Arnarholt

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:27:01 (49)

1996-10-07 15:27:01# 121. lþ. 3.1 fundur 32#B Arnarholt# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Sjúkrahús Reykjavíkur rekur Arnarholt. Með samkomulagi sem gert var og borgarstjóri, fjmrh. og heilbrrh. skrifuðu undir 28. ágúst, fékk Sjúkrahús Reykjavíkur 230 millj. kr. aukafjárveitingu til þess að reksturinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur yrði óbreyttur þetta ár. Nú kemur það hins vegar fram í fréttum í gær að verið er að boða lokun deilda og þar á meðal einnar deildar í Arnarholti. Ég bað hjúkrunarforstjórann að senda mér minnispunkta um þetta ákveðna málefni. Í þeim kemur fram að um 12 rúma deild er að ræða og að þessi deild sé í mjög lélegu húsnæði og að það sé ákveðið að flytja þá sjúklinga sem þar eru á aðrar deildir á Arnarholti og inn í Fossvog því þar séu laus pláss. Þetta á að gerast á nokkuð löngum tíma, ekki nokkrum dögum heldur á nokkuð löngum tíma og það á að undirbúa sjúklingana vel undir flutninginn.

Svo ég víki aftur að því samkomulagi sem ég ræddi um í upphafi um aukafjárveitingu sem Sjúkrahús Reykjvíkur fékk þá er alveg greinilegt að við höfum ekki verið að vinna með réttar tölur. Sjúkrahús Reykjavíkur hefur ekki lagt fram réttar reiknitölur þegar við unnum þetta samkomulag sem skrifað var undir og ég mun innan tíðar kalla á minn fund fulltrúa borgarinnar í þessum samningaviðræðum.