Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 16:48:10 (71)

1996-10-07 16:48:10# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég mun beina sjónum að einum af þeim hópum sem ekki hafa fengið náð fyrir augum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það eru lífeyrisþegar. Þeir hafa átt mjög erfiða tíma undanfarna mánuði og því miður hrjáir fátækt marga þeirra. Þessi hópur hefur mátt þola hverja kjaraskerðinguna af annarri vegna aðgerða þessarar ríkisstjórnar frá því að hún tók við valdataumunum. Þar er ekki góðærinu fyrir að fara. Sérstaklega hafa þeir sem eru sjúkir, umönnunarþurfi eða með lyfja- og lækniskostnað verið aflögufærir að mati stjórnarherranna og greiðslur til þeirra hafa lækkað umtalsvert. Af þessu umönnunarþurfi og sjúka fólki með veruleg útgjöld vegna heilsuleysis þótti ástæða til þess að taka uppbótina ef það hafði tekur yfir 68 þús. kr. eftir skatt og síðan að skerða framfærsluna um þúsundir króna mánaðarlega auk þess sem margir þeirra missa ákveðin hlunnindi sem eru niðurfelling afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Þeir eru höfðingjar sem forgangsraða á stjórnarheimilinu eða hitt þó heldur.

Margir í þessum hópi hafa nú tekjur undir framfærslumörkum og eru í reynd háðir ölmusu frá sínum nánustu til að endar nái saman því að margir þeirra eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustu sveitarfélaganna samkvæmt þeim reglum sem þar gilda. Þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu hafa hækkað á árinu svo ekki hafa útgjöld sjúklinganna minnkað þó svo ástæða þætti til að lækka greiðslu til þeirra.

Það er vissulega mjög erfitt hjá mörgum lífeyrisþeganum þessa dagana og ég minni á að hluti lífeyrisþega býr enn við tvísköttun á eftirlaun sín eftir lagabreytingu ríkisstjórnarinnar sl. vetur og skerðing bóta gagnvart fjármagnstekjum hófst nú 1. september þó svo aðrir landsmenn fari ekki að greiða fjármagnstekjuskatt fyrr en um áramót. Jaðarskattarnir á þennan hóp eru einnig þeir hæstu í samfélaginu og eru þeir jafnvel meiri en hjá millitekjufjölskyldunum sem ekki virðast heldur hljóta náð fyrir augum íhalds og Framsóknar. Lífeyrisþegarnir og fólkið með meðaltekjurnar er fast í neti jaðarskattanna og getur ekki aukið tekjur sínar þó svo það auki vinnu sína til muna. Jaðarskattarnir éta allt upp jafnóðum. Almennt er tekjutengingin á lífeyrisgreiðslum orðin slík að hún er milli 80 og 100% á ákveðnu tekjubili þannig að hver viðbótarkróna nánast er tekin til baka í ríkiskassann. Og vegna þess að ég hef það á tilfinningunni að þingmenn og almenningur geri sér ekki grein fyrir því í hvaða blindgötu þetta fólk er ætla ég að nefna raunverulegt dæmi.

Hjón á miðjum aldri með ung börn lentu í því fyrir rúmum tveimur árum að það uppgötvaðist mjög alvarlegur sjúkdómur hjá fjölskylduföðurnum. Hann var dæmdur 75% öryrki og þegar hann fékk bæturnar á síðasta ári skertust þær vegna tekna eiginkonu hans árið áður vegna tekjutengingar örorkubótanna, sem er nokkurs konar jaðarskattur, en hluta þess árs, ársins á undan, höfðu þau bæði unnið fulla vinnu fyrir heimilinu. Síðasta ár var þeim mjög erfitt fjárhagslega þar sem örorkubæturnar slöguðu alls ekki upp í helming tekna eiginmannsins árið áður. Hann var orðinn alls óvinnufær og gat ekkert lagt til heimilisins nema skertar örorkubæturnar, 25 þúsund kr. á mánuði. Þetta gerði það að verkum að eiginkonan tók að sér mikla yfirvinnu auk þess að sinna sínum veika manni og heimilinu til að ná endum saman. Og hvaða afleiðingar hafði það á afkomu þeirra? Jú, nú í sumarlok kom tilkynning um að þar sem tekjur þeirra hjóna höfðu verið meiri en gert var ráð fyrir, þá skerðast örorkubætur eiginmannsins enn meir og verða undir 10 þús. kr. á mánuði næsta árið. Fjárhagsafkoma heimilisins er hrunin. Fáar eða engar leiðir eru fram undan til að ná endum saman. Eiginkonan treystir sér ekki til að auka við sig vinnuna enda mundi sólarhringurinn ekki duga til. Auk þess mundi það skerða bætur eiginmannsins enn meir. Þessi fjölskylda og margar í líkum sporum eiga enga leið út úr þessum vítahring. Fársjúku fólki er ekki gefinn kostur á að takast á við veikindi sín með reisn. Það er brotið niður með ómannúðlegum jaðarsköttum og tekjutengingum sem reka það út í að grípa til örþrifaráða. Ef þessi sjúki öryrki hefði verið atvinnulaus en ekki óvinnufær lífeyrisþegi, hefði hann haldið sínum 50 þús. kr. atvinnuleysisbótum óháð tekjum maka. En af því að hann er á örorkubótum en ekki atvinnuleysisbótum, af því að hann er sjúkur en ekki atvinnulaus, er ástæða til þess að hrifsa af honum stuðninginn frá samfélaginu. Ég þekki til nokkurra dæma þess að fjölskyldur í þessari stöðu hafa brotnað upp og endað með skilnaði aðeins vegna þess að það er eina leiðin til þess að komast af fjárhagslega. Þessar fjölskyldur eru lentar í ómannúðlegustu fátækragildru hins íslenska jaðarskattasamfélags. Ef bæta á lífskjörin þá eru verkefni víða brýn, en ég held að þetta sé einn ljótasti bletturinn á samfélagi okkar, fátæktargildra tekjutengingar og það á ári hallalausra fjárlaga. Lífskjör þessa fólks verður að bæta og það er komið undir vilja ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.