Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:43:27 (82)

1996-10-07 17:43:27# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður eins og sagt hefur verið þó að þær hafi stundum farið út um víðan völl eins og gerist og gengur og ekki er víst að umræðurnar muni verða til þess fallnar að hjálpa upp á að leiða kjarasamninga til lykta, enda sjálfsagt ekki til þess stofnað á þessu augnabliki. Allmargir þingmenn hv. stjórnarandstöðu hafa sagt að ríkisstjórnin þurfi að átta sig á því að það þurfi að hækka kaup. Ríkisstjórnin hefur áttað sig á því. Ríkisstjórnin telur það brýnt. Hún hefur sagt að kaupmáttur eigi að aukast. Ég hef staðið í þessum ræðustól fyrr, fyrir nokkrum árum og sagt að það mætti ekki hækka kaup, tekjur þjóðarinnar væru að dragast saman og við yrðum að átta okkur á hvernig við ætlum að axla þær byrðar. Við erum ekki að tala þannig nú. Það þarf enginn að brýna okkur í því, þvert á móti. Við erum að segja: Það þarf að hækka kaup. Það þarf að auka kaupmátt. En það verður ekki gert með neinum fölskum hætti eða einhverjum fornum formúlum sem allir vita að hafa brugðist. Sumar lýsingar hv. stjórnarandstöðuþingmanna eru náttúrlega ekki í neinum takt við raunveruleikann og það er ekki hægt að mæla hér fyrir málum sem ganga þvert á það sem almenningur þekkir. Almenningur sér auðvitað í gegnum það.

Það var sagt að ég hefði ekki svarað spurningum um hvort við þingmenn gætum lifað af þessum lægstu launum. Ég segi, þannig hefur oft verið spurt. Ég hef reyndar tekið þátt í því að lifa af lægstu launum með minni fjölskyldu undir forsjá móður minnar. Ég hef aldrei áttað mig á því hvernig hún fór að því. Ég hef aldrei skilið af hverju hún kvartaði aldrei. Þetta gekk og sennilega hafa lægstu launin þá verið lægri en þau eru nú. Það gekk að vísu með miklum þrengingum og menn leyfðu sér ekkert, það er alveg rétt. En það gekk. Og þannig verður það ætíð. Það verður ætíð erfitt að lifa af þeim launum sem lægst eru í þessu landi sem öðrum. Þeir sem eru í þeirri stöðu munu þurfa að velta fyrir sér hverri krónu. Það mun aldrei breytast. Það sem lægst er á hverjum tíma verður ætíð erfitt því það verður alltaf samanburður hjá því fólki við hina sem meira hafa. Þannig verður það alltaf. Þannig var það líka þá í þann tíð sem ég var að nefna. Það þýðir ekkert að koma hér og láta gagnvart almenningi eins og hv. stjórnarandstæðingar séu eitthvað betra fólk en við hin. Eru stjórnarandstæðingar að gefa til kynna að við viljum launþegum illt? Haldið þið að launþegar trúi því? Að við séum komnir til þingsins til að starfa frá morgni til kvölds til þess að hafa af fólki hlutina? Að gera því illt? Það þýðir ekki að tala þannig. Menn vita að það er ekki svo. Það er heldur ekki þannig að atbeini hv. stjórnarandstæðinga, þegar þeir hafa haft afl og vald til, hafi reynst betri til að auka mönnum laun og kaupmátt. Það hefur ekki reynst svo. Hversu digurbarkalega sem menn hafa talað eru staðreyndirnar aðrar. Þá hafa menn sem nú hafa sig í frammi sætt sig við mikla launaminnkun landsmanna eins og ég benti á í upphafi og ekki sagt orð við því.

Komið hefur fram hjá okkur talsmönnum ríkisstjórnarinnar, og við höfum allir talað æsingalaust eins og tilefni er til, að vilji stendur til þess að kaupmáttur landsmanna aukist. Það er kominn tími til og skilyrði eru að skapast til þess. En við þekkjum líka af gamalli sögu að ef við ætlum að ganga sameiginlega hraðar fram en tilefni gefst til göngum við fram af okkur. Þá hverfur þessi ábati. Við eyðileggjum hann fyrir okkur sjálfum. Það vil ég ekki gera. Ég trúi ekki að hv. málshefjandi vilji það heldur.