Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 13:35:13 (85)

1996-10-08 13:35:13# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[13:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1997. Þetta er annað frv. núv. ríkisstjórnar og hið sjötta sem ég legg fram á hinu háa Alþingi. Í ræðu minni mun ég fyrst fara nokkrum orðum um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í þessu fjárlagafrv. Síðan nefni ég nokkrar ástæður fyrir því af hverju það er mikilvægt að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Þá mun ég fara yfir helstu áhersluatriði fjárlagafrv. og gera grein fyrir þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálum að undanförnu. Loks langar mig að vekja athygli á nokkrum atriðum er varða framtíðarhorfur okkar, hvert stefnir, hvaða markmið eru brýnust og hvaða leiðir þarf að fara til að ná þessum markmiðum.

Íslenskt efnahagslíf hefur nú rétt úr kútnum eftir langvinnt erfiðleikatímabil. Síðustu tvö ár var hagvöxtur hér á landi svipaður og í helstu samkeppnislöndum og á árinu 1996 eru horfur á að hagvöxtur verði meiri hér en í nokkru öðru OECD-ríki, að Írlandi undanskildu. Á næsta ári er útlit fyrir að hagvöxtur verði svipaður og í nálægum löndum. Hér hefur því ótvírætt þokast í rétta átt eins og forsrh. benti réttilega á í utandagskrárumræðum í gær.

Nokkuð skyggir á að aukinn hagvöxt má í ríkari mæli rekja til aukinna þjóðarútgjalda en innlendrar verðmætasköpunar. Mestu munar um neysluútgjöld heimilanna en þau hafa hækkað mun meira en nemur auknum kaupmætti ráðstöfunartekna. Skýringin liggur í umtalsverðri útlánaaukningu bankakerfisins til einstaklinga og þar með meiri skuldsetningu heimilanna. Þetta ásamt aukinni fjárfestingu hefur leitt til þess að afgangur á viðskiptajöfnuði í samfellt þrjú ár hefur nú snúist í halla. Þá hefur einnig gætt tilhneigingar til aukinnar verðbólgu á þessu ári þótt hún sé enn á svipuðu stigi og í nágrannalöndunum. Ég tel afar mikilvægt að sporna við þeirri þróun. Nýlegar aðgerðir Seðlabankans miða að því að auka aðhald í peningamálum og draga þannig úr þenslu í efnahagslífinu. Jafnframt er mikilvægt og í reynd eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að treysta stöðu ríkisfjármála og varðveita þann stöðugleika sem náðst hefur í verðlags- og gengismálum á undanförnum árum. Aðeins þannig er unnt að treysta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs enn frekar en orðið er og skapa skilyrði til varanlegs hagvaxtar og bættra lífskjara. Þetta er nú sem fyrr kjarninn í efnahagsstefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.

Nú kunna einhverjir að spyrja hvers vegna jafnvægi í ríkisfjármálunum sé svona mikilvægt. Ég vil því fara nokkrum orðum um mikilvægi þessa markmiðs.

Ýmis veigamikil rök eru fyrir því að traust staða ríkisfjármála eigi að vera forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda. Reyndar eru þau rök ekki bundin við íslenskar aðstæður því að um þau er almenn samstaða á alþjóðavettvangi. Þannig hafa helstu skilaboð alþjóðaefnahagsstofnana til stjórnvalda um alllangt skeið verið að nauðsynlegt sé að nýta uppsveifluna í efnahagslífinu til að treysta stöðu ríkisfjármála og renna með því styrkari stoðum undir efnahagsbatann.

Ég vil í þessu samhengi vísa til nýlegra umræðna og samþykkta á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hann var haldinn í síðustu viku. Á fundinum var lögð sérstök áhersla á nauðsyn aðhaldssamrar stefnu í ríkisfjármálum til að treysta stöðugleika í efnahagsmálum og efla atvinnulífið. Þær áherslur komu ekki einungis fram í formlegum samþykktum ársfundarins heldur einnig í ræðum ráðherra og annarra fulltrúa stjórnvalda á fundinum. Ástæðan fyrir samstöðu ráðamanna, hvar í flokki sem þeir standa, er einfaldlega sú að menn eru almennt sammála um að þessi stefna sé forsenda fyrir aukinni velferð og bættum lífskjörum almennings.

Slík viðhorf eiga einnig við hér á landi. Á sama hátt og leitað var til ríkissjóðs þegar erfiðleikar steðjuðu að atvinnulífinu er nú afar brýnt að nýta efnahagsbatann til að skila ríkissjóði með afgangi. Það er öruggasta leiðin til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum, efla hagvöxt og bæta lífskjör heimilanna. Af þessu leiðir að ekki eru rök fyrir því að slaka á aðhaldi í ríkisfjármálum að svo stöddu. Þvert á móti má færa gild efnahagsleg rök fyrir hinu gagnstæða, þ.e. að auka aðhald enn frekar. Íslensk hagsaga geymir of mörg dæmi um lausatök í hagstjórn þegar vel árar. Afleiðingin hefur ávallt verið þensla, verðbólga, gengisfellingar og versnandi lífskjör almennings. Ég hygg að flestir séu sammála um að falla ekki í þá gryfju á nýjan leik.

