Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:39:10 (96)

1996-10-08 14:39:10# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:39]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi Byggingarsjóð verkamanna, þá var bent mjög sterklega á það við afgreiðslu fjárlaga í fyrra að þarna væri vandi sem þyrfti að taka á og hann er enn til staðar. Ég vil taka undir að það er mjög nauðsynlegt að taka á þessu máli. Þarna stefnir í óefni.

Varðandi fækkun stofnana, þá hefur hæstv. ráðherra hér með upplýst hvað þarna er átt við sem er ekki annað en það sem reyndar er nefnt í sjálfu fjárlagafrv. Ég vil þó rifja upp að það hefur gengið afar þunglega á undanförnum árum að ná fram slíkum breytingum og vil ég heita ráðherra stuðningi mínum hvað ýmislegt varðar í þeim efnum því að það er alveg greinilegt að við Íslendingar þurfum að taka á okkar yfirbyggingu þó það þurfi auðvitað að vega og meta hvar á að skera niður.

Ég hef ekki tíma til þess að fara út í menntamálin en ég vil þó minna á að í fjárlagafrv. er að finna mjög sársaukafullan niðurskurð hjá framhaldsskólanum. Ég held að það kunni ekki góðri lukku að stýra að taka einn þátt út úr og skera á einum stað en auka á öðrum. Þarna þarf að ríkja samræmi og niðurskurðurinn í framhaldsskólunum kemur að sjálfsögðu niður á háskólamenntun síðar meir.