi upplýsingar að byggja á að það sé skýringin á ósamræminu í svörum þeirra. Ég ætla ekki að rökstyðja þá niðurstöðu mína, hv. þm. hafa gögnin og geta borið þau saman og dregið síðan eigin ályktanir. Það hlýtur hver að gera fyrir sig en það kæmi mér verulega á óvart ef einhverjir telja sig geta lesið eitthvað annað út úr þeim gögnum en að sannleikanum hafi verið hagrætt. Maður spyr sig hvað hæstv. ráðherra hafi gengið til.

Herra forseti. Það er illur kostur að fá þær fréttir og upplýsingar sem liggja fyrir við þessar aðstæður með þinglok á næstu grösum. Ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm en þetta mál þarfnast athugunar. Ég vil ljúka máli mínu með því að vitna í niðurlag greinargerðar með frv. um ráðherraábyrgð sem hv. þm. Páll Pétursson flutti á 116. löggjafarþingi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er mjög mikilvægt að Alþingi geti treyst því að upplýsingar, er ráðherrar gefa því, séu fullnægjandi og sannleikanum samkvæmar og að ráðherra leyni ekki upplýsingum er hafa verulega þýðingu við meðferð máls.``