Jafnvægi í ríkisfjármálum er enn mikilvægara fyrir þá sök að viðskiptaafgangur hefur snúist í halla. Í því felst að við eyðum meiru en við öflum. Afgangur á ríkissjóði vegur á móti þeirri umframeyðslu og stuðlar því að stöðugleika í efnahagslífinu. Enn fremur er rétt að hafa í huga að samfelldur hallarekstur ríkissjóðs undanfarin tólf ár hefur leitt til verulegrar skuldasöfnunar en hún er í reynd ávísun á skattahækkanir eða frekari niðurskurð útgjalda í framtíðinni.

Ég tel afar mikilvægt að snúa þróuninni við og fara að greiða niður þær skuldir sem hafa hlaðist upp mörg undanfarin ár. Jafnframt er rétt að hafa í huga að þótt skuldastaða ríkisins sé lægri í hlutfalli við landsframleiðslu hér á landi en víða annars staðar vega erlendar skuldir mun meira hér á landi. Í þessu felst ákveðin hætta, ekki síst fyrir okkar fámenna þjóðfélag.

Ég vil einnig benda á að hallalaus fjárlög eru ekki loka\-áfangi í átt til jafnvægis í ríkisfjármálum því að utan fjárlaga standa ýmsar skuldbindingar sem ríkissjóður hefur tekið á sig, einkum í lífeyrismálum, en einnig í áföllnum en ógreiddum vaxtagjöldum. Næsta verkefni í ríkisfjármálum er að jafna þessi met þannig að rekstur ríkissjóðs standi undir öllum gjöldum og skuldbindingum sem á honum hvíla. Til að ná þeim markmiðum þarf ríkissjóður að skila umtalsverðum afgangi á næstu árum. Þetta má líka orða á þann veg að með þessu fjárlagafrumvarpi sé stefnt að jafnvægi í ríkisbúskapnum miðað við svokallaðan greiðslugrunn en það er hin hefðbundna uppgjörsaðferð fjárlaga. Því næst þurfi að ná jafnvægi á rekstrargrunni en það er sú aðferð sem birtist í ríkisreikningi þar sem auk greiðsluhreyfinga á fjárlagagrunni er tekið tillit til þeirra skuldbindinga sem falla á ríkissjóð á hverju ári án þess að þær hafi áhrif á greiðslur viðkomandi árs. Þriðji áfanginn er síðan að skila nægilega miklum afgangi á rekstri ríkissjóðs til að unnt verði að greiða niður þær skuldir og skuldbindingar sem safnast hafa upp á undanförnum árum og áratugum. Ég vil í því samhengi nefna að ég mun á næstunni leggja fram á Alþingi frv. um fjárreiður ríkisins. Í því eru lagðar til róttækar breytingar á uppgjöri ríkisins en þær miða meðal annars að því að varpa ljósi á öll umsvif ríkisins með gleggri hætti en nú er gert, þar á meðal allar skuldbindingar. Það frv. var reyndar lagt fram á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Aukin vaxtabyrði er óhjákvæmileg afleiðing þráláts hallareksturs og skuldasöfnunar. Tölurnar tala sínu máli. Frá árinu 1985 nemur samanlagður halli ríkissjóðs rúmlega 100 milljörðum króna eða 8--9 milljörðum króna að jafnaði á ári. Hallareksturinn hefur verið fjármagnaður með lánum bæði innlendum og erlendum. Af því leiðir að vaxtagreiðslur ríkissjóðs hafa smám saman verið að aukast og nema nú 13--14 milljörðum króna á ári hverju. Vaxtagjöld ríkissjóðs eru þar með orðin næststærsti einstaki útgjaldaliður fjárlaganna. Sem dæmi má nefna að vaxtagjöldin nema hærri fjárhæð en fer úr ríkissjóði til skólahalds í landinu og svipaðri fjárhæð og fer í rekstur sjúkrahúsanna á Akureyri og í Reykjavík.

Loks er mikilvægt að nýta þann meðbyr sem er í efnahagslífinu til að treysta stöðu ríkissjóðs varanlega. Með því er búið í haginn fyrir framtíðina í tvennum skilningi. Annars vegar með því að greiða niður skuldir ríkisins og koma í veg fyrir skattahækkanir á næstu árum. Hins vegar er ekki síður mikilvægt að treysta stöðu ríkisfjármála meðan uppsveiflan varir og skapa svigrúm til að mæta áföllum eða andbyr í efnahagsmálum síðar. Sagan kennir okkur að óvarlegt sé að gera ráð fyrir að góðæri haldist um aldur og ævi og hyggilegra sé að hafa vaðið fyrir neðan sig.

[13:45]

Herra forseti. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar megináherslur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir afgangi á fjárlögum ársins 1997 eftir samfelldan hallarekstur allt frá árinu 1985. Þetta markmið er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. Fyrsta skrefið í átt til jafnvægis var stigið með afgreiðslu fjárlaga ársins 1996. Þar var stefnt að því að helminga rekstrarhalla ríkissjóðs frá fyrra ári og benda síðustu áætlanir til þess að það gangi eftir og reyndar gott betur. Ég tel ástæðu til að benda á að undanfarin ár hafa afkomuáætlanir fjárlaga staðist betur en áður. Þegar horft er til síðustu þriggja ára, þ.e. frá og með árinu 1994, sýnir afkoma ríkissjóðs betri niðurstöðu en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum eða sem nemur 2 milljörðum króna samanlagt á þessu tímabili. Til samanburðar má nefna að á árunum þremur 1989, 1990 og 1991 varð halli ríkissjóðs 20 milljörðum, ég endurtek 20 milljörðum meiri samanlagt en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þetta segir ákveðna sögu um hve afkomuáætlun fjárlaga er orðin áreiðanlegri en áður var.

