Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:41:20 (98)

1996-10-08 14:41:20# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:41]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég geta þess að ég hef ekki fengið neitt lengra sumarfrí en hæstv. ráðherra. En við höfum nú hlýtt á boðskap hans. Hann boðar fjárlagafrv. með tekjuafgangi fyrir árið 1997. Því ber að sjálfsögðu að fagna. Það hefur ekki gerst fyrr í hans tíð. Ef til vill má vonast til þess að hann komi til þeirra sem þurfa betri kjör. En þegar farið er ofan í kjölinn á frv. kemur ýmislegt í ljós sem skyggir á þá áætlun sem frv. gerir ráð fyrir.

Sá árangur sem gert er ráð fyrir að ná er m.a. 1,5 milljarðar í tekjuafgang. Eðlilegt er og rétt að menn lýsi ánægju sinni með þetta atriði. En þegar málin eru skoðuð betur hljóta að renna á menn tvær grímur þegar stilla má upp tekjuafgangi nákvæmlega á móti tekjuskerðingum til ellilífeyrisþega og öryrkja upp á 120 millj., skerðingu í Framkvæmdasjóð fatlaðra upp á 255 millj. og samdrætti í húsnæðiskerfinu upp á einn milljarð. Þetta er sama upphæð og hæstv. ráðherra ætlar að vera með í tekjuafgang.

Aldraðir bótaþegar verða að þola meiri kjaraskerðingu en nokkrir aðrir þjóðfélagsþegnar í formi skerðingar á bótum, með aukinni kostnaðarþátttöku við lyfjakaup og einnig með skerðingum sem komu til framkvæmda 1. sept. og til viðbótar fá þeir sem einhverja aura hafa lagt til hliðar á sig fjármagnstekjuskatt um næstu áramót. Mér finnst lítið til reikningskúnsta fjmrh. og hans meistara koma þegar þessu ljósi er varpað á gerðir þeirra.

Það er skuggalegt að það má lesa með berum orðum í framlögðu frv. að hagvaxtaraukninguna má rekja til aukinna þjóðarútgjalda, mestmegnis til skuldasöfnunar heimilanna. Skýra má 5,5% hagvöxt að nokkru leyti með því að í trú á góðærið hafa margir fengið sér far á 1. klassa á hringekju verðlagsþróunar í von um betri tíð í samræmi við góðærisumræðu á liðnu ári. Skuldaaukning heimilanna er um 11,5% frá júní 1995 til júní 1996. Hugsanlegt er að skuldaaukning heimilanna verði nálægt 20% á árinu 1996 ef það er notað í heild sinni sem viðmiðun. Þetta tel ég vera alvarlegt mál.

Ég veit ekki hvort það er eftirsóknarvert þegar þetta er skoðað að Ísland sé í hópi OECD-ríkja þar sem hagvöxtur er mestur. Staða okkar er þannig að skuldir ríkisins eru nálægt því að vera helmingur þjóðarframleiðslunnar. Það er stefnt að lækkun þessa hlutfalls og ber að fagna því ef það gengur eftir. Menn vonast eftir eða setja sér það mark að útgjaldaaukning verði aðeins um 2,5%. Þótt ekki séu markmiðin háleit má samt fagna þessum áformum.

[14:45]

Hagvöxtur á árinu 1996 er áætlaður 5,5% sem er hátt hlutfall og á árinu 1997 er gert ráð fyrir 2,5% hagvexti. En það vekur áhyggjur að hagvöxtur er áætlaður að hluta vegna enn aukinnar skuldaaukningar heimilanna þar sem búast má við æ fleiri gjaldþrotum og hörmungum í fjölskyldunum í kjölfar skuldsetninganna. Með öðrum orðum, hvernig í ósköpunum ætlar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., að reka Ísland hf. ef hún ræður ekki við að stjórna í góðærinu og vorinu sem hefur verið boðað í sífellu síðasta ár? Fyrirmælin má lesa beint og á milli línanna í fjárlagafrv. 1997 um að launahækkanir verði ekki meiri en 3,5%.

Herra forseti. Ég tel að menn verði að stjórna af hógværð í þessu tilliti. Láglaunastéttirnar verða að fá umtalsverðar kjarabætur og það verður að koma í veg fyrir að launaskrið fari upp um allan launastigann. Það getur e.t.v. verið að unnt sé að ræða um tiltölulega lága prósentutöluhækkun ef nógu mikið fer til þeirra lakast settu og nógu lítið til þeirra með hæstu launin.

