Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:15:29 (76)

1996-10-07 17:15:29# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:15]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Þekktur stjórnmálamaður sagði einhverju sinni: Ég á mér draum. Og ég á mér reyndar einnig draum. Ég á mér þann draum að við getum skapað atvinnu fyrir alla, ég á mér þann draum að fullkomið jafnrétti skapist til náms. Ég á mér þann draum að fólk geti lifað af launum sínum, ég á mér einnig þann draum að kaupmáttur launa aukist enn um sinn og ég á mér þann draum að við getum bætt aðbúnað aldraðra, fatlaðra og sjúkra. Ég á mér einnig þann draum að vinnutími verði fjölskylduvænni og ég á mér einnig þann draum að allir borgi þá skatta sem þeim ber.

Auðvitað eru þetta allt saman göfug og góð markmið og að þeim ber að stefna. Vandamálið er bara það að flestir þessara þátta kosta peninga og tekjur ríkisins eru takmarkaðar. Hvað eigum við að gera til að auka tekjur ríkisins? Jú, við getum hækkað skatta eins og komið hefur fram í umræðunni. Við getum haldið áfram að safna skuldum eins og gert var um langan tíma og við getum reynt einnig að forgangsraða þeim verkefnum sem við erum hér að ræða um.

Hvar vilja stjórnarandstæðingarnir skera niður? Hvað viljum við láta á móti okkur í velferðarkerfi okkar? Auðvitað er nauðsynlegt að ræða þessi mál enda er þetta eitt af aðalviðfangsefnum þeirra sem starfa í pólitík. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og reyndar flestir þeir sem eru í stjórnarandstöðunni drógu fram býsna dökka mynd af samfélagi okkar á Íslandi. Það er sjálfsagt að vekja athygli á þessari dökku mynd. En staðreyndin er einnig sú að fjöldi fólks á Íslandi hefur það þokkalega gott. En við þurfum að leggja mjög mikið á okkur í vinnu m.a. vegna þeirra krafna sem við gerum til lífsins. Þar kemur til húsnæði, ýmiss konar þægindi, ferðalög og ýmislegt fleira sem mjög margir á Íslandi geta látið eftir sér, sem betur fer.

Verðmætamat okkar alþingismanna er oft dálítið sérstakt. Við eyddum býsna löngum tíma á síðasta þingi m.a. til þess að ræða innritunargjöld í Háskóla Íslands og við deildum og pexuðum næstum því heilan dag um það hvort innritunargjöldin ættu að vera 4 eða 5 þúsund kr. hærri eða lægri. Við ræddum ekkert um það að okkar ágæta, unga fólk bregður sér til útlanda mjög gjarnan þegar það hefur lokið framhaldsskólanámi, t.d. lokið stúdentsprófi. Auðvitað vinnur unga fólkið með ýmsum hætti til þess að safna sér fyrir þessum ferðum. Það þekki ég vel því að ég hef verið kennari eins og sumir þeir sem hafa haldið ræður hér í dag. Þetta sama unga fólk fer jafnvel um verslunarmannahelgina vítt og breitt um landið og eyðir miklu hærri upphæðum en þegar við erum að ræða um þessi innritunargjöld. En auðvitað eru þetta kannski smáatriði sem ég er að draga fram í þessu sambandi nákvæmlega eins og ýmis önnur dæmi sem hafa verið rædd hér í dag.

Vonandi berum við gæfu til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Ég er tilbúinn að leggja mitt lóð á vogarskálina í þeim efnum. Ég vona að draumur minn um betra samfélag rætist sem ég vék að í upphafi en ég veit að við fjármögnum ekki velferðarkerfið okkar með áframhaldandi lántöku. Þá mun illa fara í þessu samfélagi.