Arnarholt

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:25:14 (48)

1996-10-07 15:25:14# 121. lþ. 3.1 fundur 32#B Arnarholt# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:25]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. varðandi lokun á vistunarrými fyrir geðsjúka í Arnarholti sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Á undanförnum árum hafa mörg samtök í þjóðfélaginu þar á meðal Geðhjálp, samtök launafólks og stjórnmálamenn á Alþingi mótmælt niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni sem bitnað hefur illa á geðsjúkum. Í því sambandi hefur verið vakin athygli á tvennu: Í fyrsta lagi hefur því verið mótmælt þegar geðsjúkum hefur verið úthýst af sjúkrastofnunum vegna tímabundinna samdráttaraðgerða og sumarlokana. Og í öðru lagi hefur verið bent á hve alvarlegt það er að skapa fólki óöryggi með því stöðugt að vera að hringla með opnun og þó einkum lokun á sjúkradeildum. Í þessu tilviki er verið að tala um heimili fólks og allir sem að þessum málum koma hafa sérstaklega bent á hve viðkvæmt það fólk sem á við geðræn vandamál að stríða er fyrir öllu raski, en það á einmitt við um þá sem dvelja í Arnarholti. Ég tel nauðsynlegt að ráðherrann skýri hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir íbúa í Arnarholti. Í umræðunni um fjárlögin verður að sjálfsögðu farið nánar út í að spyrja ráðherrann um framtíð þessa málaflokks almennt. Ég tel nauðsynlegt að ráðherrann skýri hver afstaða ríkisstjórnarinnar er gagnvart vistmönnum. Það er nauðsynlegt einnig gagnvart starfsfólki og þjóðfélaginu öllu. Það á heimtingu á svörum.