Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 16:59:53 (73)

1996-10-07 16:59:53# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), USt
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:59]

Unnur Stefánsdóttir:

Hæstv. forseti. ,,Launþegar ættu frekar að berjast fyrir aukinni framleiðni en hækkun launa``, sagði forstöðumaður þróunarsviðs fyrirtækis í höfuðborginni á menntaþingi á laugardaginn. Barátta launþega hefur ávallt verið erfið og baráttuaðferðir mismunandi. Svo lengi sem ég man eftir hefur verið rætt um að nú þurfi að hækka lægstu launin. Í mínum huga er þetta rétt og flestir geta líklega tekið undir það eins og fram hefur komið hér í dag. En hvað gerist í samningum? Ef lægstu launin hækka þá hækka laun annarra á eftir og áfram verður launamunurinn sá sami. Lífskjörin eru hér til umræðu og eru þau mjög misjöfn svo ekki sé meira sagt. Sumir hafa lítið til að sjá sér og sínum farborða, aðrir hafa meira og enn aðrir hafa mikið til ráðstöfunar. Í þjóðfélögum hins vestræna heims hefur það verið meginstefna að allir þegnar njóti vissrar lágmarksframfærslu. Það hefur oft verið gagnrýnt hvað laun hér á Íslandi eru lág, svo lág að þau dugi í sumum tilfellum engan veginn til framfærslu fjölskyldunnar. Þetta er blettur sem við ættum að vera búin að þvo af okkur fyrir löngu. Það er ekki góð líðan hjá því fólki sem veit aldrei hvort kaupið muni duga fyrir allra nauðsynlegustu útgjöldum mánaðarins. Að ég tali nú ekki um þegar svo er komið að fólk hefur ekki tök á að hjálpa börnum sínum til náms eins og er á sumum stöðum úti á landi, einkum til sveita. Hins vegar er staðreynd að margir sem hafa miðlungslaun segja að þau dugi engan veginn fyrir nauðþurftum. Þarna erum við komin að einu atriði sem mig langar að ræða nánar. Mat fólks á því hvað eru nauðþurftir er breytilegt. Það sem sumir telja nauðsynlegt og ekki hægt að vera án telja aðrir algeran óþarfa. Þarna kemur uppeldi og umhverfi inn sem mjög sterkur áhrifaþáttur og þarna er kynslóðabilið mjög áberandi. Ungmenni sem alast upp á heimilum í dag með ýmiss konar tækniþjónustu telja sig verða að hafa sömu þjónustu þegar þau fara að búa en gæta oft ekki að því að þessa tækni, íbúð, bíl og húsbúnað hafa foreldrar þeirra eignast á löngum tíma. Verðmætamatið er allt annað. Eitt af því sem við ættum e.t.v. að fara að meta upp á nýtt er þetta: Hverjar eru nauðþurftir í raun og veru? Er það bíllinn? Örbylgjuofninn? Græjurnar? Eða er það eitthvað annað? Hverjar eru nauðþurftir nútímasamfélags? Og í framhaldi af því má spyrja: Er vísitala reiknuð út frá réttum forsendum?

Um áramótin eru kjarasamningar lausir hjá mörgum stéttarfélögum í landinu og eðlilega ætla allir að semja um hærri laun. Þjóðarbúið stendur óvenjuvel eins og fram kom í stefnuræðu forsrh. í síðustu viku og hér hefur komið fram í dag. Kaupmáttaraukning á síðasta ári var 5% og er talin vera 4% á þessu ári og talið er að kaupmáttur fölskyldna aukist að meðaltali um 15--16% frá árunum 1995 til aldamóta. Þess vegna verður mjög erfitt fyrir stéttarfélögin að sætta sig við það að launin hækki ekki umtalsvert eins og allir eru núna að láta sig dreyma um. Skuldastaða heimilanna er mjög slæm um þessar mundir eins og hér hefur komið fram í dag. Of margir hafa farið út í allt of miklar fjárfestingar miðað við getu. Ýmsar ástæður eru fyrir skuldasöfnuninni svo sem minnkandi vinna eða jafnvel atvinnuleysi og veikindi. Hjá mörgum er þó ekki neinu um að kenna öðru en andvaraleysi í fjármálum og það er að verða eitt mesta vandamál í íslensku þjóðfélagi.

Mig langar að leggja áherslu á tvennt varðandi þá kjarasamninga sem fram undan eru: Í fyrsta lagi að skattleysismörk verði hækkuð. Með slíkri aðgerð gæti ríkið lagt sitt á vogarskálarnar til þess að komast hjá harðvítugum kjaradeilum og launþegar fengju ótvíræðar kjarabætur, meira þeir sem minna bera úr býtum. Margir launþegar sem hafa lág laun hafa nefnt það í mín eyru að þeir telji þetta raunhæfustu leiðina. Í öðru lagi ætti að skoða framleiðni eða afköst. Í mörgum starfsgreinum er auðvelt að mæla framleiðni en önnur störf eru þannig að erfitt er að mæla árangur þeirra svo sem kennslustörf. Gæðamat er víða orðið þekkt og með þeim hætti er auðvelt að meta það sem gert er. Það er skoðun mín að flestir gætu hugsað sér að vera þátttakendur í vinnu á sínum vinnustað með það sameiginlega markmið að auka framleiðni ef niðurstaðan er launahækkun.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið tíma mínum en vil leggja áherslu á þetta tvennt sem ég nefndi hér fyrr og eins og ávallt þegar margir eiga í hlut eru mismunandi skoðanir og ég reikna með að svo sé einnig um þessi atriði en bein hækkun launa er ekki það sem mundi færa launþegum mestar kjarabætur heldur hækkun skattleysismarka og áframhaldandi stöðugleiki í efnahagslífinu.