Gangi áform þessa fjárlagafrumvarps eftir mun ríkissjóður í fyrsta skipti í hálfan annan áratug greiða niður skuldir sínar eða um 2,3 milljarða króna. Jafnframt lækka skuldir ríkissjóðs í hlutfalli við landsframleiðslu annað árið í röð. Þessi lækkun endurspeglast í lækkun heildarskulda hins opinbera, þ.e. þegar sveitarfélög eru meðtalin, úr 55,5% af landsframleiðslu 1996 í rúmlega 53% á árinu 1997.

Til þess að ná markmiði fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1997 þarf að beita verulegu aðhaldi á útgjaldahlið. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 1997 verði 124,3 milljarðar króna. Þótt þessi fjárhæð sé heldur hærri en fjárlagatalan fyrir árið 1996 reiknað á sambærilegum grunni, þ.e. á föstu verðlagi og að teknu tilliti til flutnings grunnskólans til sveitafélaga, felst í þessum áformum um það bil 2,5% lækkun útgjalda að raungildi frá áætlaðri útkomu 1996. Lækkunin kemur einkum fram í útgjöldum til rekstrar, viðhalds og fjárfestingar en jafnframt tekst að halda tilfærsluútgjöldum nær óbreyttum milli ára.

Helstu breytingar á gjaldahlið auk flutnings grunnskólans til sveitarfélaga eru áform um breyttar áherslur í rekstri fjölmargra ríkisstofnana. Stórstígar framfarir í samgöngum og fjarskiptum gefa færi á að stækka þjónustusvæði einstakra ríkisstofnana og þannig um leið fækka stofnunum. Jafnframt verða stofnanirnar færari um að sinna hlutverki sínu. Þessar breytingar munu einnig skila sér í lægri útgjöldum, einkum þegar frá líður, en að vissu marki þegar á árinu 1997.

Tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins markast af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að auka ekki skattbyrði. Heildartekjur ríkissjóðs árið 1997 eru áætlaðar 125,4 milljarðar króna. Samhliða fjárlagagerðinni hefur verið unnið að ýmsum umbótum í skattamálum. Unnið er að heildarendurskoðun á tekjuskatti einstaklinga og ýmsum bótagreiðslum, meðal annars með það fyrir augum að draga úr svonefndum jaðaráhrifum. Ýmis atriði í álagningu skatta á fyrirtæki eru einnig til skoðunar. Ríkisstjórnin hefur þannig ákveðið að álagning tryggingagjalds á fyrirtæki verði samræmd milli atvinnugreina í áföngum og hugmyndin er að fyrsti áfangi komi til framkvæmda á næsta ári. Enn fremur er unnið að frekari breytingum á vörugjöldum í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar fyrr á þessu ári. Um næstu áramót kemur einnig til framkvæmda skattlagning vaxtatekna og samræmd skattlagning fjármagnstekna, en lög þessa efnis voru samþykkt á Alþingi síðastliðið vor. Fleiri atriði eru til skoðunar þótt þau verði ekki tíunduð hér.

Batnandi afkoma þjóðarbúsins nú er um margt frábrugðin fyrri uppsveiflum í íslensku efnahagslífi þar sem hún verður ekki rakin sérstaklega til sjávarútvegs. Allt frá miðjum síðasta áratug hefur íslenskt efnahagslíf gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar. Lykilorðið í þessari þróun er aukið frelsi í viðskiptum, jafnt með vörur, þjónustu og fjármagn. Á flestum sviðum hefur hömlum verið aflétt og höftum, boðum og bönnum verið ýtt út af borðinu. Auk þess hefur af hálfu stjórnvalda verið gripið til ýmissa aðgerða til að laga rekstrarskilyrði atvinnulífsins að því sem gerist í helstu samkeppnislöndum okkar. Þessi þróun hefur skapað nýjar forsendur fyrir atvinnulífið í landinu. Auknu frelsi fylgir vaxandi samkeppni inn á við sem út á við. Fyrirtækin hafa því þurft að taka sér tak, hagræða og endurskipuleggja reksturinn. Þessar breytingar, ásamt auknum stöðugleika í efnahagslífinu, meðal annars vegna hófsamra kjarasamninga, hafa lagt grunninn að öflugra atvinnulífi.

Árangur þessara aðgerða er nú smám saman að koma í ljós. Tekist hefur að koma verðbólgu niður á svipað stig og í samkeppnislöndunum. Jafnframt hefur gengi íslensku krónunnar verið stöðugt. Síðustu þrjú ár hefur verið afgangur á viðskiptajöfnuði eftir þrálátan og nær samfelldan hallarekstur áratugum saman. Þannig tókst að stöðva erlenda skuldasöfnun þjóðarbúsins. Þá hafa vextir lækkað verulega frá því sem áður var en það stuðlar að aukinni fjárfestingu fyrirtækja og léttir vaxtabyrði heimila. Í kjölfarið hefur hagvöxtur tekið við sér og störfum á vinnumarkaði fer nú aftur fjölgandi. Atvinnuleysi hefur því minnkað og kaupmáttur heimilanna hefur aukist á nýjan leik. Allt eru þetta jákvæðir þættir í efnahagslífinu sem mikilvægt er að treysta betur, ekki síst með hliðsjón af horfum um viðskiptahalla á ný á þessu og næsta ári.

