Tilkynning um stofnun þingflokks jafnaðarmanna

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 13:34:06 (9)

1996-10-02 13:34:06# 121. lþ. 1.92 fundur 24#B tilkynning um stofnun þingflokks jafnaðarmanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur

[13:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að tilkynna Alþingi formlega um stofnun nýs þingflokks.

Þann 23. september ritaði ég bréf til forseta Alþingis og kynnti honum stofnun nýs þingflokks Alþfl. og Þjóðvaka, þingflokks jafnaðarmanna, að formaður þingflokks hafi verið kjörin Rannveig Guðmundsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir varaformaður. Á fyrsta fundi hins nýja þingflokks var samþykkt ályktun þar sem kastljósi var beint að þeim málaflokkum sem jafnaðarmenn sameinast um. Þar ber hæst baráttu fyrir réttmætum kröfum almennings í landinu um jöfnun lífskjara, bættan aðbúnað barnafjölskyldna, réttláta skiptingu arðs af auðlindum þjóðarinnar, jöfnun kosningarréttar, afnám einokunar og annarra forréttinda hinna fáu á kostnað almennings, aukna fjárfestingu til framtíðar í menntun og rannsóknir, gæslu þjóðarhagsmuna með virkri þátttöku í samstarfi lýðræðisþjóða Evrópu og Ameríku.

Þingflokkur jafnaðarmanna hefur lagt fram sína málaskrá með yfirliti yfir þau þingmál sem flutt verða á Alþingi á næstu vikum og þar birtast áherslur hans. Í bréfinu til forseta Alþingis lagði þingflokkurinn áherslu á gott samstarf við forseta Alþingis, forsætisnefnd og aðra þingflokka. Þann góða samstarfsvilja árétta ég hér.