Herra forseti. Flutningur grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga er málefni sem er ástæða til að geta um sem eðlilegan gjörning í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ég hef þá skoðun að rétt sé að flytja verkefni til sveitarfélaganna í eins miklum mæli og mögulegt er eftir góðan undirbúning. Eðlilegur tekjuflutningur þarf að fylgja með og athuga þarf gaumgæfilega tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þegar tilflutningur verkefna á sér stað. Ég lýsi yfir áhyggjum af fækkun kennslustunda, sem er um 3% að meðaltali, til nemenda. Vel má vera að menn geti hagrætt þannig að kennslumagn skili sér til nemenda þrátt fyrir þessa fækkun kennslustunda en ég tel að ástæða sé til að skoða það mjög vel hvernig til tekst eftir þetta fyrsta ár.

Ég hefði gjarnan viljað sjá í frv. einhverjar áherslur sem hvetja til sameiningar sveitarfélaga. Þjónusta af hálfu sveitarfélaga er mjög mismunandi þó öllum beri þeim skylda til að veita hana. Nauðsynlegt er til að efla sveitarstjórnarstigið, jafna tekjur með sameiningu samliggjandi sveitarfélaga sem eru með mismunandi tekjur og ófullkomið þjónustustig.

Alvarlegasta atriðið í þessu fjárlagafrv. er að ekki er tekið á því hvernig stöðugri aukningu kostnaðar í heilbrigðisþjónustunni skuli mætt, svo sem af lyfjum. Stefna hæstv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum er heldur ekki ljós. Á þessu ári, 1996, er reiknað með 2,7 milljarða halla á ríkissjóði. Þar af er hallinn af heilbrigðismálum um það bil 1.400 millj. kr. Aukin fjárþörf vegna sjúkratrygginga er um 900 millj. kr. sem skýrist að verulegu leyti af tilflutningi kostnaðar frá sjúkrahúsunum til Tryggingastofnunar ríkisins. Samkomulagið um verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur í för með sér viðbótarfjárveitingu sem nemur 430 millj. kr. til þeirra. Þrátt fyrir þetta samkomulag kemur í ljós að grípa á til harðari aðgerða en nokkru sinni fyrr og má í því sambandi vitna til tilflutnings vistmanna á Arnarholti. Í dag og á morgun er boðað til harkalegra lokunaraðgerða á deildum Sjúkrahúss Reykjavíkur um lengri og skemmri tíma á komandi mánuðum og árum. Hverjar verða svo afleiðingarnar? Afleiðingarnar verða lengri sjúkrabiðlistar, meiri lyfjakostnaður, aukin útgjöld Tryggingastofnunar og heildarniðurstaðan er þjóðhagslega óhagkvæm. Ég tel að sterkar líkur séu á því að umtalsverða upphæð vanti til heilbrigðismála, a.m.k. einn milljarð, ef mæta á þeirri knýjandi nauðsyn sem er til staðar í málaflokknum og í uppsöfnuðum vanda.

Það er e.t.v. unnt að finna stjórnunarlegan árangur í frv. í efnahagsmálum. Auknar tekjur eru grunnurinn að framlagningu frv. án halla. Aðgerðir til að tryggja stöðugleika voru unnar í samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili. Sitjandi ríkisstjórn nýtur þeirra verka. Í því liggur árangurinn. Auknar tekjur ríkisins eru vegna ytri aðstæðna ásamt aukinni skattheimtu í formi þjónustugjalda, hagstæðum skilyrðum í sjónum og mikilli sókn á úthafsveiðisvæðin.

Herra forseti. Ég nefndi lyfjakostnað fyrr í máli mínu. Þjóðin, sem eldist hratt, hefur þurft meira af lyfjum ár frá ári. Samt ætla menn að lækka lyfjakostnað um 400 millj. kr. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að framkvæma það? Dettur nokkrum svar í hug? Meiningin er að gera það með útboðum, aukinni samkeppni í lyfjainnflutningi og sölu lyfja með samningum. Hefði einhverjum dottið í hug að Framsfl. ætti eftir að nota þessa möguleika, flokkurinn sem barðist gegn auknu frelsi og samkeppni í lyfjasölu og lyfjainnflutningi? Hann ætlar núna að ná inn 400 millj. á þessum grundvelli. Þetta er kannski undir leiðsögn hæstv. fjmrh. En útfærslan er ekki sjáanlega í frv. Þau eru orðuð í frv. einhvern veginn á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Stefnt er að því að settar verði nýjar reglur um verðlagningu lyfja með greiðsluþátttöku trygginga.``

Svo mörg eru þau orð, herra forseti. Enga nánari útfærslu er að finna í frv. nema að fyrirhugað er að ráðast í gæða- og kostnaðarkynningu fyrir lækna sem vísa á lyf og gefa út nýja lyfjalista sem greiðsla almannatrygginga miðast við. Hverju á það svo að skila? Ég spyr.

