Framkvæmd samkomulags við heilsugæslulækna

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 15:43:15 (62)

1996-10-07 15:43:15# 121. lþ. 3.1 fundur 35#B framkvæmd samkomulags við heilsugæslulækna# (óundirbúin fsp.), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:43]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek fram að áhugi minn á þessu efni snýst ekki síst um það að vel verði staðið að uppbyggingu heilsugæslu á Reykjavíkursvæðinu eða höfuðborgarsvæðinu sem við vitum að stendur ekki eins vel að vígi og aðrir hlutar landsins. Hins vegar er mikið áhyggjuefni hversu miklar deilur hafa verið innan læknastéttarinnar um þessi efni og ljóst að þó að samkomulag hafi náðst við heilsugæslulæknana er ekki þar með sagt að málið væri leyst. Því fýsti mig að vita hvað væri að gerast í málinu nú þegar og eftir að verkfall heilsugæslulækna leystist. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ég skildi það þannig að málið væri í vinnslu en getur hæstv. ráðherra upplýst okkur eitthvað nánar um það hvenær von er á niðurstöðu.