Margt hefur áunnist í ríkisfjármálum undanfarin ár. Þannig má nefna að á árinu 1996 eru í fyrsta sinn síðan 1984 horfur á að afkoma ríkissjóðs, að frátöldum vaxtagjöldum og vaxtatekjum, verði jákvæð. Þessi mælikvarði á afkomu ríkissjóðs er notaður til að sýna hvernig meginstraumarnir í ríkisfjármálum eru að þróast. Þetta er umtalsverður árangur og sýnir að verulega hefur þokast í rétta átt í ríkisfjármálum að undanförnu. Aðhald í ríkisrekstri hefur verið eflt, meðal annars með markvissari fjárlagagerð. Þá hefur verið unnið að ýmsum skipulagsbreytingum til að nýta sem best þá fjármuni sem varið er til heilbrigðis- og menntamála. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaga ásamt sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði og ný lög um framhaldsskólann mun í senn styrkja almenna grunnmenntun á næstu árum og það fyrrnefnda efla sveitarfélögin til að fást við ný verkefni. Enn fremur hefur verið unnið að nýskipan í ríkisrekstri með auknum útboðum, sameiningu stofnana og þjónustusamningum. Mörg ríkisfyrirtæki hafa verið seld og öðrum breytt í hlutafélög með sölu síðar í huga. Skattkerfið hefur verið endurskoðað með það fyrir augum að skapa atvinnulífinu hér á landi sambærileg rekstrarskilyrði og í öðrum löndum. Auk þess hefur skatteftirlit verið hert. Öll þessi atriði horfa til framfara og renna styrkari stoðum undir ríkisfjármálin. Það stuðlar aftur að öflugra atvinnulífi og betri meðferð á almannafé.

Árangur efnahagsstefnunnar hefur ekki einungis skilað sér í traustari stöðu atvinnulífsins og bættum kjörum almennings heldur einnig í hagstæðari lánskjörum erlendis. Fyrr á þessu ári ákváðu tvö af virtustu fjármálafyrirtækjum heims, Standard & Poor's og Moody's, sem sérhæfa sig í að meta lánshæfi einstakra ríkja, að hækka lánshæfiseinkunn Íslands. Þessi ákvörðun var rökstudd með tilvísun til þess mikla árangurs í efnahagsmálum sem traust og ábyrg hagstjórn hér á landi undanfarin ár hefur skilað. Þessi árangur hefur þegar leitt til betri lánskjara ríkissjóðs erlendis og mælist einnig á alþjóðlegan mælikvarða með því að Ísland er meðal fjögurra Evrópuríkja sem nú í dag uppfylla öll fjögur skilyrði um þátttöku í myntbandalagi Evrópu, en þau lúta að verðbólgu, vöxtum, afkomu og skuldastöðu hins opinbera. (Gripið fram í: ... að sækja um?) Það getur komið að því síðar en það er ekki á dagskrá nú eins og ég veit að hv. þm. kannast við.

Ég vil í þessu samhengi stuttlega rifja upp þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum fjármagnsmarkaði að undanförnu, meðal annars fyrir atbeina stjórnvalda. Á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að ég tók ákvörðun um að láta bjóða verðbréf ríkissjóðs út á innlendum markaði án nokkurra skilyrða hefur margt áunnist. Vextir breytast nú í takt við markaðsaðstæður hverju sinni í stað þess sem áður var þegar vöxtum var stýrt með handafli. Þróunin síðustu mánuði sýnir þetta glöggt. Framan af árinu fóru vextir lækkandi þrátt fyrir aukin útlán til heimila og fyrirtækja. Þetta má einkum rekja til lægri vaxta á verðbréfum ríkisins. Að auki hefur verulega dregið úr lántökum hins opinbera, bæði ríkisins, opinberra fyrirtækja og sveitarfélaga. Allt eru þetta merki um að íslenskur verðbréfamarkaður sé að styrkjast og verða ráðandi um vaxtamyndun

Ábyrgð peningamálayfirvalda hefur smám saman verið að vaxa. Skýrasta dæmið er nýleg ákvörðun Seðlabankans um að hækka vexti í viðskiptum hans við bankana og aðgerðir til að þrengja að lausafjárstöðu þeirra. Ég tel þessar aðgerðir afar eðlilegar því að þenslumerkin eru til staðar eins og ég hef áður vikið að. Með þessu er bankinn að gefa til kynna að frekara aðhald sé nauðsynlegt.

Virðulegi forseti. Með þessu fjárlagafrumvarpi er stigið mikilvægt skref í átt til jafnvægis í ríkisfjármálum. Afar mikilvægt er að fylgja áformum frv. um aðhald og sparnað í útgjöldum fast eftir. Þannig er unnt að tryggja að sá tekjuauki sem efnahagsbatinn skilar komi fram í afgangi á fjárlögum á næsta ári. Með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til undanfarin ár, meðal annars ýmsum skipulagsbreytingum í heilbrigðis- og menntamálum, nýskipan í ríkisrekstri, markvissari fjárlagagerð og aukinni ábyrgð stjórnenda og aðgerðum sem eru í undirbúningi, verður staða ríkisfjármála treyst enn frekar.

