Félagsleg aðstoð

Laugardaginn 17. maí 1997, kl. 14:18:08 (6884)

1997-05-17 14:18:08# 121. lþ. 131.3 fundur 620. mál: #A félagsleg aðstoð# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[14:18]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir að taka upp það mál sem hér er um rætt. Það er rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að málið kom mjög seint fram. Það hefur verið nefnd í gangi í Tryggingastofnun við að endurskoða umönnunarbætur. Með Tryggingastofnun hafa komið að þessari endurskoðun fulltrúar Þroskahjálpar og fulltrúar Umhyggju. Þessi nefnd hefur verið að störfum í rúmlega eitt ár og lauk störfum um það leyti sem þingi átti að ljúka. Ég kynnti öllum fulltrúum í heilbr.- og trn. þetta mál eins og það lá fyrir og sagðist ekki mundi ganga lengra með það nema full samstaða væri um það, ég teldi mjög mikilvægt að full samstaða væri um það, því ég er í grundvallaratriðum sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, þegar hann segir að einstaka þingnefndir eigi almennt ekki að leggja fram mál. En þetta er réttarbót fyrir þúsund börn. Það hefur lengi verið beðið eftir þessu. Þetta mál hefur lengi verið í undirbúningi.

Hann spyr um tölur í þessu sambandi. Það er algengast að bætur hækki úr 4.900 kr. í 13.800 kr. fyrir þau börn sem eru mest fötluð og mest sjúk, langvarandi sjúk. En það er eðlileg spurning hjá hv. þm. hjá hverjum skerðist í staðinn ef ekki koma til nýir fjármunir. Það er talið af þeim sem best þekkja, og þá eru það þeir sem ég hef áður rætt um og voru í þessari nefnd, að nauðsynlegt sé að fram fari þroskapróf varðandi minni háttar atferlistruflanir sem eiga sér stað hjá börnum, áður en þau fara á bætur. Og á einhverjum lengri tíma muni þeim fækka sem fá þessar bætur. En í staðinn þá fá þau svokallað lyfja- og lækniskort sem mun ekki síður koma þeim að góðu. Þetta eru þau svör sem ég get gefið hv. þm. Ég vona að þetta ágæta mál sem hér liggur fyrir verði afgreitt innan tíðar. Ég endurtek þakkir mínar til hv. heilbr.- og trn.