Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:34:28 (94)

1996-10-08 14:34:28# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:34]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræðan sem hér var flutt vekur kannski mesta athygli fyrir það sem ekki var í henni sagt. T.d. minntist hæstv. fjmrh. ekki einu orði á niðurskurðinn til menntamála og það sem þar er að gerast. Hins vegar var nokkuð athyglisvert að hlusta á hugleiðingar hans um framtíðina og framtíð velferðarkerfisins þótt ekki væri ég sammála öllu því sem þar kom fram. En það er heldur óvenjulegt að menn séu aðeins að líta til framtíðar úr þessum ræðustól.

Það er tvennt sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um. Það er annars vegar setning sem er að finna í ræðu hans og er reyndar að finna einnig óbreytta í sjálfu fjárlagafrv. á bls. 232, þar sem sagt er að uppi séu ,,áform um breyttar áherslur í rekstri fjölmargra ríkisstofnana með hliðsjón af stórstígum framförum í samgöngum og fjarskiptum og samkeppni við einkaaðila. Líkt og á einkamarkaði munu þjónustusvæði stækka og stofnanir verða færari til að sinna hlutverki sínu þótt þeim fækki.`` Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað þýðir þetta? Hvaða áform eru uppi um fækkun ríkisstofnana og breytt hlutverk sem ráðast m.a. af samgöngum og fjarskiptum?

Í öðru lagi langar mig að vekja athygli á því að í mínu pósthólfi í dag var að finna stjórnsýsluendurskoðun á Húsnæðisstofnun ríkisins, skýrslu frá Ríkisendurskoðun og þar er m.a. bent á hina slæmu stöðu Byggingarsjóðs verkamanna. Þar segir m.a. með leyfi forseta:

,,Sé tekið mið af stöðunni í lok síðasta árs og jafnframt að útlánum sjóðsins yrði hætt nema að því er varðar endursöluíbúðir stefnir í að eigið fé hans verði upp urið skömmu eftir aldamót miðað við 5% vexti á lántökum. Séu eignir og skuldir núvirtar benda útreikningar til að nú vanti um 4--5 milljarða kr. í sjóðinn.``

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvers vegna er ekkert á þessu tekið núna? Ætla menn virkilega að stefna Byggingarsjóði verkamanna áfram í algert óefni?