Hvalveiðar

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:35:19 (54)

1996-10-07 15:35:19# 121. lþ. 3.1 fundur 33#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:35]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég heyri að ég hef ályktað um of af málaskrá ríkisstjórnarinnar þegar ég taldi að lagt yrði til að hvalveiðar yrðu hafnar vegna þess tillöguflutnings sem þar er boðaður því að í máli ráðherrans kemur fram að einungis hefur verið tekin ákvörðun um að skipa nefnd til undirbúnings. En eigi að síður ítreka ég það sem kom fram í máli mínu að það verði eitt af því sem nefndin skoðar hvort málum okkar væri e.t.v. betur komið innan Alþjóðahvalveiðiráðsins ef við komumst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hefja hvalveiðar að nýju lítandi til reynslu Norðmanna og í leiðinni reyndum við að skoða hvernig við getum hagað þeirri aðild okkar eða gengið inn í Alþjóðahvalveiðiráðið með einhverjum fyrirvörum vegna þess hvernig við stóðum að málum á sínum tíma, þ.e. mótmælum ekki banninu.