Til viðbótar við þetta eru áform um að lækka tannlæknakostnað um 80 millj. með hertu eftirliti eins og stendur orðrétt. Með öðrum orðum, enn á að takmarka kostnaðarþátttöku ríkisins við tannviðgerðir og í þessu felst að mínu mati einnig ásökun á tannlækna um misnotkun.

Ein alvarlegasta breytingin í efnahagslífinu frá fyrra ári er aukinn viðskiptahalli vegna aukinnar neyslu. Spá um að jafnvægi náist ekki fyrr en um aldamót gefur tilefni til að brýna stjórnvöld til að gá vel að sér. Í fjárlagafrv. er að finna ýmislegt forvitnilegt sem er sett fram en ekki er mikið um skýringar við þau orð. Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. með leyfi forseta: Hvað er átt við í kaflanum um samkeppnisstöðu atvinnulífs á bls. 235 í frv. með orðunum: ,,Einnig eigi að opna fyrir erlendar fjárfestingar og auka sem mest frelsi í viðskiptum, ekki síst innflutning.`` Hvers konar innflutning er um að ræða? Eru það landbúnaðarafurðir sem átt er við?

Einnig spyr ég: Hvar á að opna fyrir erlendar fjárfestingar? Er það t.d. í sjávarútvegi? Ef svo er þá ber að fagna því. En ég spyr um þetta. Hvað er átt við með orðunum, með leyfi forseta: ,,Reynt verði eftir megni að skapa markaðsaðstæður í ríkisrekstri, t.d. með þróun innri markaðar og þjónustugjöldum.`` Fróðlegt væri að fá svar við því hvað þetta ber með sér.

Því ber að fagna að menn telja sig vera að stjórna á þeim grundvelli að jafnvægi verði náð í ríkisfjármálum með stöðugleika. Þingflokkur jafnaðarmanna vill ekki kollsteypur. Þingflokkur jafnaðarmanna vill nýta efnahagsbatann skynsamlega. Þingflokkur jafnaðarmanna mun vinna gegn því að verðbólgan fari aftur á skrið. Það eru betri aðstæður en á undanförnum átta árum til að ná árangri í meðferð ríkisfjármála. En það virðist vera sem svo að vandinn ætli að vaxa ríkisstjórninni yfir höfuð og eru ýmis þenslueinkenni sjáanleg eins og ég hef áður nefnt í ræðu minni. Af því höfum við áhyggjur í þingflokki jafnaðarmanna.

Herra forseti. Ríkisstjórnin verður að hafa áhrif um að mæta kröfum þeirra sem lökust hafa kjörin og bæta þau verulega. Ríkisstjórnin verður í samráði við aðila vinnumarkaðarins að setja hömlur á að launaskrið berist upp allan launastigann. Ég lýsi því yfir að ég mun styðja slíkar aðferðir ef menn hafa í sér döngun til alvörustjórnunar á þessu sviði. Ég fullyrði að þörf er á að setja hömlur á launaskrið til að koma í veg fyrir verðbólgu en fyrst þarf að lyfta lægstu laununum verulega og gefa einstaklingunum, hvernig svo sem þeir eru settir, möguleika á að lifa af lágmarkslaunum eða lágmarksbótum sem nægja til nauðþurfta, þ.e. fyrir fæði, fyrir húsnæði, fyrir fatnaði og fyrir öryggisbúnaði, svo sem síma, útvarpi og sjónvarpi. Lágmarkslaun duga ekki fyrir þessum liðum.

Herra forseti. Þessi umræða um frv. til fjárlaga er sett upp þannig að stjórnarliðar hafa verið með í undirbúningi og umræðum um frumvarpssmíðina eins og eðlilegt er og hafa fjallað meira og minna um einstaka liði frv. á undanförnum vikum. Stjórnarandstaðan hefur haft frv. undir höndum eina helgi og er því ólíku saman að jafna hvað menn hafa góðan tíma til undirbúnings fyrir umræðuna. Ég tel mjög athugandi að frv. sé til skoðunar í a.m.k. 10 daga fyrir 1. umr. þannig að tími gefist til þess fyrir fjárln. að fara nákvæmlega yfir grundvallaratriði og breytingar á milli ára. Slík vinnubrögð gætu flýtt meðferð frv. á Alþingi. Frv. fer til frekari umfjöllunar fjárln. að lokinni 1. umr. Ástæða er að sjálfsögðu til að ræða einstaka liði frekar en við sjáum til þegar fram líður hvernig á þeim málum verður tekið.

