Vaktþjónusta lækna og sjúkraflutningar í Hafnarfirði og nágrenni

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:21:05 (45)

1996-10-07 15:21:05# 121. lþ. 3.1 fundur 31#B vaktþjónusta lækna og sjúkraflutningar í Hafnarfirði og nágrenni# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil vekja máls á tveimur atriðum er lúta að heilbrigðisþjónustu fyrir Hafnarfjörð og nágrenni, þ.e. Bessastaðahrepp og Garðabæ. Nú eru sakir þær, virðulegi forseti, að ekki er um það að ræða lengur að neinn læknir sinni næturvakt, þ.e. frá 12 á miðnætti til 8 að morgni dags í Hafnarfirði fyrir þetta upptökusvæði sem ég nefndi áðan. Ástæðum kann ég ekki gjörla að skýra frá og spyr um, en það er vitaskuld algerlega óviðunandi með öllu að 25 þúsund manna byggðarlag eigi ekki aðgang að lækni að næturþeli því ekki sækir þetta fólk þjónustuna til næturvaktarinnar í Reykjavík. Hún sinnir því ekki. Þarna þarf að gera bragarbót á. Ég óska eftir skýrum svörum ráðherra fyrir ástæðum þessa og til hvaða ráða hann ætlar að grípa til þess að bregðast við þessu ástandi.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. ráðherra um ástæður þess að ráðuneytið hefur sagt upp samningi við Hafnarfjarðarbæ um þjónustu sjúkraflutninga sem hafa verið í prýðilegu lagi og til hagsbóta að ég hygg bæði fyrir ríkissjóð annars vegar og bæjarfélagið hins vegar. Nú hefur þessum samningi verið sagt upp með þeim skýringum að áform séu uppi um að bjóða út sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu öllu. Ég spyr um hugmyndir þar að lútandi, með öðrum orðum: Hverjir eiga að fá að bjóða í þessa þjónustu? Eru það allir? Hvað á upptökusvæðið að vera stórt? Hver eru meginmarkmiðin og hvernig á að tryggja að þessi þjónusta verði eigi lakari en verið hefur til þessa?