Í greinargerð með frv. er vikið að ýmsum helstu verkefnum og áhersluatriðum í ríkisfjármálum á næstu missirum. Ég mun stikla á örfáum þessara atriða í örstuttu máli.

Áfram verður aðhald í ríkisútgjöldunum. Í því sambandi er rétt að benda á að á næsta ári verður rekstur sjúkrahúsa, framhaldsskóla, rannsóknastofnana, sýslumannsembætta og skattstofa tekinn til skoðunar.

Í öðru lagi er nú unnið að tekjuskattslagabreytingum með það að augnamiði að lækka jaðarskatta. Ég vil taka það fram að reyndar hafa verið stigin ákveðin skref í þessa átt með ákvörðun um skattfrelsi lífeyrisiðgjalda launþega og breytingum á útreikningi barnabóta til tekjulægri fjölskyldna. Þá má einnig nefna að álagning fjármagnstekjuskatts mun skila auknum tekjum á árinu 1998 og það gefur einnig færi á lækkun annarra skatta.

Samkeppnisstaða atvinnulífsins hefur verið styrkt og að því þarf að vinna áfram. Í því sambandi vil ég nefna til sögunnar að fjmrn. hefur látið útbúa skýrslu sem unnin var af aðilum utan ráðuneytisins og jafnframt var nýlega haldin ráðstefna á vegum viðskrn. og fjmrn. þar sem fengnir voru erlendir og innlendir sérfræðingar til þess að fjalla sérstaklega um þessi mál og segja frá því hvað er helst að gerast annars staðar í þessum mikilvægu málum. Niðurstaðan er sú að besta aðferðin til þess að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins hér sé að auka samkeppni sem allra víðast, líka á þeim sviðum þar sem ríkið sinnir nánast öllum störfum.

[14:00]

Við munum halda áfram að vinna að umbótum í ríkisrekstri. Þar verða m.a. stofnanir sameinaðar, boðin út starfsemi áfram og ríkisfyrirtæki seld þar sem það á við. Enn sem fyrr mun verða lögð á það áhersla að það gerist með þeim hætti að samkeppni sé tryggð jafnframt. Meginreglan verður auðvitað sú að þau verkefni sem hægt er að fela öðrum en ríkinu verði þeim falið þótt ríkið beri auðvitað ábyrgð á rekstrinum eftir sem áður. Þá verður því verkefni haldið áfram að marka stefnu í ríkisfjármálum til nokkurra ára í senn.

Lífeyrismálin eru í endurskoðun eins og getið er um í greinargerð frv. og haldið verður áfram að vinna að starfsmannastefnunni en lögunum um starfsmenn ríkisins var breytt á síðasta þingi. Enn á eftir að gera nokkrar breytingar á því frv. eins og boðað var á síðasta þingi og mun það frv. sjá dagsins ljós og verða lagt fram á Alþingi síðar í þessum mánuði. Þar að auki vil ég geta þess eins og ég sagði ítrekað við lok síðasta þings að ætlunin er að starfsmenn ríkisins fái aukna möguleika á að hækka í launum eftir hæfni og ábyrgð og sveigjanleiki í vinnutíma verði aukinn og mun verða tekið upp samráð við forustumenn starfsmannafélaga ríkisins þegar um þessi mál verður fjallað. Ég á von á því að það verði á næstunni enda er ekki hugmyndin að taka þennan hátt upp fyrr en að loknum kjarasamningum á næsta ári.

Þá vil ég minnast á það að unnið verður áfram að sölu ríkisfyrirtækja. Þegar spurt er um hvaða fyrirtæki það séu má benda á að á næsta ári er stefnt að sölu hlutabréfa í Skýrr hf., Áburðarverksmiðjunni hf. og Sementsverksmiðjunni hf. Ég vil benda á að á næsta ári verður Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa lögð niður og verkefni hennar að mestu flutt til verðbréfafyrirtækjanna og þá hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að breyta rekstrarformi bæði ríkisviðskiptabankanna og fjárfestingarlánasjóðanna.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að eyða löngum tíma í stefnumörkun í ríkisfjármálum til nokkurra ára. Um það má einnig lesa í greinargerð með frv. en auðvitað er ljóst að nú er nauðsynlegt þegar verðbólgan byrgir okkur ekki lengur sýn að við horfum lengra fram á tímann en við erum vön og undirbúum framtíðina með öðrum hætti en gert hefur verið. Þótt við náum jafnvægi í ríkisfjármálunum nú og jafnvel þótt við skilum afgangi á næstu árum mun hægt ganga að lækka skuldastöðu ríkisins. Þannig er gert ráð fyrir því í langtímaáætluninni að fram til aldamóta lækki heildarskuldir ríkisins úr 48% af landsframleiðslu í 40%. Þannig mun þetta ganga ef áætlanir um hagvöxt og útgjöld og tekjur ríkisins standast.

Virðulegi forseti. Hér að framan hef ég einkum fjallað um megináherslur fjárlagafrv. og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, m.a. í ljósi þess árangurs sem náðst hefur að undanförnu. Þótt margt hafi áunnist í ríkisfjármálum á undanförnum árum er mikilvægara að horfa til framtíðar en fortíðar. Ég tel ástæðu til að staldra hér aðeins við og ræða sérstaklega um velferðarkerfið og þann vanda sem að því steðjar. Mér finnst eins og margir telji að aðgerðir ríkisstjórnar til að stemma stigu við gríðarlegri útgjaldaaukningu til velferðarmála beri vott um mannvonsku af verstu gerð og jafnvel einsdæmi sé horft til þess sem gerist hjá öðrum þjóðum. Þetta er auðvitað alrangt. Þvert á móti eru þessi mál í brennidepli efnahagsumræðunnar hjá flestum ef ekki öllum nágrannaríkjum okkar.

Eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna hér á landi sem og í flestum nágrannaríkjunum er að verja velferðarþjóðfélagið. Staðreyndin er einfaldlega sú að stjórnvöld, jafnt hér á landi sem annars staðar, t.d. í velferðarþjóðfélaginu Svíþjóð, telja sig knúin til róttækra aðgerða til þess að verja velferðarkerfið. Eðlilega hafa margar þessara aðgerða fallið í grýttan jarðveg. Fólki finnst að verið sé að kippa stoðum undan þeirri þjónustu sem það telur sig eiga að fá. Auðvitað hafa sérhagsmunir einnig mótað afstöðu margra, sérstaklega þeirra sem telja sig eiga rétt á tiltekinni opinberri þjónustu og kæra sig jafnvel kollótta um hver borgar brúsann. Þótt flestir geri sér grein fyrir vanda velferðarþjóðfélagsins er óhætt að fullyrða að skilningur á nauðsyn aðgerða og eðli þeirra sé öllu takmarkaðri. Um leið og stjórnvöld setja fram hugmyndir um aðhalds- og sparnaðaraðgerðir koma margvíslegir hagsmunahópar fram á sjónarsviðið og benda á aðrar leiðir til að ekki verði snert við málaflokkum sem þeim eru kærir. Þetta er út af fyrir sig skiljanleg afstaða. Stjórnvöld þurfa hins vegar að skoða málin í víðara samhengi, ekki frá sjónarhóli eins tiltekins hagsmunahóps heldur með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Hér þarf í mörgum tilvikum að breyta hugarfari viðkomandi aðila. Stjórnvöld geta ekki og mega ekki láta undan öllum óskum og kröfum um ný og aukin útgjöld til ákveðinna hópa heldur líta lengra fram í tímann og meta áhrif tiltekinna aðgerða með hliðsjón af hagsmunum þjóðarinnar í heild.

Menn kunna að spyrja: Er einhver ástæða til þess að grípa til róttækra aðhaldsaðgerða til varnar velferðarkerfinu? Þessu svara ég hiklaust játandi. Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar sem hafa valdið því að útgjöld til velferðarmála hafa vaxið ört. Í fyrsta lagi hafa orðið verulegar framfarir í kjölfar nýrrar þekkingar og tækninýjungar. Þessar breytingar koma m.a. fram í sífellt betri lyfjum sem ráða bót á margvíslegum sjúkdómum öflugar en áður. Jafnframt hefur ör tækniþróun í læknavísindum stuðlað að betri læknaþjónustu. Í kjölfarið hefur læknisaðgerðum fjölgað.

Í öðru lagi hefur aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar breyst þannig að aldraðir eru nú hlutfallslega fleiri en áður. Samhliða hefur þörfin fyrir hjúkrun og aðhlynningu aukist. Þessar breyttu aðstæður skýra að verulegu leyti aukin útgjöld til velferðarmála að undanförnu og kalla um leið á viðbrögð stjórnvalda og ný vinnubrögð því að flestir viðurkenna að varanleg lausn felst ekki í auknum fjárveitingum, aukinni skuldsetningu eða skattheimtu. Til að verja velferðarkerfið og auðvelda nýjungar verðum við að laga okkur að hinum fjárhagslegu takmörkunum og tryggja réttindi og velferð almennings með skýrum leikreglum og ákveðinni verkaskiptingu. Umfram allt þarf að ýta undir ráðdeild og sparnað sem fólk getur notið á ævikvöldi sínu.

Þótt útgjöld til velferðarmála hafi aukist mikið á undanförnum árum, jafnt hér á landi sem annars staðar, stöndum við um margt betur en aðrar þjóðir. Hér má t.d. nefna að íslenska þjóðin er tiltölulega ung í samanburði við margar aðrar þjóðir. Þannig er hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri af fólki á vinnufærum aldri mun lægra en annars staðar eða um 15%. Samsvarandi hlutfall hjá flestum öðrum Evrópuþjóðum er 20--25%. Til viðbótar þessu er atvinnuþátttaka karla og kvenna hér á landi með því mesta sem þekkist. Hins vegar er ljóst að miklar breytingar eru fram undan. Hlutfall aldraðra mun hækka mjög ört á sama tíma og þannig dregur úr atvinnuþátttöku. Margt bendir því til þess að vinnandi Íslendingum á bak við hvern lífeyrisþega muni fækka úr sjö í innan við þrjá á næstu 30 árum. Þessi þróun mun að öllu óbreyttu kalla á stóraukin útgjöld til velferðarmála á sama tíma og þeim fækkar hlutfallslega sem þurfa að standa undir þessum auknu útgjöldum.

