Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Miðvikudaginn 02. október 1996, kl. 22:20:30 (24)

1996-10-02 22:20:30# 121. lþ. 2.1 fundur 1#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:20]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Stefnuræða forsrh. var innihaldslítil. Ræðan var ekkert annað en þokkalegur heimastíll embættismanna um stöðu þjóðarbúsins. Þessi stjórn breytir engu sem skiptir máli enda er lítill munur á framsóknarhyggjunni í báðum flokkum.

Herra forseti. Hvar eru úrbætur í landbúnaði til hagsbóta fyrir neytendur? Hvar er veiðileyfagjald sem tekur á mesta óréttlæti nútímans? Hvar eru umbætur í atkvæðarétti? Hvar er sóknin í utanríkismálum? Hvar eru loforðin um eflingu menntunar? Hvar er virðingin gagnvart þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda? Hvergi, herra forseti, eru úrbætur í þessum málaflokkum. En það kemur ekki á óvart. Þessir flokkar gæta þess að ekki sé raskað ró valdastéttanna. Ríkisstjórnin montar sig af góðri stöðu í efnahagslífinu. Hagvöxtur núna er m.a. vegna skuldasöfnunar heimilanna. Staða ríkissjóðs er ekki betri í ár vegna góðs reksturs heldur vegna aukinna umsvifa. Samt sem áður er margt í lagi, afli góður, stóriðjuframkvæmdir verulegar og erlendar skuldir lækka. Það er gott og ég fagna því.

En stjórnmál snúast um stefnu framtíðarinnar sem endurspeglast m.a. í fjárlögum. Við jafnaðarmenn viljum ekki stefnu stjórnvalda þar sem enn er ráðist handahófskennt á velferðar- og menntamál. Þar birtist forgangsröð stjórnarflokkanna. Þeir eyða yfir sex milljörðum í ónýtt landbúnaðarkerfi, neita að fallast á veiðileyfagjald í sjávarútvegi og skapa óöryggi m.a. hjá öryrkjum og starfsfólki í heilbrigðisþjónustu. Jafnaðarmenn hafna þessari stefnu. Hún er andstæð lífssýn okkar um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Við lítum á fólk sem viðræðuaðila með sjálfsvirðingu.

Ég fordæmi ummæli forsrh. áðan þegar hann krafðist þess að verkalýðsforingjar gengju fram af sanngirni og ábyrgð við næstu kjarasamninga. Hvar var sanngirni og ábyrgð hæstv. forsrh. þegar hann og ríkisstjórn hans knúðu fram einhliða breytingar á vinnulöggjöf á þinginu í vor þrátt fyrir hatramma andstöðu verkalýðshreyfingarinnar? Sú sanngirni og ábyrgð var ekki til. En að koma hér hálfu ári seinna og heimta sanngirni og ábyrgð af þeim sem sparkað var í í vor lýsir aðeins fyrirlitningu á skoðunum annarra. Þessi ríkisstjórn er ekki fyrir launafólk. Hún gætir hagsmuna vinnuveitenda en ekki allra vinnuveitenda. Hún passar vel upp á stórfyrirtækin sem starfa í fákeppni og eru að hluta til í vernduðu umhverfi, stórfyrirtækin sem stjórna VSÍ og eiga það sameiginlegt að vilja sem minnsta samkeppni þegar á reynir.

Hver man ekki eftir því þegar Irving Oil vildi koma hér inn á markaðinn? Þá gátu olíufélögin fyrst farið að hreyfa sig í verði og þjónustu en allt gleymdist þegar Irving hvarf aftur af vettvangi. Sama er að gerast í bílatryggingunum núna. Þar eru fákeppnisaðilar til varnar sem hafa ekki hreyft sig í mörg ár. Við sjáum þá alls staðar. Í skipaflutningum, í flugrekstri, olíusölu, að hluta til í verslun, í tryggingum, alls staðar í stórrekstrinum. Þar vilja þessir herrar sem minnst ónæði af utanaðkomandi samkeppni. Flestir eiga þeir sem stjórna stórfyrirtækjum það sameiginlegt að vera frammámenn í Sjálfstfl. og Framsfl. Minni fyrirtækin mega keppa sín í milli, en þau fá ekki að hafa áhrif t.d. innan Vinnuveitendasambandsins. Nei, þar ráða stóru fákeppnisaðilarnir.