Ég má til með, herra forseti, að fagna því að horfur í atvinnumálum eru betri en búist var við. Þó má lítið út af bera í þeim málum. Ég minni á að núna þegar kvótaárið er nýhafið er verið að segja upp fiskvinnslufólki, t.d. í kjördæmi hæstv. félmrh., svo að tugum skiptir en á sama tíma var verið að veita atvinnuleyfi fyrir 70 útlendinga í gær. Það er staðreynd að það eru 555 mönnum færra á atvinnuleysisskrá núna en á sama tíma fyrir ári.

Ef ég man rétt er reiknað með að eðlileg fjölgun á vinnumarkaði sé um það bil 1.500 manns á ári. Alvarlegustu atriðin varðandi atvinnuleysið hér á landi er langtímaatvinnuleysi. Fjöldi atvinnulausra hefur ekki verið í vinnu árum saman. Það er, herra forseti, mjög alvarlegt. Það er mjög alvarlegt.

[15:00]

Í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir svipuðum sjávarafla og á árinu 1997. Vitaskuld er reiknað með aukningu á þorskafla af heimamiðum. En hverjar, hæstv. ráðherra, eru áætlanir um afla af Flæmska hattinum, af Reykjaneshrygg og úr Smugunni? Þessum spurningum beini ég til hæstv. fjmrh. og ég reikna með að hann svari nú þegar á eftir.

Í spá sem gerð var 1996 var gerð grein fyrir tekjum af sjávarafla af þessum umræddu veiðisvæðum. Hversu mikill afli er í tekjugrunni ríkissjóðs af þessum svæðum?

Herra forseti. Því ber að fagna eins og kom áðan fram í ræðu hæstv. fjmrh. að frv. um fjárreiður ríkisins verður lagt fram á næstu dögum. Stjórnarandstaðan var á síðasta þingi reiðubúin að greiða fyrir umræddu frv. eins og það var þá. En af einhverjum ástæðum sáu stjórnarflokkarnir einhver rök fyrir því að draga þetta mál til baka. Ég tel að það verði að gera enn meiri breytingar til batnaðar í meðferð ríkisfjármála. Ég vona að frv. beri það með sér að það fái góða afgreiðslu á okkar virðulega Alþingi.

Ástæða er til að rekja frekar ýmislegt af því sem er sett fram í þessu frv. Með leyfi forseta, vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvað átt er við í lið 1.4 á bls. 233 þegar sagt er:

,,Lykilorðið í þessari þróun er aukið frelsi í viðskiptum, jafnt með vörur, þjónustu og fjármagn. Á flestum sviðum hefur hömlum verið aflétt og höftum, boðum og bönnum verið ýtt úr af borðinu.``

Hver eru helstu bönnin sem eftir standa og koma í veg fyrir betri afkomu ríkissjóðs? Ég vil gjarnan fá að heyra svör við þeirri spurningu sem ég tel ákaflega mikilvæga.

Á bls. 235 segir, með leyfi forseta:

,,Mikilvægasta verkefnið er að lækka ,,jaðarskattana``, bæði sjálft tekjuskattshlutfallið og ,,jaðaráhrif`` ýmissa bótagreiðslna.``

Hver eru áformin, hvernig ætla menn að ná þessu fram? Eru tillögur þar að lútandi tilbúnar? Ég spyr einnig um þetta.

Gaman er að velta fyrir sér orðalagi á þessu frv. Kannski rétt að geta um það að sagt er að reynslan ætti að kenna okkur að sígandi lukka sé best. Fer það sem sígur ekki niður? Það sem stígur fer upp. Það er spurning hvernig á að orða þetta. Þetta er svolítið kátlegt orðalag.

Það má líka velta fyrir sér ýmsu öðru í orðalagi þessa ágæta frv. Hér stendur m.a.:

,,Síðast en ekki síst hefur vöxtur í lántökum ríkisins dregist verulega saman.``

Vöxtur í lántökum ríkisins hefur dregist verulega saman. Skondið orðalag. Hvað er átt við með þessu? Þær jukust um 4,4% á helmingi þessa árs samanborið við 8,4% á sama tíma í fyrra. Það er ýmislegt í þessu frv. sem skilst kannski en er kátlegt.

Herra forseti. Ég vonast eftir svari nú þegar ég lýk máli mínu við þeim spurningum sem ég hef beint til hæstv. fjmrh. Ég er sannarlega ósáttur við að ráðherra sá sér ekki fært að vera við allan tímann meðan ég átti við hann orðastað. Spurningum mínum var fyrst og fremst beint til hans.