Það er fróðlegt í þessu samhengi að skoða ummæli Göran Persson, sænska forsætisráðherrans, í blaðaviðtali þegar hann var hér í opinberri heimsókn fyrir skömmu. Þar fjallar hann einmitt um vandamál velferðarríkisins í Svíþjóð og telur að með aðhaldsaðgerðum sænsku ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum hafi tekist að koma í veg fyrir stórslys eins og hann orðar það. Jafnframt bendir hann á að ekki sé hægt að byggja velferðarþjóðfélag á lántökum. Orðrétt segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

,,Velferð verður að byggjast á framleiðslu fyrirtækja og getu landsmanna til að greiða skatta, ekki á viðskiptavild í bönkum.`` Og síðar segir hann: ,,Við verðum alltaf að spyrja hvort kerfið sé uppbyggt þannig að það hvetji fólk til að vinna, hvort það stuðli að réttlátri tekjudreifingu, hvort það standist bæði hallæri og góðæri, hvernig jafnvægið er milli eigin framlags manna og þess sem kemur úr opinberum sjóðum.``

Einnig er fróðlegt að líta til umræðna á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í síðustu viku. Í ræðu sinni lagði framkvæmdastjóri samtakanna, Michel Camdessus, áherslu á nauðsyn þess að aðildarríki samtakanna gripu til aðgerða í því skyni að skapa svigrúm til að mæta vaxandi útgjaldaþörf til velferðarmála og menntamála. Þetta yrði aðeins gert með því að gera velferðarþjónustuna markvissari og tryggja þannig þeim einstaklingum örugga þjónustu sem mest eru þurfandi. Stjórnvöld þyrftu að huga vandlega að breytingum á grundvallarskipulagi jafnt velferðarkerfisins sem menntamála, ekki láta nægja að taka á einstökum þáttum í einangrun.

Ég get tekið heils hugar undir þessi sjónarmið, enda eru stjórnvöld víða um heim sammála um að róttækra aðgerða sé þörf, hvar í flokki sem þau standa, eins og sést best af því að stjórnvöld í Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku og Finnlandi, til að nefna nokkur nálæg lönd, hafa þegar eða eru í þann veginn að grípa til aðgerða á þessu sviði. Það eru hins vegar engar töfralausnir til. Stjórnvöld verða einfaldlega að taka á vandanum. Það dugar ekki að stinga höfðinu í sandinn og láta sem engin vandamál séu á ferðinni. Ég tel afar mikilvægt að víðtækur skilningur ríki á nauðsyn aðgerða á þessu sviði. Þótt stjórnvöld beri vitaskuld ein ábyrgð á sjálfum aðgerðunum verður að vera um þær almenn samstaða til þess að þær skili árangri. Það er verkefni okkar stjórnmálamanna að tryggja þessa samstöðu.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til miða að því að treysta velferðarkerfið. Það gengur einfaldlega ekki upp að láta sem ekkert sé og halda áfram að byggja upp velferðarkerfi og þjónustustig sem fær ekki staðist nema í nokkur ár. Með því erum við einungis að velta vandanum yfir á komandi kynslóðir. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því að mæta þessum aðsteðjandi vanda. Með auknu aðhaldi og ráðdeild er leitast við að fyrirbyggja stórkostlegan niðurskurð og samdrátt í þjónustu við aldraða í framtíðinni. Jafnframt er mikilvægt að auðvelda þeirri kynslóð sem nú er á vinnumarkaði að spara og leggja til hliðar, meðal annars í lífeyrissjóðakerfinu, svo að hún geti staðið undir stærri hluta velferðarkerfis framtíðarinnar en ella.

Það er einnig ástæða til að undirstrika að þrátt fyrir margvíslegar aðhaldsaðgerðir á undanförnum árum hafa útgjöld ríkisins til velferðarmála ekki minnkað eins og glöggt má sjá af samanlögðum framlögum ríkisins til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Þetta sýnir í raun umfang vandans. Ef ekkert væri að gert færu útgjöldin vaxandi ár frá ári. Stjórnvöld standa þannig frammi fyrir því að meta hvort réttlætanlegt sé að halda að sér höndum og hækka skatta til að mæta aukinni útgjaldaþörf eða grípa til aðhaldsaðgerða. Hér er því fárra góðra kosta völ. Ríkisstjórnin hefur valið þá leið að taka á vandanum. Ekki láta fljóta að feigðarósi. Það má gagnrýna þá afstöðu. En þá verður að benda á aðrar leiðir. Hvernig vilja menn bregðast við? Vilja þeir hækka skatta? Vilja þeir spara annars staðar? Og þá hvar?

Mín skoðun er sú að þjóðin verði að vinna að tveimur verkefnum samtímis til að tryggja sem best afkomu og velferð heimilanna á næstu árum. Annars vegar þarf að sjá til þess að fólk á vinnufærum aldri geti aflað meiri tekna til að standa undir kostnaði við að annast framfærslu barna, afla húsnæðis, greiða námslán og spara án þess að því finnist að skattalögin refsi því með of háum jaðarsköttum. Hins vegar þarf að tengja saman lífeyrissjóða- og lífeyristryggingakerfið þannig að þeim, sem eru ekki lengur á vinnualdri eða eru ófærir um að stunda atvinnu, sé tryggður nægilegur lífeyrir. Um þessi verkefni þarf að takast sátt --- sátt milli kynslóða --- til að undirbúa þær óumflýjanlegu breytingar sem verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu árum og áratugum án þess að stofna í hættu samhjálparhugmyndum velferðarþjóðfélagsins.

