Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:22:49 (87)

1996-10-08 14:22:49# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði spurninga sem var svarað þegar fjárlög yfirstandandi árs voru til umræðu, í desember í fyrra. Þá var samþykkt á hinu háa Alþingi að fara þá leið sem hv. þm. benti á en frestað þar til 1. sept. vegna þess að þá lágu fyrir skattframtöl sem gáfu upplýsingar um tekjur fólks á sl. ári.

Hugmyndin er sú og er auðvitað einföld þegar á hana er horft að tekjur, hverju nafni sem þær nefnast, skerði með sama hætti eða svipuðum tryggingar frá Tryggingastofnuninni þannig að ekki sé gerður verulegur munur á því hvort fólk fær tekjur af hlutabréfum, skuldabréfum eða fjármagni sem það á í bönkum og hinu að fólk hafi tekjur af vinnu við venjuleg störf í atvinnulífinu eins og að grafa skurð eða vinna í Sementsverksmiðju ríkisins, svo ég taki tvö dæmi. Þessi aðgerð fjallar fyrst og fremst um það. Ég hélt satt að segja að menn áttuðu sig á því að það væri ekki eðlilegt að sumar tekjur, tekjur þeirra sem jafnvel hafa getað safnað verulegum fjármunum eða eignast verulega fjármuni í bönkum eða í hlutabréfum eða skuldabréfum, ættu að hafa önnur og minni áhrif en tekjur sem fólk hefur með öðrum hætti. Um þetta hélt ég að væri gott samkomulag. Satt að segja sögðu ýmsir stjórnarandstæðingar í fyrra að þeir teldu þetta vera eðlilegt ef á síðasta þingi yrðu samþykkt lög um fjármagnstekjuskatt. Þau lög hafa nú verið samþykkt og taka gildi um næstu áramót.