Afstaða íslenskra stjórnvalda til Helms-Burton laga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:14:17 (39)

1996-10-07 15:14:17# 121. lþ. 3.1 fundur 29#B afstaða íslenskra stjórnvalda til Helms-Burton laga# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. utanrrh. Ég vil spyrja um afstöðu íslenskra stjórnvalda til svonefndra Helms-Burton laga sem sett voru á Bandaríkjaþingi sl. vetur og um ákvarðanir Clintons Bandaríkjaforseta um beitingu þeirra lagaákvæða.

Lögin eru eins og kunnugt er um margs konar hertar viðskiptaþvinganir gegn Kúbu. Í þessum dæmalausu lögum er m.a. mælt fyrir um þá stefnu bandarískra stjórnvalda að halda beri Kúbu utan samtaka Ameríkuríkja, að halda beri Kúbu utan alþjóðlegra fjármálastofnana og síðast en ekki síst er þar heimilað að lögsækja aðila fyrir bandarískum dómstólum vegna viðskipta við Kúbu þó frá öðrum löndum séu en Bandaríkjunum.

Í júlí sl., nánar tiltekið 16. júlí, ákvað Clinton Bandaríkjaforseti að opna fyrir slíka lögsókn á hendur fyrirtækjum sem eiga viðskipti við Kúbu sem teljast utan ramma þess sem bandarísk stjórnarstefna mælir fyrir um. Þessi dæmalausa lagasetning mæltist af eðlilegum og skiljanlegum ástæðum illa fyrir og bæði nágrannaríki Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada sem og flest Evrópuríki tóku þessu að sjálfsögðu illa. Lítið hefur heyrst um afstöðu íslenskra stjórnvalda og ég vil því spyrja hæstv. utanrrh. hver hún sé. Hafa íslensk stjórnvöld mótmælt þessari lagasetningu? Hafa þau beitt sér á alþjóðavettvangi gegn henni? Hver er stefna hæstv. ríkisstjórnar í málinu almennt?