Herra forseti. Ég hef í ræðu minni gert grein fyrir markmiðum efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og mikilvægi þess að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Einnig hef ég lagt áherslu á nauðsyn þess að hverfa frá þrálátum hallarekstri og skuldsetningu komandi kynslóða. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar miðar að því að styrkja undirstöður atvinnulífsins enn frekar á næstu árum til að tryggja næga atvinnu og standa straum af sameiginlegum kostnaði velferðarþjóðfélagsins. Traust staða ríkisfjármála og jafnvægi í utanríkisviðskiptum gegna hér lykilhlutverki.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er staðreyndin einfaldlega sú að með hallarekstri mörg undanfarin ár hefur ríkissjóður safnað miklum skuldum. Þótt það kunni að vera réttlætanlegt um skamma hríð og við sérstakar aðstæður er alveg ljóst að hvorugt á við núna þegar hagvöxtur er með mesta móti. Þess vegna mæla öll rök með því að efnahagsbatinn sé nýttur til þess að treysta stöðu ríkissjóðs þannig að tekjur hrökkvi í fyrsta lagi fyrir öllum útgjöldum og í öðru lagi sé unnt að grynnka á skuldum ríkissjóðs og þar með lækka vaxtagreiðslur í framtíðinni. Það er ekki réttlætanlegt að ætlast til þess að næstu kynslóðir borgi fyrir áframhaldandi skuldasöfnun þegar betur árar.

[14:15]

Á undanförnum árum hefur náðst víðtækt samkomulag í þjóðfélaginu um kjarasamninga sem hafa í senn stuðlað að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og jafnframt tryggt kaupmátt launafólk betur en ella hefði orðið. Erfiðleikar í íslensku efnahagslífi í lok síðasta áratugar og upphafi þess níunda leiddu til samdráttar í tekjum þjóðarbúsins og atvinnuleysis og skertu því óhjákvæmilega lífskjör fólks um sinn. Með samstilltu átaki launafólks, vinnuveitenda og stjórnvalda tókst hins vegar að koma í veg fyrir alvarlega kollsteypu í efnahagslífinu. Af hálfu stjórnvalda var meðal annars gripið til skattalækkana og aukinna útgjalda til framkvæmda. Ég tel að þróunin á síðustu missirum þar sem verulega hefur rofað til í efnahagsmálum staðfesti að sú þjóðarsátt sem ríkt hefur á sviði kjaramála undanfarin ár hafi verið farsæl. Þannig eru að spretta upp öflug fyrirtæki í ýmsum nýjum greinum atvinnulífsins. Jafnframt eru framkvæmdir hafnar við stóriðju á ný eftir nær tveggja áratuga hlé. Þessi þróun hefur þegar skilað sér í auknum þjóðartekjum og nýjum störfum. Í kjölfarið hefur dregið úr atvinnuleysi og kaupmáttur launa hefur aukist. Ég tel afar mikilvægt að áfram verði haldið á þessari braut og svigrúm vegna batnandi árferðis í efnahagsmálum verði skynsamlega nýtt til þess að koma í veg fyrir kollsteypur.

Það kann að vera hollt að líta til þess sem er að gerast meðal annarra þjóða í þessu efni. Oft er mikið rætt um Danmörku. Hvað er að gerast þar? Efnahagslíf þar í landi er almennt talið standa vel, jafnvel með því besta sem gerist í Evrópu. Engu að síður er yfirlýst markmið stjórnvalda að halda launahækkunum í skefjum þannig að þær verði minni en hjá helstu samkeppnislöndum þeirra. Af hverju er þetta talið nauðsynlegt? Jú, vegna þess að ella versnar samkeppnisstaða atvinnulífsins og þar með dregur úr atvinnu og atvinnuleysi eykst. Ég vil einnig vísa í afar athyglisvert samkomulag sem var nýlega gert milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í Írlandi. Þar er kveðið á um þriggja ára kjarasamninga með launahækkunum sem miða að því að styrkja samkeppnisstöðu írsks atvinnulífs. Auk þess er gert ráð fyrir að stjórnvöld beiti sér fyrir margvíslegum aðgerðum til þess að treysta stöðu atvinnulífs og launafólks um leið og lögð er áhersla á trausta stöðu ríkisfjármála. Þessi tvö dæmi, frá Danmörku og Írlandi, sýna svo ekki verður um villst hve mikilvægt er talið að fara varlega í sakirnar og forðast að stofna stöðugleikanum í hættu.

Nú má enginn skilja mig þannig að ég sé að tala gegn launahækkunum í næstu kjarasamningum. Öðru nær. Sem betur fer eru fyrirtækin nú almennt betur í stakk búin en oft áður til að hækka laun án þess að verðbólgan fari úr böndunum. Þróunin undanfarin tvö ár ber þessu glöggt vitni en á þeim tíma hefur kaupmáttur heimilanna aukist um 8--9%. Þá er verið að tala um ráðstöfunartekjur þegar búið er að taka tillit til skatta. Okkur ber hins vegar að gæta þess eins og nágrannar okkar og keppinautar í öðrum löndum gera að í komandi kjarasamningum verði tekið mið af þeim efnahagslega ramma sem markast af aukningu þjóðartekna. Þannig má koma í veg fyrir að verðbólgan fari aftur á skrið en hún leikur þá verst sem minnst mega sín. Mestu máli skiptir að þjóðartekjur haldi áfram að vaxa og stuðli þannig að fjölgun nýrra starfa. Reynslan ætti að kenna okkur að sígandi lukka er best.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.