Herra forseti. Þetta er efnahagslegt vandamál. Framleiðni íslenskra fyrirtækja er með því lægsta sem um getur í Evrópu. Skattar fyrirtækja eru einnig með þeim lægstu. Hér eru lægstu launin greidd og allægstu taxtalaunin. Það er eitthvað að. En svo mætir ríkisstjórnin með forsrh. og segir að enn um sinn verði að takmarka kjarabætur því að annars sé stöðugleikinn í hættu. Hvernig væri að íslensk stórfyrirtæki færu að standa sig eins og gert er í útlöndum?

Við höfum slegið skjaldborg um Ísland í formi lágra launa. Lífskjörum er haldið uppi með löngum vinnudegi. Íslenskur launamaður vinnur nokkrar vikur lengur á hverju ári en kollegi hans í útlöndum til að ná sömu launum. Við bætum ekki samkeppnisstöðu Íslands nema stíga út úr þessu verndaða umhverfi sjálfstæðis- og framsóknarmanna.

Veiðileyfagjald, fyrsta þingmál jafnaðarmanna, gæti leitt til þess að hægt væri að fella niður allan tekjuskatt einstaklinga. Ég hvet hlustendur til að fylgjast með því hverjir leggjast gegn því. Jafnaðarmenn vilja m.a. nýta markaðinn sem tæki til að ná fram bættum lífskjörum. Við viljum markaðshagkerfi í atvinnulífinu en samhjálp og sjálfsvirðingu í velferðar- og heilbrigðismálum og jafnrétti í menntun. Stjórnarliðar vilja innleiða markaðskerfið á spítölunum og í skólanum þar sem fjármagnið ræður þá vitaskuld afgreiðslu og þjónustu eins og eðli þess er í fyrirtækjaumhverfinu. Jafnaðarmenn vilja ekki að heilbrigði og menntun sé keypt með auðlegð. Við viljum ekki frelsi frumskógarins á þessa þætti þjóðlífsins og við munum berjast gegn þeim fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. Það lýsir stjórnarflokkunum vel að vilja verndað umhverfi fyrir fyrirtæki sín, stórfyrirtækin, en hleypa forréttindum fyrir þá efnaðri inn í þætti sem hingað til hafa verið jafnir aðgöngu fyrir alla þegna samfélagsins. Þessi sérhyggja Sjálfstfl. og Framsóknar má ekki ná fram að ganga. Þetta hefur ekkert með betri rekstur og hagkvæmni að gera. Við jafnaðarmenn kunnum vel að reka bæði fyrirtæki og opinberar stofnanir en við viljum umgangast samborgara okkar af þeirri samkennd sem hugsjónin um bræðralag lýsir.

Jafnaðarstefnan er ekki einungis lífssýn. Hún er hegðun og viðhorf gagnvart öðru fólki í daglegu lífi. Hugtökin jafnrétti, frelsi og bræðralag eru ekki einungis í fullu gildi heldur svara þau verkefnum framtíðarinnar. Frelsi til athafna, til lýðræðislegra stjórnarhátta og raunverulegt kvenfrelsi er jafnmikilvægt og jafnrétti í heimi vaxandi markaðshyggju. Bræðralagið er gagnvart umheiminum í enn ríkara mæli en áður, í heimi þar sem fólki er misþyrmt og pínt, rúið rétti og virðingu. Við jafnaðarmenn lítum ekki þannig á að við höfum einungis skyldur gagnvart landsmönnum okkar heldur ekki síst gagnvart umhverfinu og nágrönnum um heim allan.

Herra forseti. Það eru engin landamæri í hugsjónum jafnaðarstefnunnar, engin. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.